Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:49:49 (1120)

1995-11-20 16:49:49# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:49]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og Þuríðar Backman þar sem þær fóru nokkrum orðum um þörf á sameiningu sveitarfélaganna vítt og breitt um landið til þess að þau geti staðið undir þeirri skyldu sem þeim er falin samkvæmt lögum vil ég einungis taka fram að ég hef fullan skilning á þessari þörf. Við í minni hluta nefndarinnar ákváðum hins vegar að sitja hjá í stað þess að greiða atkvæði gegn málinu einmitt vegna þess að við höfum fullan skilning á þessari þörf. Við lýsum hins vegar yfir efasemdum um að tekið sé svæðisbundið á málinu annars vegar og hins vegar að hægt sé að víkja frá því sem kosið var um upphaflega. Ég vil einungis ítreka þetta og taka það fram enn og aftur en að öðru leyti höfum við fullan skilning á hug þeirra sveitarstjórnarmanna og þeirra beiðni.