Umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:12:07 (1149)

1995-11-21 16:12:07# 120. lþ. 38.4 fundur 157. mál: #A umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Erindi mitt hingað er fyrst og fremst að fagna framkomu þessarar þáltill. Ég bind vonir við að hún fái vandaða umfjöllun og afgreiðslu á þinginu. Ég held að það geti varla verið deiluefni að við Íslendingar hljótum að geta gert gagn með því að tileinka okkur svipuð vinnubrögð í þessum efnum og skilað hafa óumdeilanlega árangri víða erlendis, þ.e. skipuleg og samræmd viðbrögð allra helstu aðila sem koma að umferðarmálum og umferðaröryggismálum. Stefnumótun og áætlanagerð af þessu tagi er tvímælalaust skynsamlegur liður í þessu starfi.

Ég hef um nokkurt árabil reynt að vekja athygli á og sinna þessum málum sem eru hér til umfjöllunar, þ.e. umferðaröryggismálum og sérstaklega með útgangspunkti í því atriði sem lýtur að óhuggulega algengum og alvarlegum slysum á ungu fólki í umferð hér á landi. Sá hroðalegi tollur sem umferðin tekur í formi mannslífa og slysa og örkumla, ekki síst úr yngstu árgöngunum, er okkur þungbær. Það hlýtur að vera í öllu tilliti séð, jafnt frá mannlegu og félagslegu sjónarmiði sem og efnahagslegu, mikilvægt að reyna að draga úr þeim skaða sem þar er á ferðinni. Ég lít svo á að starf af þessu tagi, þó þetta sé að sjálfsögðu almenn nálgun og lúti að umferðaröryggi í víðustu merkingu þá hljóti það ekki síst að beinast að vandamálunum þar sem þau eru hvað alvarlegust og koma verst við eins og í því tilviki sem ég nefni hér sérstaklega.

Ég lagði fram á 118. löggjafarþingi till. til þál. um það sem ég kallaði framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum og er hugsun mjög skyld þeirri sem hér er á ferð í formi þáltill. Síðan kom í ljós að á vettvangi hæstv. ríkisstjórnar var þá verið að vinna að þessum málum. Niðurstaðan varð sú að ég átti þess kost að taka sæti í þeirri nefnd sem samdi drög að þessari þáltill. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að starfa að málinu með þeim hætti og koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé í öllum aðalatriðum um vandaða vinnu að ræða og skynsamlega tillögugerð.

[16:15]

Auðvitað er það deginum ljósara, eins og hæstv. ráðherra vék reyndar að hér í máli sínu, að tillögugerð af þessu tagi og áætlanagerð, þótt hún verði samþykkt, leysir ekki vandann. Það leysir menn ekki undan þeirri kvöð og þeirri skyldu að gera eftir sem áður allt sem hægt er í framkvæmd til að draga úr slysum og auka umferðaröryggi. En vonandi tekst að fylgja þessu starfi þannig eftir á öllum vígstöðvum að því fylgi umræða um þessi mál og kynning á þeim markmiðum sem hér eru á ferðinni, að draga úr umferðarslysum, og þá er það vel. Ég minni aftur á og nefni sérstaklega til sögunnar það markmið að draga úr þeim sársaukafulla tolli sem umferðin tekur, ekki síst úr yngstu aldurshópunum.

Herra forseti. Að lokum vil ég geta þess að mig var farið að lengja nokkuð eftir þessari tillögu. Ég lagði því hér fram fyrir nokkru síðan fyrirspurn til hæstv. ráðherra, hvað því liði að lögð yrði fram till. til þál. um umferðaröryggisáætlun. Ég lít svo á að þeirri fyrirspurn sé nú mjög rækilega svarað með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir þinginu og er til umræðu. Það er svar sem ég er fullkomlega sáttur við og verður ekki betra. Tillagan er sem sagt hér komin fram til umræðu og umfjöllunar á þinginu og ég kalla því aftur fyrirspurn mína þá hina sömu sem ég hef hér nefnt og tel óþarfa að hafa hana frekar á dagskrá þar sem henni er svarað í formi þessa máls sem við ræðum nú hér.