Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:55:12 (1143)

1995-11-21 15:55:12# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:55]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Af því við erum alltaf að tala um Svíþjóð og karpa um það fram og til baka þá skilst mér að þar sé aðeins leyfð sæðisfrumugjöf. Hæstv. dómsmrh. getur leiðrétt þetta ef það er rangt en mér skildist það af grg. með frv. að þar sé ekki leyfð eggfrumugjöf. (Gripið fram í.) Alveg sammála því, þetta er mjög líberal frv. Ég ítreka það enn og aftur sem ég tel að hafi komið fram áður í máli mínu að það er álitamál og á að vera stór ákvörðun að gefa frumur. Þar er stóra siðferðilega ákvörðunin tekin. Ég tel ekki að meiri líkur séu á því að konur mundu hika við að gefa af ótta við að fá til sín einstakling eftir 16 ár eða 18 ár, eða hvað það nú er, en karlar. Ég tel að það séu nákvæmlega jafnmiklar líkur á því og þarna er ekki verið að tala um að hafa skyldur sem foreldri, framfærsluskyldu eða eitthvað slíkt. Við erum einungis að tala um það að fá að vita um uppruna sinn þannig að ég hef ekki enn sannfærst af þessari röksemdafærslu.