Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 13:59:45 (1180)

1995-11-22 13:59:45# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[13:59]

Katrín Fjeldsted:

Forseti. Aðeins örstutt um Car Free Cities, sem menn setja að vísu spurningarmerki við ,,Car Free Cities?`` það er raunsæi að átta sig á að borgir verða aldrei alveg án bíla. En Borgir án bíla er íslenskt heiti yfir þessi samtök.

[14:00]

Ég átti setu á stofnfundi þessara samtaka sem var haldinn í Amsterdam í mars 1994 og það er ánægjulegt að sjá þegar borgir taka sig saman á þennan hátt. Þetta er dæmi um afrakstur af umhverfisráðstefnunni í Ríó. Það er heilmikil gróska í samstarfi Evrópuborga og Evrópulanda í ýmsum málaflokkum eins og menn vita og ekki síst í umhverfismálum.

Ráðstefnan Borgir án bíla og síðan þessi samtök sem síðasti ræðumaður minntist á komu í kjölfar þess. Ráðstefnan um borgir án bíla, sem var upphaf ,,Car Free Cities?`` var haldin að frumkvæði umhverfismáladeildar Evrópusambandsins en hugmyndin kemur frá Ríó-ráðstefnunni, fimmtu framkvæmdaáætlun ráðherranefndar Evrópusambandsins frá því 1. febr. 1993.

Það eru auðvitað ýmis mál sem tengja borgir saman. Menn vita jú að umferðarslysum fer fjölgandi. Við vorum að tala um slysavarnaáætlun hér í þinginu í gær. Mengunin vex og víða er erfitt sérstaklega í eldri hverfum borga að skapa svigrúm fyrir bílinn án þess að umhverfi og sérkenni borganna spillist. Nú vilja menn sporna við fótum og hætta að láta borgina aðlagast bílnum en þess í stað reyna að fá bílinn til að aðlagast borginni. Í Car Free Cities? hefur m.a. komið fram áskorun til sveitarfélaga um að leggja áherslu á umhverfisvænar samgöngur og beita öllum tiltækum ráðum til að minnka þörf fyrir einkabíla, bæta stjórnun umferðarmála og taka þátt í umræðum við alla þá er málið gæti varðað. Því var beint til stofnana Evrópusambandsins að styðja á alla lund þetta frumkvæði borga og styðja fjárhagslega rannsóknir sem tengjast umferðarmengun í borgum og bæjum og umhverfisvænni samgöngutækni. Því var einnig beint til ríkisstjórna og Evrópuráðsins að aðstoða borgir fjárhagslega til að móta stefnu um umhverfisvænar samgöngur.

Eins og að framan er sagt þá hefur Reykjavíkurborg skuldbundið sig til að vinna í samræmi við stefnuskrá Car Free Cities? eða Borga án bíla. Markmiðið er að reyna að gera Reykjavíkurborg manneskjulegri, auka lífsgæði borgarbúa og auðvelda þeim að komast leiðar sinnar í sjálfbærri borg. Það er mjög ánægjulegt eins og ég sagði áðan að sjá að menn geti hugsað sér þetta í víðara samhengi fyrir landið allt.