Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:50:56 (1141)

1995-11-21 15:50:56# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:50]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og þakka dómsmrh. fyrir þetta ágæta frv. vegna þess að ég vil alls ekki að hann skilji það svo að ég telji þetta vera ómögulegt frv. Ég tel mjög jákvætt að frv. sé komið fram og í grundvallaratriðum er ég sammála því. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, og hafði eftir mér, að ég teldi að með nafnleyndinni væri fyrst og fremst verið að hugsa um hagsmuni þeirra sem gefa en hann teldi að þarna væri fyrst og fremst verið að hugsa um hagsmuni þeirra sem þiggja. Að mínu mati á þetta ekki að vera einkamál foreldra barnsins. Það á ekki að vera einkamál þeirra hvernig og hvort þau gera barni sínu grein fyrir hinum eiginlega uppruna þess. Þetta er réttur barnsins sjálfs og telst til mannréttinda að fá að vita um hinn líffræðilega uppruna sinn. Við getum vitnað til þess að áður fyrr, hér á landi sem og víðar, voru þau sjónarmið gjarnan uppi að það var litið meira á þetta sem einkamál foreldranna, hvernig þau kæmu þessu við ef eitthvað var pínlegt með faðernið. Þá var látið í þeirra hendur að ákveða hvernig frá því yrði gengið. Þróunin hefur svo orðið sú með tímanum að líta meira á þetta sem grundvallarmannréttindi og sem rétt barnsins. Allar reglur um feðrun og þá væntanlega um mæðrun, sem er kannski orðið nýrra fyrirbæri, ganga út á það að tryggja rétt barnsins. Barnalögin eru grundvöllur að því og lög um feðrun eru grundvöllur að því að þetta sé tryggt.

Ég tel það vera mjög stóra ályktun á því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, dregur af máli mínu, þ.e. að enginn muni gefa frumur, og við getum þar vitnað til Svíþjóðar. Það hafa verið gefnar sæðisfrumur í Svíþjóð enda þótt reglan um nafnleyndina gildi ekki þar.