Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:31:51 (1210)

1995-11-22 15:31:51# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:31]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Mikið finnst mér leiðinlegt að hæstv. samgrh. skuli koma svona algerlega eins og álfur út úr hól inn í þessa umræðu og fara með tómt fleipur í öllum atriðum. Til óreiðunnar sem við stöndum nú frammi fyrir var að sjálfsögðu stofnað af ráðherrum Sjálfstfl. á sinni tíð eins og þeir stóðu að undirbúningi framkvæmda og lántökum.

Annað mál. Varaflugvallarmálið. Það er þvílík fjarstæða að gert hafi verið eitthvert samkomulag milli ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar um það mál. Sannleikurinn er sá að það mál líka voru afglöp fyrrv. ráðherra Sjálfstfl., samgrh. og utanrrh. Sjálfstfl. í þáv. ríkisstjórn, sem drógu það hver á fætur öðrum að taka ákvörðun meðan málið var raunverulega á dagskrá þannig að það eina sem gerðist í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var það að af hálfu Atlantshafsbandalagsins var fallið frá þessum ákvörðunum. Og að því er varðar hver beri ábyrgð á því að fjárhagsvandinn er óleystur þá situr vandinn þarna, hefur setið þarna í fjögur ár og er að byrja fimmta árið sem vandamál. Tillögurnar liggja fyrir en vandamálið er þarna.