Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:53:18 (1142)

1995-11-21 15:53:18# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að ég sé að hrapa að ályktunum og ég segi þetta allt saman að fullkomlega óathuguðu máli. Ég veit ekkert um hvernig þessi mál eru í Svíþjóð. Ég ímynda mér bara að þegar menn ætla að ganga svo langt til að láta barnið njóta réttar síns til að vita um uppruna sinn geti það leitt til þess að þetta barn sem við erum að tala um verði aldrei til. Ég er að segja að í þessu litla samfélagi okkar Íslendinga kunni þetta að leiða til þess að menn taka ekki þá áhættu. Ég vek eftirtekt á því að hv. þm. notaði í fyrstu ræðu sinni orðið áhættu um eggfrumugjöf, að einhvern tímann komi til þeirra barn sem viðkomandi á líffræðilega en að öðru leyti hefur ekkert haft með að gera. Ég hygg að þær konur sem af kristilegri miskunn mundu ella vera fúsar til þess að gefa eggfrumur kynnu að hugsa sig um áður. En ég veit ekkert um það. Ég tók eftir því að hv. þm. nefndi sérstaklega sæðisgjafa en liggur eitthvað fyrir um viðhorf þeirra kvenna sem gefa eggfrumur? Ég þekki það ekki. Það má kannski greina á milli þess að láta barnið vita hvernig það er getið og hins að láta það vita hver er hin líffræðilega móðir þess. Ég tel a.m.k. að það sé rökræðunnar virði að velta þessum greinarmun fyrir sér.