Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:04:58 (1199)

1995-11-22 15:04:58# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:04]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa verið til umræðu á hv. Alþingi oftar en einu sinni, eftir því sem mér hefur verið sagt. Menn hafa reynt með ýmsum ráðum að komast að því hvernig best verði náð stöðugleika og fjölbreytni í rekstri þannig að flugstöðin geti sem slík staðið undir skuldbindingum sínum, eins og mér hefur heyrst menn orða það.

Eins og komið hefur fram hefur sú umræða ævinlega strandað á því að þeir sem í forsvari eru fyrir þetta mikla og mikilvæga fyrirtæki, þ.e. þrír ráðherrar, hafa ekki getað náð sáttum um það hvernig að málum skuli staðið, þegar til þarf að taka. Í mörgum flugstöðvum hafa menn farið út í að auka frjálsræði flughafna með þeim hætti að gefa einstaklingum og fyrirtækjum kost á því að taka þátt í rekstri verslana, eða jafnvel rekstri flugstöðvanna sjálfra. Eins og komið hefur fram í umræðunum hefur slíkt verið gert á Kastrup í Danmörku, Shannon á Írlandi og víðar.

Eftir því sem ég best veit og hef kynnt mér, bæði varðandi Kastrup og Shannon, þá hefur sú breyting sem hefur átt sér stað á þessum flugstöðvum báðum orðið til þess að þar hefur blómstrað hvers konar verslunarrekstur sem aldrei fyrr. Það er í sjálfu sér ekki nein nýlunda að þegar einstaklingar og félagasamtök einstaklinga hafa með rekstur að gera, þá verða miklu nánari og skilvirkari tengsl milli þarfarinnar og markaðarins, heldur en þegar opinberar stofnanir, sem oftast er stjórnað af æviráðnum forstjórum, hafa átt að stjórna svo mikilvægum og fjölbreytilegum rekstri sem þeim sem fram fer í fríhöfnum og flugstöðvum.

Af þessari ástæðu hef ég talið það skyldu mína að reyna með einhverjum hætti að auka á fjölbreytni rekstursins í Leifsstöð. Þótt reynt hafi verið með ýmsum hætti í gegnum árin að gera hlutina auðveldari á þeim stað, þá hefur það ekki tekist. Ég held samt að það sé nauðsynlegt að halda því verki áfram og að þessi tillaga sé að mörgu leyti gott innlegg í þá umræðu og þess virði að skoða hana mjög rækilega.

Fyrir utan spurninguna um eignarhald, hefur flestum þó ofboðið hin háa húsaleiga og hinar ógnvekjandi reglur sem eiga við um öll umsvif í Leifsstöð, þegar kemur að því að stunda þar einhverja verslun. Það hefur í rauninni hrakið verslanir og aðila út úr stöðinni sem hafa viljað veita þar þjónustu. Ég get bara nefnt sem dæmi ferðamálaaðila á Suðurnesjum og ýmsar stofnanir í kringum rekstur leigubílastöðva og alls konar ferðaþjónustu sem hafa reynt að hasla sér þar völl en ekki tekist það vegna þess að þeim er í rauninni gert það ókleift með allt of mikilum álögum.

Hvers vegna krefjast menn svo hárrar leigu að ekkert þrífst í slíkri stöð? Ég held að ein meginskýringin sé kannski að það eru nánast eingöngu ríkisfyrirtæki sem þarna eru starfrækt og þau hafa í raun litla sem enga hagsmuni af því hvort leigan er hærri eða lægri. Það breytir í sjálfu sér engu fyrir þau, þetta fer úr hægri vasanum yfir í þann vinstri. Þeirra hvati er því enginn. Það er kannski ein forsendan fyrir því og mikilvæg ástæða fyrir því að við færðum þennan rekstur í meiri frjálsræðisátt. Þegar umræðan er komin út í það, sem mér finnst hafa tæpt á hjá hv. þm. Drífu Sigfúsdóttur, að það eigi að þurfa að valda starfsmönnum einhverjum sérstökum áhyggjum þótt rekstur flugstöðvarinnar yrði frjálsari en hann er, þá er, að ég held, farið að slá á viðkvæma strengi í brjóstum þess fólks sem vinnur á svona stöðum.

Ég get tekið undir allt sem hv. þm. sagði um ágæti þess starfsfólks sem vinnur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þetta er fyrirmyndarfólk sem skilar svo sannarlega sínu verki eftir bestu getu og innan þess ramma sem því er afmarkaður af hálfu ríkisins. En ég er sannfærður um að ef hlutafélag yrði stofnað um það helsta sem um er að ræða, þ.e. fríhöfnina, þá yrði hagur þessa fólks ekki síðri. Áhrif þess á rekstur og afkomu væru mun meiri og þetta leiddi til mun umsvifameiri reksturs en við höfum þar í dag. Ég get því ekki séð að það séu nein rök fyrir því að starfsfólk eigi að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af framtíð sinni innan fyrirtækisins, þó svo að það yrði sett undir hlutafjárformið.

Ég minntist á það áðan að ég teldi að þó svo slík stofnun yrði sett undir hlutafjárformið, þá sé ég ekkert á móti því að ríkið sé hluthafi í slíku hlutafélagi. Það er mjög algengt form þar sem menn eru að fikra sig út úr ríkisrekstri að ríkið er oft og tíðum eini hluthafinn eins og t.d. hjá Pósti og síma, sem hefur verið færður yfir í hlutafjárform í Noregi. Það er einnig víðar að hluthafinn er ríkissjóður einn. Síðan hafa menn fært sig úr því formi smám saman. Í Danmörku er t.d. póstur og sími í hlutafjárformi þannig að ríkið á yfir 50%, en undir 50% eru í eigu ýmissa aðila. Einkavæðing stórra ríkisstofnana í Noregi og Danmörku, t.d. pósts og síma, hefur að mati allra þeirra starfsmanna sem þar komu nálægt og við höfðum samband við, valdið gerbyltingu í rekstri til frjálsræðisáttar og meiri hagkvæmni en nokkru sinni fyrr. (SJS: Síminn hefur hækkað.) --- Síminn hefur hækkað hvar, hv. þm.? (SJS: Alls staðar.) Af því að hv. þm. grípur fram í varðandi hækkun á pósti og síma einhvers staðar úti í heimi, þar sem ég þekki ekki til, þá er það rétt að Póstur og sími á Íslandi hefur mjög lága gjaldskrá. En það er eingöngu vegna þess að starfsfólk Pósts og síma hér er með afskaplega lág laun, sennilega þau lægstu sem þekkjast nokkurs staðar í hinum vestræna heimi við slíka stofnun. Það væri svo sannarlega verðugt verkefni að kanna hvort ekki er hægt að hækka laun þessa fólks með einhverju móti.

En við erum að tala hér um frísvæði og fríhöfnina og ég vil bara ítreka það, sem kom fram í andsvari, að mín afstaða til þessa máls byggist fyrst og fremst á því að gera veg flugstöðvarinnar meiri og veg starfsfólksins meiri. Og ef einhverjir þingmenn hafa tillögur sem geta orðið til þess að bæta þetta frv. sem lagt er fram af okkur hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, er ég tilbúinn til umræðu um það hvenær og hvar sem er.