Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:36:11 (1214)

1995-11-22 15:36:11# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er í raun ekki heil brú í málflutningi hæstv. samgrh. Í fyrsta lagi er hann að reyna að koma ábyrgðinni af máli sem algerlega liggur fyrir að er ráðherra Sjálfstfl. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á árunum 1983--1987 yfir á aðra. Í öðru lagi dregur hann alls óskylda hluti eins og varaflugvallaruppbyggingu inn í þetta mál. Í þriðja lagi opinberar hæstv. ráðherra síðan ótrúlega vanþekkingu sína á uppbyggingu flugmálaáætlunar þegar hann kvartar yfir því að það fjármagn sem fór til uppbyggingar mannvirkja eins og flugvallar á Egilsstöðum eða flugstjórnarmiðstöðvar í Reykjavík hafi þar af leiðandi ekki verið til reiðu til að borga hallann af flugstöðinni í Keflavík. Það hefur aldrei staðið til, hæstv. ráðherra, og er óheimilt samkvæmt lögum sem gilda um flugmálaáætlun vegna þess að þar er hinn sérmerkti tekjustofn bundinn við uppbyggingu mannvirkja til flugrekstrar innan lands. Þar eru alls óskyldir hlutir á ferð og óráðsíuhalinn frá lántöku og framúrkeyrslu sem varð vegna byggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sérstaklega þess að það lá svo mikið á að opna mannvirkið fyrir alþingiskosningar 1987 til þess að ráðherrar Sjálfstfl. gætu látið mynda sig framan við flugstöðina og gefa það út á kosningabæklingum, kostaði mörg hundruð milljónir.