Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 13:41:13 (1176)

1995-11-22 13:41:13# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[13:41]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja á þskj. 202 frv. til laga um breytingu á vegalögum. Frv. var lagt fyrir hv. Alþingi seint á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Það stafaði ekki af því að um málið væri ágreiningur heldur skynjaði ég þvert á móti svo að um þetta mál gæti tekist allgóð samstaða. Ég vil í upphafi máls míns láta í ljós þá von að það gæti orðið að lögum á yfirstandandi þingi því að hv. samgn. sem fær málið væntanlega til meðferðar mun hafa góðan tíma til að íhuga efni þess og gera tillögur um breytingar á frv. og/eða vegalögunum í tengslum við það eftir því sem nefndin telur skynsamlegt. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. gr. Á eftir orðinu ,,skógræktarsvæða`` í niðurlagi 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: vegi sem sérstaklega eru afmarkaðir fyrir umferð reiðhjóla.``

Greinargerðin er stutt og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Notkun reiðhjóla hefur farið vaxandi hér á landi á undanförnum árum. Hafa bæjarfélög brugðist við því með því að leggja sérstakar brautir fyrir umferð reiðhjóla. Þannig hefur orðið til nær samfellt net reiðhjólastíga hér á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorni landsins.

Þessi mál hafa ekki verið flutt inn á vettvang Alþingis áður. Hér er lögð fram tillaga um að vegir, afmarkaðir fyrir reiðhjól, verði teknir inn í vegalög sem væri fyrsta skrefið. Í framhaldi af því þyrfti svo að verða til samfellt net reiðhjólastíga á stærri svæðum. Vonandi verður þessi tillaga til að vekja umræður sem síðan leiða til ákvarðana á Alþingi í þessum efnum.``

Ég hef kynnt mér, hæstv. forseti, hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum og hef komist að því að sums staðar er það svo að reiðhjólastígar eru hluti af hinu almenna, lögbundna vegakerfi viðkomandi landa. Það á t.d. við um Danmörku sem hefur afar þróað kerfi í þessum efnum þar sem reiðhjól eru gildur þáttur í samgöngum þeirra og hafa mjög lengi verið. Það hefur verið þannig aftur á móti á Íslandi að menn hafa talið að reiðhjól gætu tæplega dugað sem gildur þáttur í samgöngumálum og bera þar aðallega fyrir sig veðurfar og er það út af fyrir sig rétt að það er erfiðara að tryggja að reiðhjól dugi sem samgöngumáti, jafnvel í Reykjavík, en gerist í öðrum löndum. Engu að síður er það svo að notkun reiðhjóla hefur farið stórkostlega vaxandi hér á landi og hefur þeim fjölgað mjög verulega núna að undanförnu, m.a. í Reykjavík. Í Reykjavík er komið samfellt skipulagskerfi reiðhjólastíga um alla borgina og nú má það heita svo að um sé að ræða samfellt órofið kerfi reiðhjólastíga í borginni, svo að segja frá Seltjarnarnesi vestast og upp í Heiðmörk með einni undantekningu sem verður bætt úr væntanlega á þessu ári með brú yfir eða í tengslum við Kringlumýrarbraut.

Hér er um að ræða kost sem fólk vill nýta sér. Ég tel að það sé eðlilegt að Alþingi geri grein fyrir því með einhverjum hætti að það viti af þessari þróun, að það fylgist með í landinu og geri sér grein fyrir því hvað er að gerast. Ef þetta frv. yrði samþykkt þýðir það ekki sjálfkrafa að reiðhjólastígar yrðu teknir inn í vegakerfi landsins nema að samþykkt yrði að taka reiðhjólastíga inn á vegáætlun. Út af fyrir sig tel ég t.d. að brúin, sem ég nefndi áðan yfir Kringlumýrarbraut sem tengir saman reiðhjólastíganet Reykjavíkur, gæti auðvitað alveg komið inn á vegáætlun eins og ýmsar aðrar brýr sem þar eru á þéttbýlissvæðinu. Þess vegna tel ég að þetta mál sé ekki aðeins almenn viljayfirlýsing um eitthvað sem menn vilja almennt styðja við, heldur hafi tillagan, eins og hún liggur hér fyrir, praktískt gildi fyrir a.m.k. Reykvíkinga og þéttbýlissvæðið. Því skora ég á þessa virðulegu stofnun að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir efnislega og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.