Fjöleignarhús

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 17:23:34 (1161)

1995-11-21 17:23:34# 120. lþ. 38.7 fundur 164. mál: #A fjöleignarhús# (eignaskiptayfirlýsingar og bílskúrar) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[17:23]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég sé mig knúna til að taka til máls þó að það sé auðvitað spurning hvaða tilgangi það þjóni þegar við sitjum hér svona fá og ræðum þetta mál.

Lög um fjöleignarhús voru samþykkt á Alþingi í mars 1994 og tóku gildi 1. janúar sl. og er út af fyrir sig athyglisvert að svo nýsett lög skuli þarfnast svo mikilla lagfæringa sem hér eru lagðar til. Nú skal það strax viðurkennt að ég hef ekki kynnt mér þetta frv. nógu vel þótt ég hlustaði vissulega á mál hæstv. ráðherra, en frv. fjallar fyrst og fremst, eins og hér kemur fram, um gerð eignaskiptayfirlýsinga og um bílskúramál sem ég geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við. En úr því að á að fara að endurskoða þessi lög þá vil ég minna á annað frv. til breytinga á lögum um fjöleignarhús sem var lagt fram á 118. löggjafarþingi sem var hið síðasta fyrir kosningar. 1. flm. að því frv. var Anna Ólafsdóttir Björnsson, þáv. þingkona Kvennalistans, og meðflm. voru úr öllum flokkum á Alþingi eða hv. þm. Gísli S. Einarsson, Guðný Guðbjörnsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson, Matthías Bjarnason, Pétur Bjarnason og Valgerður Gunnarsdóttir og er kannski athyglisvert að aðeins tveir af þessum átta eru enn þá þingmenn. En vonandi hafa katta- og hundavinir komið í þeirra stað því þetta fjallar um ketti og hunda.

Þetta var hvorki langt né flókið frv. Það var í tveimur greinum og þar af var önnur bara löggildingargrein. En fyrri greinin hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,13. tölul. A-liðar 41. gr. laganna orðast svo: Um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu ef íbúum stafar heilsufarsleg hætta af því samkvæmt vottorði læknis. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.``

Þetta frv. fékk ekki afgreiðslu en þegar frv. það sem hér er á dagskrá kom fram þá sá ég að það væri réttast í stað þess að endurflytja þetta frv., sem til stóð og hafði ég raunar tekið það að mér, þá væri rétt að leggja fram brtt. svo að það komi þá til umræðu og umfjöllunar í nefndinni sem tekur frv. ráðherra fyrir.

Í þeim lögum sem voru samþykkt 1. janúar sl. voru ýmis nýmæli og þar var þar m.a. ákvæði um bann við katta- og hundahaldi nema að fengnu samþykki allra eigenda í húsinu. Þessu ákvæði var raunar bætt inn í frv. á síðustu stigum umfjöllunar á Alþingi og kom þar inn fyrir beiðni Samtaka asma- og ofnæmissjúklinga, en aðrir hlutaðeigandi munu ekki hafa fengið tækifæri til að segja sitt álit á því. Það er mat okkar að sjónarmið dýraeigenda hafi þar með verið fyrir borð borin, þeir hafi ekki fengið að segja álit sitt og þetta hafi verið gert í nokkru fljótræði. Auðvitað var þetta ákvæði sett af góðum hug og umhyggju fyrir ofnæmissjúklingum, um það efast enginn, en við teljum að það hafi ekki fengið nógu vandaða umfjöllun og því miður farið inn og setið þar nokkuð fast, en eins og ákvæðið er núna þá opnar það í rauninni fyrir andstöðu gegn katta- og hundahaldi af hvaða ástæðu sem er. Það eru engin skilyrði sett þess efnis að bannið þurfi að rökstyðja með heilsufarslegum ástæðum. Það nægir að einn íbúi segi nei og hann þarf ekki að tilgreina neina ástæðu. Ef Jón og Gunna í kjallaranum eru bara á móti katta- og hundahaldi yfirleitt án þess að hafa af því nokkurn heilsufarslegan ama þá geta þau bara sagt nei við því að Siggi á 4. hæð hafi kött eða öfugt. Það er því ljóst að með þessu ákvæði er réttur dýraeigenda ekki virtur og er hugsanlega verið að bjóða heim misnotkun af hendi þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa andúð á þessum dýrum.

Ég hef ákveðið að flytja efni þessa frv. í formi brtt. við þetta frv. Mér er fyllilega ljóst að um þetta atriði er ágreiningur, en við höfum samt sem áður fyrst og fremst orðið varar við stuðning ýmissa aðila sem er málið skylt við þessa brtt. Ef þessi breyting yrði samþykkt þá held ég að hún yrði til mikilla bóta því að hún tekur fullt tillit til þeirra sem af heilsufarsástæðum eiga erfitt með að búa í sama húsi og þessi dýr og setur hagsmuni þeirra í forgang. Eins og lagagreinin er núna þá býður hún upp á misnotkun eins og ég sagði og um það eru þegar dæmi. Því miður ríkir mikið og furðulegt að ég ekki segi ómenningarlegt skilningsleysi hér á landi á vináttu manna og dýra, hversu mikils virði hún er einstaklingunum, hversu mikils virði samband manna og dýra er mörgum, lífsfylling og jafnvel heilsusamleg í reynd. Þessar staðreyndir eru mörgum lokuð bók. Fólk hengir sig í hvert eitt tilvik þar sem misbrestur er á dýrahaldi í þéttbýli. Þar má nefna sem dæmi ágreining vegna ónæðis og ama t.d. vegna sóðaskapar og óeðlilegs hávaða, eða ef um alvarleg hegðunarvandamál hjá dýrunum er að ræða. Auðvitað getur slíkt komið upp og þá þarf að taka á því. Það er ekki verið að gefa dýrunum forgang, heldur aðeins verið að biðja um eðlilegt tillit. Að sjálfsögðu ber að taka tillit til þess ef heilsu mannlegra íbúa viðkomandi húss er sannarleg hætta búin af veru einhverra dýra í húsinu. En dýrahald sem byggist á virðingu fyrir dýrum og er ástundað af tillitsemi á ekki að þurfa að sæta ofstæki og ofsóknum og breytingartillögunni er ætlað að taka á þessu.