Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:51:10 (1121)

1995-11-20 16:51:10# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. spurði um þrjú atriði. Mér finnst að þau ættu öll að vera ljós en mér er sönn ánægja að því að rekja þau úr ræðustólnum.

Fyrsta spurningin varðaði 1. gr. frv.: ,,... en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2 3 þeirra og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2 3 íbúa á svæðinu er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna.`` Ég skil þessa setningu þannig, og ég tel að hún ætti ekki að orka tvímælis, að hér er átt við þau sveitarfélög sem samþykkja sameininguna, ekki bara sum. Setjum sem svo að fjögur sveitarfélög samþykki, tvö felli sameiningu, þá er þessum fjórum sem samþykkja sameininguna heimilt, ef sveitarstjórnir þeirra óska svo, að sameinast. Það dugir ekki að það séu bara þrjú þeirra. Þá tel ég að það þyrfti að fara fram ný kosning.

Varðandi greiddu atkvæðin sem koma fyrir í textanum líka þá er auðvitað átt við þau atkvæði sem þeir kjósendur greiða sem mæta á kjörstað eða greiða atkvæði bréflega eða utan kjörstaðar. Þ.e. meiri hlutinn verður að vera þeir sem segja já, þeir sem gera ógilt eða skila auðu og þeir sem segja nei hljóta að teljast í einum pakka. Það er átt við meiri hluta greiddra atkvæða og ég lít svo á að greidd atkvæði séu þau atkvæði sem koma fram við talningu.

Hvort ákvæði til bráðabirgða eigi að standa endalaust þá tel ég ekki svo vera. Þetta frv. er flutt með sérstöku tilliti til staðhátta, sérstöku tilliti til kringumstæðna á Vestfjörðum og sérstöku tilliti til árstíma. Ég lít svo á að þetta ákvæði heimili sveitarstjórnum þar sem sameining verður samþykkt ef á þetta ákvæði reynir, sem ég ætla að vona að verði ekki því ég vonast eftir því að öll sveitarfélögin samþykki þessa sameiningu, en ef svo færi að einhver felldu hana þá er sveitarstjórnum þeirra sem samþykkja heimilað að taka afstöðu til málsins. Ég lít svo á að þær þurfi að gera það í vetur, ekki að þær geti farið að geyma það svo árum skipti enda væri það ástæðulaust vegna þess að þegar kemur fram á næsta sumar þá eru engar veðurfarslegar eða samgöngulegar hindranir sem ættu að torvelda eða koma í veg fyrir það að almenn atkvæðagreiðsla gæti farið fram.

Ég vil taka það fram vegna orða sem hér hafa fallið að þetta frv. er ekki lagt fram vegna þess að ég efist um stuðning. Ég vonast eftir því að það sé almennur stuðningur við þessa sameiningu. Það er lagt fram einungis vegna þess að ég féllst á þau rök sameiningarnefndarinnar að vestan að torvelt sé að láta í vetur fara fram tvennar kosningar. Það ætti að vera óþarfi eftir skýra niðurstöðu úr atkvæðagreiðslum.

Ég tel mjög mikilvægt, m.a. með tilliti til síðustu atburða, harmleiksins á Flateyri, að fá úr því skorið hver framtíðaruppbygging svæðisins á að vera, þ.e. fá úr því skorið hvort Flateyri, svo maður nefni það sveitarfélag, verður í óbreyttu formi, þ.e. hvort það gerist aðili að stærra sveitarfélagi eða hvort það sveitarfélag kýs að berjast áfram af eigin rammleik og rísa sem slíkt. Ég tel heppilegt að úr því fáist skorið sem fyrst þannig að hægt sé að haga vinnu og uppbyggingu svæðisins með hliðsjón af því.

Eins og margoft hefur komið fram þá er ég hlynntur frjálsri sameiningu. Ég vil ekki koma aftan að fólki. Ég tel mig ekki bæran að hafa vit fyrir því. Ég tel að félmrn. eigi að veita faglega aðstoð ef sveitarfélög vilja sameinast, ef meiri hluti íbúa vil sameinast, ekki að knýja menn með valdboði til sameiningar og ekki vera með einhverja óeðlilega fjármunafyrirgreiðslu til þess að hafa áhrif á skoðanamyndun fólks hvort það vill sameinast eða ekki. Hvað þá óraunhæf haldlítil eða haldlaus fyrirheit um einhverja fjármunalega fyrirgreiðslu.

Ef sveitarfélög komast að því við yfirfærslu verkefna til sveitarfélaga, t.d. grunnskólans, að þau ráði ekki við þessi verkefni í því formi sem þau eru nú og þau ráði ekki við lögskipuð verkefni, þá er ekkert annað fyrir þau að gera en sameinast, koma sér saman um sameiningu. Ég tel að í mjög mörgum tilfellum geti lítil sveitarfélög leyst þetta með fullnægjandi hætti með samvinnu. Þá þarf auðvitað að vera vilji til samvinnu. Ég er sem sagt ekki fylgjandi forræðishyggju, ég er ekki fylgjandi þvingaðri sameiningu en ég vil stuðla að því að þeir sem vilja nái saman.

Varðandi endurskoðun sveitarstjórnarlaga sem hér hefur aðeins borið á góma, þá tel ég rétt að segja frá því að ég hef áhuga á því að endurskoðun fari fram á sveitarstjórnarlögum. Ég vænti þess að geta haft um það samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga og sú vinna er hugsanlega að fara í gang innan skamms, en það er ekki fyrst og fremst út af sameiningarmálum sem ég tel að þurfi að endurskoða sveitarstjórnarlögin. Mér finnst brýnna að gera það til þess að ná betur utan um og ná bættri skipan á fjármálastjórn sveitarfélaga. Ég tel að ríkisvaldinu beri skylda til að gæta hags íbúanna en tilfellið er að sveitarstjórn hefur t.d. á valdi sínu að skuldbinda íbúa sína og leggja á þá byrðar með frjálslegri skipan fjármála, að leggja verulegar fjárhagsbyrðar, kannski óbærilegar fjárhagsbyrðar, á íbúa sveitarfélagsins án þess að þeir fái rönd við reist. Ég tel að menn þurfi að finna eitthvert skynsamlegt form þannig að öryggi íbúanna sé tryggt og það sé ekki bara sveitarstjórnar að ákveða það einn góðan veðurdag á fundi sínum að yfirtaka stórkostlega íþyngjandi skuldbindingar. Það eru reyndar fleiri atriði í sveitarstjórnarlögum sem ég tel að menn þurfi að velta vel fyrir sér hvort eru í æskilegasta formi.

Ég vil að endingu þakka hv. félmn. fyrir ágæta vinnu við þessi mál og skjót viðbrögð og afgreiðslu þess.