Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:41:24 (1118)

1995-11-20 16:41:24# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:41]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að minnast á eitt atriði varðandi sveitarstjórnarlögin frá 1986. Ákvæði laganna í 109. gr. var ekki samþykkt þá eins og það er núna. Það var hins vegar samþykkt með það sem við getum kallað neikvæða sönnunarbyrði, þ.e. þess var ekki krafist að íbúarnir samþykktu sameiningu heldur einungis krafist að þeir höfnuðu og þá var ekki nóg að helmingur þeirra sem tæki þátt í atkvæðagreiðslu synjaði. Þeir sem sögðu nei urðu að vera a.m.k. helmingur þeirra sem voru á kjörskrá. Það var því mjög sterkt ákvæði í lögunum frá 1986 til að stuðla að fækkun sveitarfélaga og miklu sterkara en er í dag.

Niðurstaðan varð sú að sveitarfélögum fækkaði nánast ekki neitt. Reynslan af þessu lagaákvæði varð sú að sveitarstjórnirnar voru á móti. Þegar menn beita þvingunarákvæði af þessu tagi þá framkallar það andstöðu og þá fyrst fór eitthvað að ganga í því markmiði ríkisins að fækka sveitarfélögum þegar búið var að breyta þessu lagaákvæði í pósitíft ákvæði þannig að það þurfti að samþykkja sameiningu en ekki hið gagnstæða, fyrst með bráðabirgðaákvæðum frá 1993 og síðan með þessu ákvæði sem nú er í 109. gr. frá 1994. Ég vil því segja að reynslan segir okkur það að þá fyrst þegar menn fóru að fela íbúunum valdið til að ákveða hlutina fullkomlega á jafnræðisgrundvelli fór þetta eitthvað að ganga.

Svo vil ég minnast á annað atriði sem er tíu ára gömul samþykkt Alþingis á Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Og ég vil skora á þingmanninn að kynna sér þann sáttmála, en þar á meðal er ákvæði um að Alþingi samþykki og geri það að sinni stefnu að tryggja það í löggjöf að sveitarfélögin ráði sínum málum sem mest sjálf, hvort sem það eru sveitarstjórnirnar eða íbúarnir sjálfir.