Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 18:08:45 (1170)

1995-11-21 18:08:45# 120. lþ. 38.8 fundur 158. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[18:08]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal fúslega taka þetta mál upp á þingflokksfundi Kvennalistans og kanna hver er vilji samþingkvenna minna. Hv. síðasti ræðumaður spurði hvort Kvennalistinn væri sáttur við að ekki yrðu sett lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna. Svarið er já vegna þess að í tillögu okkar, sem var flutt tvívegis á Alþingi um skipan nefndar sem setti eða mótaði reglur um fjárreiður stjórnmálaflokkanna, þá var lagt til að sú hin sama nefnd legði mat á það hvort nauðsynlegt væri að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna að öðru leyti. Við vorum ekki þeirrar skoðunar í sjálfu sér. Okkur finnst fyrst og fremst brýnt að settar væru reglur um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Um það efni var tillaga okkar. Við mundum alveg sætta okkur við það, það er brýnast að taka á því máli og um það fjallaði tillaga okkar.