Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:50:28 (1193)

1995-11-22 14:50:28# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:50]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég benti einfaldlega á var að í þessum tillöguflutningi, framsöguræðunni eða rökstuðningi í greinargerð kemur ekkert fram sem bendir til annars en þarna sé vel að verki staðið varðandi verslunarreksturinn. Rökstuðningurinn er ekki sá að fríhafnarverslunin í Keflavík sé svo illa rekin eða það sé svo illa að málum staðið að það standi einu eða neinu fyrir þrifum enda held ég að enginn hafi sýnt fram á það. Ég vildi meina að menn væru að beina kastljósinu að öðrum hlutum en þeim sem væru kannski aðalvandamálið og undirrót þess að lítið hefur gengið í að nýta þetta mannvirki og koma Keflavík á kortið sem raunverulegum valkosti til að mynda fyrir millilendingar í áætlunarflugi í heimshluta okkar. Ég hef lengi verið mikill áhugamaður um að þetta sé reynt. Ég kynnti mér til að mynda uppbygginguna á sínum tíma í kringum Shannon-flugvöll í Írlandi og hef fylgst með því hvernig að þessu hefur verið staðið víðar, eins og í Kastrup, Landvetter í Gautaborg og víðar. Ég fullyrði að þarna eiga að vera möguleikar sem eru ónýttir. Hins vegar eru ýmis vandamál sem okkur hefur gengið seint að leysa eins og fjárhagsstaða flugstöðvarinnar og þessi stjórnskipulegu vandamál sem valda togstreitu og eru mjög ankannaleg eins og hér hefur komið fram. Þetta eru allt saman hlutir sem ég held að séu einmitt prýðilegt og eðlilegt verkefni fyrir þingkjörna nefnd að taka fyrir, m.a. vegna þess að framkvæmdarvaldið, ráðuneytin eru draghölt í málinu út af þessari togstreitu. Allir sem eitthvað þekkja þessi mál vita að það er togstreita milli utanrrn., fjmrn. og samgrn. sem eru óleyst og er þá aðferðin sú að vísa þessu til eins þessara þriggja ráðuneyta. Það er vitlaust, segi ég. Við skulum taka á þessu sjálf, löggjafinn, þingið, setja í þetta þingkjörna nefnd og það er það sem ég býð hv. flm. upp á.