Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:18:11 (1114)

1995-11-20 16:18:11# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég lýsti afstöðu minni til málsins í heild við 1. umr. þessa þingmáls og þarf ekki að endurtaka það. En þó langar mig að segja fáein orð í framhaldi af því sem hér hefur komið fram og finnst sjálfsagt að vekja athygli á.

Ég er sammála áliti minni hluta félmn., tel það prýðilega rökstutt út frá þeim grundvallarsjónarmiðum að breytingar af þessu tagi verði að njóta stuðnings þeirra sem eiga að búa við breytingarnar. Það er að mínu viti prýðilegt nefndarálit sem ég get fyllilega stutt. Ég geri athugasemd við það sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. þar sem þingmaðurinn lýsti skoðunum sínum og ég hygg líka skoðunum þingflokksins á 109. gr. núverandi sveitarstjórnarlaga. Þingmaðurinn tók þannig til orða að sú lagagrein hefði ekki dugað. Þá spyr ég: Hverjum hefur hún ekki dugað? Ég veit ekki annað en hún hafi dugað alveg prýðilega til þess sem hún er ætluð. Lagagreinin kveður á um að það eigi að leita álits íbúanna og þeir eigi að ráða. Það hefur verið gert og afstaða þeirra hefur í öllum tilvikum fengið að ráða. Með öðrum orðum er ég þeirrar skoðunar að lagagreinin hafi dugað vel, ekki bara að hún hafi dugað sæmilega, hún hefur dugað fyllilega til að mæta því sjónarmiði sem henni er ætlað.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hlýtur þá að meina að hún hafi ekki dugað einhverjum öðrum en þeim íbúum sveitarfélaganna sem hafa kosið það sem hefur orðið niðurstaðan. Mér finnst vanta að hún gerði grein fyrir því hverjum lagagreinin hefur ekki dugað. Eða með öðrum orðum, hagsmuni hverra eigum við að taka fram yfir hagsmuni íbúanna í sveitarfélaginu? Í afstöðu þingmannsins felst að hún álítur að afstaða íbúanna hafi ekki verið nógu góð og því hljóti hagsmunir einhverra annarra að eiga að ráða. Ég vildi því gjarnan spyrja þingmanninn hvort hún er að boða að það eigi t.d. að afnema þá reglu sem er í lögum að íbúarnir eigi að ráða þessum málum. Það er út af fyrir sig sjónarmið eins og ég rakti við 1. umr. málsins sem er til sums staðar erlendis að þetta er ákveðið með lögum og algerlega án afskipta eða íhlutunar íbúa einstakra sveitarfélaga. Þetta er þekkt. En hér á landi hefur það ætíð eftir því sem ég best veit verið niðurstaðan af hálfu löggjafans að menn vildu leiða þessi mál fram í fullkomnu samræmi við vilja íbúanna. Það er því annað sjónarmið uppi ef þingflokkur Þjóðvaka telur það ekki hafa dugað og vill þess vegna beita sér fyrir einhverri annarri aðferð. Það væri út af fyrir sig forvitnilegt að fá lýsingu á því hvaða aðferð sá þingflokkur vill viðhafa í þessu efni og menn geta svo haft sínar skoðanir á því. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að beita þeirri aðferð að byggja sameiningu á vilja íbúanna. Þannig á að fara að að mínu viti og ég er ekki fús til að víkja mikið frá því sjónarmiði.

Mig langar að beina fyrirspurnum til hæstv. félmrh. varðandi frv. til að fá útskýringar á tilteknu orðalagi þannig að ekki leiki neinn vafi á því upp á síðari tíma þar sem gera má ráð fyrir að þetta frv. nái fram að ganga. Það er varðandi síðari mgr. 1. gr. sem kveður á um heimildina til sveitarstjórna að samþykkja tiltekna sameiningu þegar atkvæðagreiðsla hefur farið eins og þar er lýst. Ég spyr: Er það ekki alveg ótvíræður og réttur skilningur á þessum texta að sveitarstjórnir allra þeirra sveitarfélaga sem segja já verða að ákveða sameiningu til þess að lagaákvæðið sé virkt? Með öðrum orðum, getur verið nokkur vafi á því að það er ekki ætlast til þess ef t.d. fjögur sveitarfélög segja já að þá fari fram bara sameining þriggja eða tveggja? Ég vildi að ráðherrann kvæði alveg upp úr með þetta þannig að ekki geti komið upp neinn misskilningur upp um þetta efni. Auðvitað er hugsanlegt ef fjögur eða fimm sveitarfélög segja já að eitthvert þeirra skerist úr leik og sveitarstjórnin í viðkomandi sveitarfélagi segi: Nú er þetta eitthvað breytt frá því sem við kusum um og nú drögum við okkur til baka a.m.k. að sinni. Þá kemur spurningin: Geta þeir sem eftir standa sameinað þau sveitarfélög? Ég skil lagaákvæðið þannig að það sé ekki, það verði að vera öll sveitarfélögin og óska eftir skilningi ráðherra á þessu, enda er hann flm. málsins.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að þetta heitir ákvæði til bráðabirgða. Hins vegar eru engin tímamörk á ákvæðinu þannig að það mun halda gildi sínu um ókomna framtíð. Ég er ekki viss um að það sé mjög skynsamlegt ef ákvæðið væri virkt að sveitarstjórnirnar sem í hlut eiga geti nýtt sér þetta ákvæði svo lengi sem þeim býður við að horfa, þ.e. málið geti legið í láginni í tvö ár, þrjú ár eða fjögur ár og þá gætu menn allt í einu hrokkið til. Ég hygg að eðlilegast sé bæði vegna málsins sjálfs og líka vegna hins að þetta er ákvæði til bráðabirgða að það verði þá tímabundið svo að það verði til bráðabirgða, annars er það ekki bráðabirgðaákvæði. En það má bæta úr því síðar ef menn eru sammála um það.

Ég vek líka athygli á orðalaginu í 1. gr. Þar er talað um meiri hluta greiddra atkvæða. Þetta skiptir máli og ég vil nefna það svo að því sé haldið til haga en ekki endilega vegna þess að ég búist við því að á það reyni en aldrei skal maður útiloka það. Þetta er annað orðalag en það sem er í lögunum í dag þar sem segir að ef tillaga sé samþykkt þurfi fleiri að greiða atkvæði með tillögunni en á móti. Þetta þýðir að þeir sem sitja hjá eða ógilda atkvæði sitt eru ekki taldir með heldur einungis þeir sem taka afstöðu með eða móti. En orðalagið ,,meiri hluti greiddra atkvæða`` þýðir meiri hluti greiddra, þ.e. þeirra sem taka afstöðu með eða móti, þeirra sem skila auðu og þeirra sem gera ógilt. Það getur verið munur þarna á og sérstaklega þar sem um er að ræða sveitarfélag þar sem fá atkvæði eru. Við getum ímyndað okkur að í atkvæðagreiðslu séu 100 atkvæði, tveir skili auðu og einn geri ógilt þannig að 97 taka afstöðu, 48 segja já og 47 segja nei. Í atkvæðagreiðslunni er tillagan samþykkt skv. 109. gr. í dag en samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu er hún ekki samþykkt því að það þarf meiri hluta greiddra atkvæða, það þarf meiri hluta af hundraði.

Ég bara vek athygli á þessu sem getur hugsanlega komið upp þó að það sé ólíklegt en menn þurfa þá að vera meðvitaðir um að ekki rísi upp deilur eða ágreiningur um það á síðari stigum. Þetta er tæknilegt atriði sem hefur komið upp í umræðunni á fyrri stigum sameiningarmáls og ég hef kynnst við störf þar. Ég vil halda þessu til haga þannig að mönnum sé ljóst að þetta er til í dæminu þó að það sé afar ólíklegt.

Fleira hafði ég ekki hugsað mér að leggja inn í umræðuna að sinni. Ég vísa til ræðu minnar við 1. umr. málsins að öðru leyti. En ég vil þó leggja áherslu á að það sem er sérstakt við þetta mál er að menn líta á það sem vandamál að spyrja íbúana um skoðun þeirra til tiltekins máls. Auðvitað er ekki góður svipur á því að menn flytji þingmál sem er byggt á því að menn treysta ekki eigin kjósendum. Ég minni á það sem fram kemur í greinargerð samstarfsnefndarinnar sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Það er mat samstarfsnefndarinnar að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi að íbúar eins eða tveggja sveitarfélaga geti fellt tillögu nefndarinnar. Að óbreyttum lögum yrði þá að hefja nýja tillögugerð og efna til nýrra kosninga. Flest bendir til að verulegur dráttur yrði á því að kosið yrði um nýja tillögu og vafamál að umboð samstarfsnefndarinnar yrði framlengt af viðkomandi sveitarstjórnum.``

Hvað felst í þessu? Í fyrsta lagi bendir flest til þess að verulegur dráttur yrði á því að kosið yrði um tillögu. Hver ákveður hvenær kosið er um tillögu? Svarið er sveitarstjórn þannig að í þessu felst að menn efast um að sveitarstjórnirnar muni koma sér saman um að kjósa aftur.

[16:30]

Í öðru lagi er vafamál að umboð samstarfsnefndarinnar yrði framlengt af viðkomandi sveitarstjórn. Aftur efast samstarfsnefndin um að hún fengi stuðning frá sínum eigin umbjóðanda fyrir því að halda áfram starfi. Þegar við skoðum málið í heild þá er það lagt fram vegna þess að menn efast um stuðning íbúanna að einhverju marki og menn efast um stuðning sveitarstjórnanna. Ef menn hefðu góða vissu fyrir stuðningi bæði íbúa og sveitarstjórna, þá væri það ekkert vandamál að kjósa aftur ef svo færi að eitthvert sveitarfélagið mundi fella tillöguna þannig að þetta er bakgrunnur málsins. Hann er byggður á því að menn eru ekki vissir um að stuðningurinn sé nægilega mikill. Þetta veikir málið mjög mikið og sérstaklega í ljósi þess að þeir menn sem hafa efasemdir uppi um stuðning við sín störf eru að fara fram á það við Alþingi að það breyti lögunum svo að þeir geti komið því framkvæmd sem þeir vilja og hafa áhuga á þrátt fyrir veikleika í baklandinu. Þess vegna tek ég undir það, þó að það sé kannski ekki endilega á sömu forsendum, sem kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að ég vonast til þess að við munum ekki sjá aftur tillöguflutning af þessu tagi þar sem svæðisbundin mál eru lögð fyrir Alþingi í þessum búningi. Ég held að menn verði að gera það eins og bent er á í nefndaráliti minni hlutans. Það verður að vera heildarafstaða sem menn taka til málsins óháð sveitarfélögunum, óháð einstökum landsvæðum. Ég er fyllilega sammála þeirri skoðun sem kemur fram í nefndarálitinu.

Ég vil svo að lokum undirstrika að ég vona að menn séu sammála um í öllum þingflokkum að það eigi að grundvalla sameiningu sveitarfélaga á samþykki íbúanna. Hins vegar kann að vera mismunandi afstaða til þess hvort menn eru tilbúnir að víkja frá þessari skoðun og heimila einhverjum smærri hóp að meta vilja íbúanna en út á það gengur í raun þessi tillaga að ákveðnum mönnum er falin heimild til að meta skoðun íbúanna út frá atkvæðagreiðslu um annað mál. Þar erum við komnir út á dálítið grátt svæði þegar við erum farnir að byggja ákvarðanatöku á öðru en beinum vilja íbúanna. Ég skal ekki fortaka fyrir það að menn geti komið sér saman um reglur sem fela það í sér að í vissum tilvikum sé réttlætanlegt að fela sveitarstjórnum að meta þennan vilja. Ég ætla ekki alveg að útiloka það að menn geti komið sér saman um leikreglur í því skyni sem ég mundi telja ásættanlegar út frá mínu sjónarmiði. Ég held að það sé um þetta atriði sem menn eru í raun að skiptast á skoðunum en ekki hinu hvort það eigi yfir höfuð að láta íbúana ráða í meginatriðum. Um það hef ég hingað til talið að menn væru sammála hér á Alþingi.