Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:23:49 (1203)

1995-11-22 15:23:49# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir með hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að það er nauðsynlegt að leysa úr fjárhagsvanda Leifsstöðvar. Það er mjög mikilvægt mál. En hvort það eigi að koma í veg fyrir frjálsa verslun í Leifsstöð, ég sé ekki alveg samhengið þar á milli. Ef það væri hægt að taka á þessum málum saman þá væri ég þá sannarlega tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að það mætti takast en ég sé samt ekki að við eigum að þurfa að draga slíkar hugmyndir til baka af þeirri ástæðunni einni. Eins og ég sagði áðan þá held ég að menn hafi kannski heykst allt of lengi á því að leysa þennan fjárhagsvanda sem er gríðarlegur og hefur reyndar komið niður á öllum verslunarrekstri með óskiljanlegum hætti. Varðandi það hvernig fríhöfnin hefur rekið sig þá er það náttúrlega til fyrirmyndar og ég tek undir það. Þeir hafa svo sannarlega staðið sig vel undir erfiðum kringumstæðum. En ég er sannfærður um það að þeir gætu staðið sig enn þá betur undir meira frjálsræði.