Veiting ríkisborgararéttar

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:00:17 (1146)

1995-11-21 16:00:17# 120. lþ. 38.3 fundur 155. mál: #A veiting ríkisborgararéttar# (fyrra stjfrv.) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:00]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Aðeins til að beina spurningum til hæstv. dómsmrh. varðandi þetta mál. Með tilliti til þess að hér eru aðilar bæði frá Tælandi, Filippseyjum, Víetnam, Ástralíu, Indlandi, Sýrlandi, Rússlandi, Júgóslavíu og Englandi svo einhver lönd séu nefnd kom það upp í huga mér þegar hæstv. dómsmrh. var að gera grein fyrir málinu að víða í öðrum löndum þegar menn sækja um ríkisborgararétt þá eru mismunandi kröfur gerðar til einstaklinga um framlagningu staðfestingar á því að þeir séu þeir sem þeir segjast vera. Af því tilefni langar mig til að spyrja hæstv. dómsmrh.:

Í fyrsta lagi: Hvaða upplýsingaskyldum verða erlendir aðilar að fullnægja svo óskir þeirra um íslenskan ríkisborgararétt séu teknar til greina?

Í öðru lagi: Leita íslensk stjórnvöld til þess ríkis er umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt hafði sitt síðasta ríkisfang til staðfestingar á réttmæti upplýsinga um viðkomandi aðila?