Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:06:09 (1182)

1995-11-22 14:06:09# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:06]

Drífa Sigfúsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir orð flutningsmanns, hv. þm. Svavars Gestssonar. Ég tel að þetta frv. sé mikilvægt. Það er út af fyrir sig rétt að þetta er ekki mikil viðbót við vegalög en þetta er afar mikilvægt. Og ég tel að það dugi ekki að setja þetta á annan veg í framkvæmd en með lagasetningu. Sveitarfélög hafa verið að spyrjast fyrir um gerð hjólreiðabrauta bæði í þéttbýli og utan þéttbýlis og því hefur nú jafnan verið svarað á þann veg að Vegagerðin hefði ekki meira fé til ráðstöfunar en hún telji að það þurfi helst af öllu auðvitað að fara í þau verkefni sem lög segja til um að stofnunin eigi að sinna. Það er út af fyrir sig eðlileg niðurstaða þannig að ég ítreka að mér finnst mjög mikilvægt að þetta verði að lögum. Það skiptir máli varðandi hönnun og frágang og allt viðhorf í þessu og er hvatning til sveitarstjórna um að standa sig vel í að tryggja samgöngur reiðhjóla um bæina. En ég tel að það séu staðir, kannski utan þéttbýlis sem eru ákaflega mikilvægir, sérstaklega má nefna þar Reykjanesbraut. Þar fara mjög margir erlendir ferðamenn um og þeir hafa margir hverjir alls ekki kynnst því að það eigi að hjóla úti á vegi þar sem keyrt er jafnhratt um og í jafnmikilli umferð og þar er, fyrir utan það að þar er býsna dimmur vegur og lítið fer fyrir logninu á Suðurnesjum þannig að það getur verið svolítið misviðrasamt og erfitt fyrir þá þegar stórir bílar keyra fram úr þeim eða á móti.

Einnig held ég að annars staðar eins og fyrir austan skipti hjólreiðabrautir líka miklu máli. Þangað koma margir ferðamenn til landsins og það er líka mjög mikilvægt að þeir hafi aðstöðu og það er ekki sama hvernig við tökum á móti ferðamönnum. Þetta skiptir líka máli gagnvart ferðamönnunum en auðvitað ekki síður fyrir okkur sem byggjum þetta land. Þannig að ég ítreka það, ég tel að þessi ákvæði verði að vera inni í lögum.