Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:12:46 (1184)

1995-11-22 14:12:46# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:12]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég legg hér fyrir á þskj. 208, ásamt Kristjáni Pálssyni, till. til þál. um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að gera nú þegar þær breytingar á verslunarrekstri sem fram fer í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem geri einstaklingum og fyrirtækjum kleift að setja upp og reka tollfrjálsar verslanir fyrir ferðamenn, en jafnframt dragi hið opinbera sig út úr rekstri tollfrjálsra verslana þar.``

Í greinargerð með þessari þáltill. segir svo, m.a.: ,,Eitt af grundvallaratriðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er jöfnun samkeppnisskilyrða. Til að svo megi verða þurfa einstaklingar og fyrirtæki, jafnt hér á landi sem annars staðar, að eiga jafnan rétt á að bjóða fram þjónustu sína, hvort sem um er að ræða viðskipti innan lands eða milli landa. Ein stærsta verslun landsins, með veltu upp á 1.980 millj. kr., er rekin af hinu opinbera í Leifsstöð. Flutningsmenn tillögunnar telja óeðlilegt að hið opinbera sinni þessari starfsemi. Nú þegar er rætt um einkavæðingu flughafnarinnar. Meira skiptir að hið opinbera dragi sig alfarið út úr öllum verslunarrekstri á Keflavíkurflugvelli og fái hann í hendur einaaðilum. Þetta gæti gerst með því að skipta núverandi húsnæði fríhafnarinnar í einingar sem unnt væri að leigja út til einkaaðila til ákveðins tíma í senn og sæju þeir sjálfir um atvinnustarfsemina. Ekki þyrfti að koma til neinnar lagabreytingar af þessum sökum þar sem 79. gr. tollalaga, nr. 55/1987, heimilar nú þegar rekstur tollfrjálsra verslana í flugstöðvum.``

Með leyfi forseta, vildi ég fá að vitna hér til þessarar greinar en þar segir svo í 79. gr. tollalaga:

,,Ríkisstjórninni er heimilt að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur, þar á meðal áfengi og tóbak, í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli, Keflavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli, Sauðárkróksflugvelli og Egilsstaðaflugvelli í tengslum við farþegaflutninga milli landa. Birgðir þeirra verslana má geyma í tollfrjálsum birgðageymslum sem eingöngu eru ætlaðar til þeirra nota.

Tollfrjálsum verslunum er eingöngu heimilt að selja vörur sínar farþegum og áhöfnum millilandafara. Fyrirskipa má að vörur þessar séu afhentar kaupanda í sérstaklega gerðum lokuðum umbúðum sem kaupandi ber ábyrgð á, að viðlagðri refsingu, að ekki séu opnaðar fyrr en komið er út fyrir tollsvæði ríkisins. Enn fremur er verslunum sem hér um ræðir heimilt samkvæmt reglum er ráðherra setur að senda vörur sínar í pósti til viðtakenda búsettra erlendis.

[14:15]

Verslanir og birgðageymslur samkvæmt þessari grein eru háðar tolleftirliti og gilda um birgðageymslurnar ákvæði laga þessara, eftir því sem við á.``

Í fyrra fóru u.þ.b. 840 þúsund ferðamenn um flugstöðina í Keflavík og er þá hvort tveggja talið, ferðamenn sem áttu þar stutta viðdvöl (transit) og ferðamenn sem dvöldust lengur hér, auk íslenskra ferðamanna. Almennt er talið að ferðamenn verji u.þ.b. 25% af ferðafé sínu til verslunar, og er þá ekki meðtalinn matur og drykkur. Því er ljóst að það skiptir verslunina í landinu verulegu máli að fá aðgang að þessu viðskiptasviði. Nú eru þær vörur, sem eru á boðstólum í fríhöfninni í Leifsstöð, seldar ferðamönnum á mun lægra verði en kaupmenn geta almennt boðið, þar sem af þeim eru hvorki innheimtir tollar, vörugjöld né virðisaukaskattur. Hið opinbera innheimtir sömu gjöld og það sleppir sjálft af þeim vörum sem seldar eru í fríhöfninni í Leifsstöð af annarri verslun í landinu. Allir sjá hversu gífurlegt óréttlæti og mismunun hér er um að ræða. Það getur aldrei talist hlutverk hins opinbera að stunda verslun í samkeppni við einkaaðila. Mun eðlilegra hlýtur að teljast að hið opinbera skapi einstaklingum færi á að stunda slíka atvinnustarfsemi í innbyrðis samkeppni.

Herra forseti. Það er nú svo að nokkuð hefur verið rætt að undanförnu um einkavæðingu fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli og hafa nokkrar greinar birst um það í blöðum og vildi ég, með leyfi forseta, fá að vitna hér til einnar sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember. Fyrirsögnin er: ,,Vantar alla markaðssetningu`` og þar segir m.a. svo:

,,Utanríkisráðherra greindi nýlega frá því að nauðsynlegt væri að auka tekjur af flugstöðinni um 150 milljónir á ári til þess að hægt væri að greiða upp skuldir hennar innan 25 ára eins og ráðgert væri. Hann sagði að hugsanlega mætti ná þessum tekjum inn með því að hækka innritunargjöld og leigu.``

Hér er vitnað í viðtal við Loga Úlfarsson, framkvæmdastjóra Íslensks markaðar.

Logi segir ýmsar aðrar leiðir færar en hækkun gjalda, t.d. vanti alveg markvisst uppbyggingarstarf á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar hafi stjórnvöld verið treg til að taka upp nýjar aðferðir. ,,Frá því að flugstöðin var opnuð hefur aldrei verið unnið markvisst að markaðssetningu Keflavíkurflugvallar,`` segir Logi. ,,Sú aukning sem verið hefur á umferð erlendra flugfélaga hefur fyrst og fremst verið fyrir atbeina Flugleiða. Á öðrum flugvöllum í kringum okkur er unnið markvisst að þessum málum og t.d. á Kastrup sjáum við að flugumferð um völlinn hefur aukist um 10% á hverju ári undanfarin ár.``

Helsta fyrirstaðan fyrir bættum rekstri flugstöðvarinnar er, að mati Loga, sá ósveigjanleiki sem ríkisreksturinn hafi í för með sér. Lítið svigrúm sé til samninga við erlend flugfélög um millilendingar hér, þar sem lendingargjöldin séu ekki samningsatriði. Auk þess sé erfitt að koma einföldustu breytingum á rekstrarumhverfinu í gegnum kerfið. ,,Lausnin felist því í einkavæðingu,`` segir Logi.

Í frásögn Morgunblaðsins 16. nóvember kemur einnig fram hvar blaðamaður hafði farið ofan í þessi mál. Hann segir:

,,Einkavædd á Leifsstöð sér von, en Kastrup-flugvöllur er eini einkarekni flugvöllurinn á Norðurlöndum og þykir vel hafa tekist til með einkavæðingu hans. Hér á landi hafa slíkar hugmyndir þó ekki átt upp á pallborðið hjá hinu opinbera.

Í kjölfar Persaflóastríðsins, á tímum mesta samdráttar sem orðið hefur í áætlanaflugi í heiminum á undanförnum árum, réðust Danir í þá stórframkvæmd að einkavæða eitt stærsta fyrirtæki landsins, sjálfan Kastrup-flugvöll. Þrátt fyrir samdráttinn sem þá var í áætlunarflugi hefur rekstur hins nýja fyrirtækis, Köbenhavns Lufthavn A/S (CPH), gengið mjög vel og í dag er bent á einkavæðingu Kastrup sem dæmi um einstaklega vel heppnaða einkavæðingu ríkisfyrirtækis.``

Á þeim fimm árum sem Kastrup hefur verið í einkarekstri hafur hagnaður af rekstri vallarins aukist um 73%. Þá hefur farþegum sem fara um völlinn á ári hverju fjölgað um rúmlega eina og hálfa milljón og voru þeir um 14 millj. talsins á síðasta ári sem gerir Kastrup að stærsta flugvelli á Norðurlöndum.

Síðan er vitnað í Orra Vigfússon í greininni:

,,Sem fyrr segir vinna Íslenskur markaður, Flugleiðir, Póstur og sími og Landsbankinn að því að Leifsstöð verði einkavædd. Að sögn Orra Vigfússonar, hefur hins vegar borið á nokkurri andstöðu innan embættismannakerfisins vegna þessa máls, enda sé kannski ekki við því að búast að frumkvæðið komi þaðan, því allan hvata vanti til þess. Hann segir að togstreita á milli einstakra ráðuneyta valdi einnig vandræðum.``

,,Við höfum verið að leita til ráðuneytanna um ýmsar upplýsingar um rekstur Leifsstöðvar og það hefur tekið mjög langan tíma. Það tók okkur t.d. 6 mánuði að fá uppgefnar nokkrar tölur úr rekstri flugstöðvarinnar frá utanríkisráðuneytinu. Þá hefur okkur gjarnan verið vísað fram og til baka á milli ráðuneyta með erindi okkar,`` segir Orri.

Hann segir að menn láti þennan seinagang þó ekki hafa nein áhrif á sig. Undirbúningur málsins sé kominn nokkuð vel á veg og nú sé verið að skoða ýmis atriði er snúi að framtíðarrekstri Leifsstöðvar.

,,Nú erum við að vinna að nákvæmri lýsingu á rekstrar- og fjárhagsstöðu flugstöðvarinnar. Þar erum við bæði að kanna hvort einhverjir möguleikar séu á hagræðingu í rekstrinum, auk þess sem við viljum gera úttekt á skuldastöðunni og kanna möguleikann á skuldbreytingu lána til að ná fram hagstæðari kjörum``

Þá segir Orri það vera mikilvægt að kanna rekstur Fríhafnarinnar í Keflavík ofan í kjölinn og meta raunverulegan hagnað ríkissjóðs af sölu á einstökum vörutegundum. Í framhaldi af því sé möguleiki á að endurmeta leigusamninga til samræmis við það sem gerist í Kaupmannahöfn. ,,Þar sjáum við að leigan er reiknuð, annars vegar út frá ákveðnu fermetragjaldi og hins vegar út frá veltuskatti,`` segir Orri. ,,Þessi veltuskattur er síðan mjög misjafn eftir því hvaða vörutegundir eiga í hlut. Þannig er hann hæstur á áfengi og tóbaki en mun lægri á ýmsum öðrum vörum.``

Orri getur þess jafnframt að í athugun sé hvernig tekjum ríkissjóðs af flugstöðinni geti verið háttað í framtíðinni, m.a. í ljósi ofangreindra hugmynda af tekjum af verslunarrekstri í stöðinni.

Herra forseti. Auðvitað skiptir það okkur miklu máli að vel til tekist með rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem svo mjög hefur verið í umræðunni í gegnum árin. Ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram, bæði í skrifum blaðamanna Morgunblaðsins svo og Orra Vigfússonar, um nauðsyn þess að nú verði látið til skarar skríða og gluggar flugstöðvarinnar opnaðir, ferskir vindar fái að leika þar um og einkaframtakið fái að njóta sín þar til enn frekari dáða og framdráttar þessari ágætu flugstöð svo ekki þurfi lengur, eða a.m.k. ekki mikið lengur, að sækja í vasa skattborgaranna hallarekstur flugstöðvarinnar.

Í gær hélt fjmrh. mikla ráðstefnu um fjármál ríkisins, nýskipan í rekstri og markviss skref til framfara. Þar kom fram hjá hæstv. fjmrh. að það sem leiddi til einkavæðingar þýddi einföldun. Það fæli í sér ábyrgð þeirra aðila sem að sér tækju rekstur og það skilaði árangri. Ég tek heils hugar undir það og vænti þess að þetta mál fái góða umfjöllun og skjóta afgreiðslu. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.