Vegalög

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:08:54 (1183)

1995-11-22 14:08:54# 120. lþ. 39.11 fundur 165. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:08]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem málið hefur fengið og vildi kannski ekki síst hnykkja á því sem fram kom hér áðan varðandi það að þessi umræða er auðvitað að nokkru leyti hafin í framhaldi af umhverfisráðstefnunni í Ríó. Það var árið 1990 að gerð var sérstök samþykkt um þetta mál að vinna að því að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á vegum umhverfisráðherra Evrópusambandsríkjanna og EFTA-landanna, ásamt umhverfisráðherrum Ástralíu, Kanada, Japans og Nýja-Sjálands. Í framhaldi af þessu og því að umhvrh. Íslands skipaði nefnd til að fjalla um þetta mál árið 1991 þá hafa þessi mál verið til meðferðar og það hefur verið gerður alþjóðasamningur um þessi mál, þ.e. um loftslagsbreytingar. Ísland er aðili að þeim samningi og tók þátt í lokagerð hans. Það er kannski sérstakt umhugsunarefni að í þessum samningi er gert ráð fyrir því, sem við ræðum væntanlega á morgun undir öðrum dagskrárlið hér, að koldíoxíð í andrúmslofti aukist ekki til ársins 2000 frá því sem það var árið 1990. Í framkvæmdaáætluninni var gert ráð fyrir því að aukningin gæti orðið 5% yfir heiminn allan en hún er þegar orðin meiri á Íslandi, af okkar völdum öllu heldur m.a. vegna þess að við höfum verið með svo mörg skip í Smugunni sem auðvitað brenna eldsneyti sem aftur veldur mengun koldíoxíðs. Það má segja að þessi umræða um reiðhjólastíga berist allvíða þegar Smugan er nefnd í þessu samhengi en það gerist vegna þess að undirstaðan að umræðunni um reiðhjólin sem samgönguúrræði er í upphafi aðallega sú að menn vildu líta á þetta sem umhverfismál. Og þó það sé alveg rétt hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted að það er ekki við því að búast að borgir verði bílalausar í bráð, það dettur engum í hug, þá er hins vegar alveg sjálfsagt mál að við gerum það sem við getum til þess að minnka mengun frá bílaumferð.

Fyrir nokkru samþykkti núv. ríkisstjórn framkvæmdaáætlun á grundvelli samningsins um loftslagsbreytingar sem var sagt frá í fréttatilkynningu einhvern tímann í síðasta mánuði ef ég man rétt. Þar kemur fram að menn hafa verið að ræða ýmsar leiðir í þessu efni eins og t.d. að breyta verðlagningu á bílum, breyta verðlagningu á bensíni o.s.frv. Þetta mál sem við erum að ræða hér er partur af því máli, partur af framlagi Íslands í þeim efnum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við málið hafa komið fram góðar undirtektir frá fulltrúum margra flokka hér í þessari stofnun.