Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 14:58:53 (1195)

1995-11-22 14:58:53# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[14:58]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Svo að ég víki að því síðasta sem hv. þm. kom inn á með opnu gluggana. Það er dálítið merkilegt að hún komst þarna í mótsögn við sjálfa sig. Í fyrsta lagi talaði hún um það að tollgæslan reyndi að setja upp merkingar á flugstöðina til þess að leiðbeina farþegum um það hvar þeir ættu að fara um grænt eða rautt hlið og það hefði ekki tekist, ekkert samband næðist við arkitekt eða þá sem réðu og svo langur tími hefði farið í að ræða málið að þeir gáfust upp og hengdu upp skilti þetta sjálfir. Leika þá ferskir vindar um þessa flugstöðvarbyggingu þegar svo er sem raun ber vitni, hv. þm.?

Þegar á heildina er litið hvað varðar þessa blessaða flugstöð er það alveg rétt sem hér hefur komið fram að það sem vandinn knýr einkum á er hve margir aðilar fjalla um málið. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, það er nóg til af nefndum til þess að fjalla um þessi mál og þær eru nægar fyrir. Það er nóg af skýrslugerðum og miklar upplýsingar sem liggja fyrir. Það er tími kominn til framkvæmda. Ég tek hins vegar undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að það er auðvitað um marga þröskulda að fara. Þegar þeir eru nú þrír, utanrrn., fjmrn. og samgrn. sem eru þarna að vasast og embættismannatog er komið upp í málinu skilur maður jafnvel fyrr en skellur í tönnum að orðatiltækið ,,skítt með alla skynsemi`` skuli eiginlega vera það sem blívur og gildir varðandi flugstöðina. Þá er ekki að furða þótt manni vefjist tunga um tönn þegar þetta mál er grannt skoðað.

[15:00]

Það sem kom hins vegar fram hjá síðasta ræðumanni, og líka Steingrími J. Sigfússyni, varðandi það að hið opinbera dragi sig út úr rekstrinum, þá er eðlilegt að ríkið geri það. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar, eins og ég kom inn á áðan. Samkvæmt nýfluttum ræðum hæstv. fjmrh. er markmið ríkisstjórnarinnar að fækka þeim fyrirtækjum sem þeir hafa afskipti af, og þetta væri eitt af þeim ágætu málum. Ég sé hins vegar ekki annað en að alvarlegt tregðulögmál sé allsráðandi varðandi flugstöðvarbygginguna, eins og komið var inn á áðan. Það er mál manna að það sé jafnt utan dyra sem innan, þannig að hvað sem má um þessa þáltill. segja, þá er hún ekki fjarri því sem hér hefur komið fram í máli þingmanna hér að undanförnu.