Stefnumótun í löggæslu

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 16:47:06 (1158)

1995-11-21 16:47:06# 120. lþ. 38.5 fundur 156. mál: #A stefnumótun í löggæslu# þál., Flm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[16:47]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um stefnumótun í löggæslu. Þessa tillögu flyt ég ásamt hv. þm. Hjálmari Árnasyni og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, en tillgr. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að leggja fram á þessu þingi frumvörp að samræmdri löggjöf um ávana- og fíkniefni sem byggð verði á tillögum samstarfsnefndar ráðuneytanna frá því í mars 1995.``

Í greinargerð með tillögunni segir:

,,Neysla fíkniefna virðist vaxandi vandamál í íslensku samfélagi. Sama þróun á sér stað í nágrannalöndum okkar. Sökum fámennis og landfræðilegrar legu hefur Ísland nokkra sérstöðu þar sem möguleikar til varnar virðast meiri en meðal fjölmennra þjóða á meginlandi Evrópu. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur fíkniefnavandinn aukist jafnt og þétt. Segja má að vilji stjórnvalda til að bregðast við vandanum sé takmarkaður í verki, a.m.k. ef höfð er í huga skipan mála nú. Forvarnir eru litlar, eftirlit takmarkað og fáliðaðri sveit löggæslumanna er ætlað að vinna verkið.

Stjórnvöld sjá beinan tilgang í umferðarfræðslu sem er skipulögð og skilvirk enda mikið í húfi bæði fyrir almenna borgara og tryggingafélög að umferðarslysum verði fækkað og þar með dregið úr eignatjóni af þeim. Nákvæmlega sömu forsendur gilda um miskunnarlausan heim fíkniefna en forvarnir eru þó litlar sem engar. Alþingismenn eru örugglega allir á einu máli um að fordæma sölu og notkun fíkniefna. Þrátt fyrir það hefur ekki tekist að stemma stigu við þeim vanda. Líklega má rekja það m.a. til þess að ekki hefur verið unnið að formlegri stefnumótun af hálfu löggjafarvaldsins í þessum málum. Markmiðssetning hlýtur að vera fyrsta skrefið í átt til raunhæfra aðgerða en fjárveitingar og aðgerðir verða að fylgja í kjölfarið.

Hafa verður marga þætti í huga við athugun þessara mála. Í fyrsta lagi er eðlilegt að skilgreina hvernig megi á kerfisbundinn hátt efla fræðslu um hættur af fíkniefnaneyslu. Í því sambandi má benda á skilvirka fræðslu innan skólakerfisins, en hún er lítil sem engin innan framhaldsskólanna þar sem áhættuhópurinn er óneitanlega stór. Þá þykir rétt að benda á þátt foreldra, einkum hvað varðar það að þeir haldi vöku sinni gagnvart eigin börnum en margir foreldrar vilja ekki viðurkenna að vágesturinn geti knúið dyra hjá þeirra börnum. Bein og stöðug fræðsla til foreldra um einkenni fíkniefnaneyslu hlýtur því að vera mikilvægur þáttur. Einnig má benda á þá leið að virkja unglingana sjálfa þannig að þeir myndi fræðsluhópa og taki upp samstarf við fíkniefnalögreglu. Fjármunum, sem veittir eru til almennrar fræðslu á þessu sviði, hlýtur að vera vel varið og er það sennilega besta leiðin til að spilla markaði fyrir óprúttnum eitulyfjasölum.

Í öðru lagi má nefna að skipuleggja þarf kerfisbundið skilvirkt eftirlit með innflutningi í öllum höfnum landsins. Íslendingar eiga auðveldara með að snúast til varnar á þessu sviði en aðrar þjóðir þar sem aðgangur að landinu er einungis um flug- eða skipahafnir. Ekki þarf eftirlit við landamæri. Nú er kerfisbundin fíkniefnaleit ekki framkvæmd á landinu öllu. Sem dæmi má nefna að enginn leitarhundur er á Seyðisfirði þar sem þúsundir ferðamanna koma árlega með Norrænu. Svipað má segja um aðrar hafnir á landsbyggðinni.

Í þriðja lagi þarf að efla löggæslu þannig að lögreglunni verði gert kleift að vinna gegn sölu, dreifingu og neyslu fíkniefna. Vitað er að miklir fjármunir eru í húfi og því leita söluaðilar allra leiða til að halda starfsemi sinni leyndri. Í Reykjavík starfa 14 lögreglumenn sem hafa fíkniefnamál sem sérsvið. Annars staðar er sá þáttur gæslunnar »aukabúgrein«. Fjárveitingar til þessara mála hafa verið mjög af skornum skammti, hugsanlega vegna þess að stefnumörkun hefur vantað, og er umhugsunarvert að ekkert skipulegt samstarf er milli þeirra stofnana sem með beinum eða óbeinum hætti fást við mál varðandi sölu fíkniefna og notkun. Rekja má mörg auðgunar- og árásarmál til fíkniefnaneytenda en samstarf fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og Rannsóknarlögreglu ríkisins er lítið. Tvær deildir eða tvö embætti kunna þannig að vera að vinna að málum sömu einstaklinga án þess að starfa saman. Ljóst má vera að einhverjir hafa verulegar tekjur af sölu fíkniefna. Ekki þykir því óeðlilegt að fíkniefnalögregla taki upp samstarf við skattyfirvöld við rannsókn mála. Sama má segja um almenna tollgæslu. Á þessum sviðum virðist framkvæmdin líða fyrir stefnuleysi stjórnvalda, sem og fjársvelti.

Í fjórða lagi er mælt með því að viðurlög verði hert gagnvart þeim sem stunda dreifingu og sölu fíkniefna, sbr. þingsályktunartillögu Arnþrúðar Karlsdóttur á þessu þingi (62. mál).

Í mars 1995 skilaði samstarfsnefnd ráðuneyta tillögum um þetta efni. Flutningsmenn taka undir tillögur nefndarinnar en telja þó að ganga mætti lengra í því skyni að uppræta þann vágest sem ávana- og fíkniefni eru.

Þingsályktunartillaga þessi gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra leggi á starfandi þingi fram frumvörp til laga er byggi á framangreindum forsendum.``

Virðulegi forseti. Ég legg til að máli þessu verði að lokinni umræðu vísað til allshn.