Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:30:31 (1135)

1995-11-21 15:30:31# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa ígrunduðu ræðu. Ég er sammála henni um að það er siðferðilegt álitaefni hvort það eigi að tryggja nafnleynd eða ekki og það er fyrir mér mesta álitaefnið í þessu frv. Hv. þm. veltir því fyrir sér hvort það sé búið að kanna nægilega þau rök sem hníga að því að nafnleynd sé tryggð. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki velt þessu fyrir mér til hlítar, en mér fannst hæstv. dómsmrh. koma með næsta góð rök í máli sínu. Hann sagði að tæknilega væri nauðsynlegt að afla kynfrumnanna innan lands, a.m.k. eggfrumnanna. Ég velti því fyrir mér ef börnum í okkar litla samfélagi, sem með þessum hætti eru getin, er tryggður réttur til þess að fara og finna sína foreldra, hvort það leiddi ekki til þess að það yrði mjög þröngur eða takmarkaður aðgangur að því að fá eggfrumurnar sem verður að afla hérna innan lands. Ég er ekkert að óska eftir svari frá hv. þm., ég kem bara fram með það sem mér finnst a.m.k. vera ein rök í málinu.