Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 18:07:38 (1169)

1995-11-21 18:07:38# 120. lþ. 38.8 fundur 158. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[18:07]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að það tekur enginn þátt í þessari umræðu utan flm. nema Kvennalistinn sem hefur sýnt áhuga á þessu máli. Hinir þegja þunnu hljóði. Ég held að það sé nokkuð alvarlegt ef sú er raunin að verið er að kalla saman nefndina í tilefni þess að það er komið frv. fram á Alþingi þannig að eilíflega sé hægt að vísa til þess að málið sé til skoðunar uppi í forsrn. og komið í veg fyrir að Alþingi fjalli ítarlega og faglega um þetta mál í þinginu og í nefndum. Ég spyr aftur: Hversu langan tíma ætlar stjórnarandstaðan, ég ætla ekkert að spyrja stjórnarflokkana, að gefa þessari nefnd til að ljúka störfum? Er ásættanlegt fyrir Kvennalistann, af því hann er sá eini sem tekur þátt hérna í umræðunum, að einungis sé sett einhver löggjöf um fjárreiður stjórnmálaflokkanna en ekki lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna og mun Kvennalistinn gera kröfu um það að þessari nefnd verði sett einhver tímamörk?