Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:18:23 (1201)

1995-11-22 15:18:23# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:18]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. og fyrrv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson segir að þessari tillögu sé vísað til ráðherra sem komi málið ekkert við. Það er að sjálfsögðu matsatriði hver á að taka á hverju og eins og hann upplýsti sjálfur þá er þetta búið að koma fyrir nefnd eftir nefnd og til ráðherra eftir ráðherra, m.a. hans sjálfs. Og allan þann tíma sem hann var utanrrh. tókst honum ekki að leysa þau miklu vandamál sem hafa hvílt yfir þessari stöðu og þá kannski allra síst fjármálunum. Það er kannski ekki nema von að menn leiti annarra leiða og fjmrh. hefur náttúrlega með mjög mikilsverð mál að gera sem að okkar ráði var ákveðið að reyna að nota þar sem önnur úrræði hafa ekki tekist. Ég held að þegar kemur að því að reyna að leysa þau miklu fjármálavandamál sem hafa hvílt yfir flugstöðinni þá séu þau kannski fyrst og fremst vandamál okkar sjálfra. Bandaríkjaher stóð að mestu leyti undir fjármögnun og byggingu þessarar stöðvar og ég held að við getum ekki verið að drepa málum á dreif með því að segja að fjármál stöðvarinnar komi í rauninni í veg fyrir allt frjálsræði. Ég held að okkur sé brýnast að reyna fá sem mestan rekstur í gegnum þessa flugstöð með einhverju móti. Hvort ríkissjóður með einum eða öðrum hætti reynir að koma vandamálunum yfir á sama reksturinn er svo annað mál. Ég held að við getum verið sammála um að það hefði ekki gengið allt of vel og hafi ekki kannski verið hugsað nógu grannt í upphafi byggingar þessarar stöðvar hvernig átti að borga byggingarkostnaðinn og hver átti að gera það. Það ætti svo sannarlega ekki að vera sá verslunarrekstur sem þarna er starfræktur.