Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:47:53 (1219)

1995-11-22 15:47:53# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er efnt til þessarar utandagskrárumræðu, að því að mér skilst af þeirri ástæðu, að ég hafi sent Vestfirðingum heldur kaldar kveðjur nú síðustu vikur. Kolröng skilaboð voru þau ummæli sem hv. þm. lét sér um munn fara og gefur í skyn að ég hafi einhverja sérstaka löngun til þess einmitt nú að draga úr kjarki, eins og ég skil það, þeirra Vestfirðinga. (Gripið fram í: Hvað kom fyrir ráðherrann í gærkvöldi?) Það hefur ekkert komið fyrir mig. (Gripið fram í: En í gærkvöldi?) Og ekkert í gærkvöldi heldur. Þetta er auðvitað mikill misskilningur og er óhjákvæmilegt að fara yfir þessi mál, þessi kolröngu skilaboð sem stjórnvöld eiga að hafa sent þeim Vestfirðingum.

Það er fyrst til þess að taka að sú flugþverbraut á Patreksfjarðarflugvelli, sem hv. þm. gerði sérstaklega að umræðuefni, hefur verið lokuð í rúm sex ár. Það kom raunar fram þegar svarað var óundirbúnum fyrirspurnum sl. mánudag og átti þess vegna ekkert að vera óljóst um þau efni. Um það segir m.a. í minnisblaði frá flugmálastjóra:

,,Krossarnir sem settir voru á brautina fyrr í þessari viku hafa nú verið færðir til, annar suður fyrir brautarendann og hinn á norðurenda brautarinnar. Verið er að gefa út tilkynningu til flugmanna þar sem tekið er fram að brautin sé lokuð en hana megi nota í neyðar- og sjúkraflugi í samráði við flugvallarvörð en á ábyrgð viðkomandi flugrekenda. Með þessu móti telur Flugmálastjórn að komið sé til móts við óskir heimamanna um að brautina megi nota þegar í nauðirnar rekur. Stofnunin mun jafnframt gera sitt besta til að ekki séu hindranir á brautinni sem hamli slíkri notkun.``

Ég vil taka það fram að við erum hér að tala um Vesturbyggð. Í Vesturbyggð eru tveir flugvellir, annar á Bíldudal og hinn á Patreksfirði. Verður að segja að vel sé þar fyrir þeim málum séð og ég átta mig satt að segja ekki á því hvers vegna þessar umræður eru komnar upp nú í sambandi við þverbrautina. Mér hafa ekki borist neinar kvartanir um það, hvorki frá flugrekstraraðilum né heldur frá sveitarstjórn Vesturbyggðar. Ég veit ekki betur en að þessi mál séu í góðu lagi og í góðum höndum, og ekki meira um þau að segja.

Í öðru lagi er undan því kvartað að Flugfélagið Ernir eða forráðamaður þess, Hörður Guðmundsson, sem rekið hefur það með miklum dugnaði, hafi nú tekið ákvörðun um að færa umsvif sín hingað suður. Ástæðurnar fyrir því eru þær að umsvifin hafa minnkað fyrir vestan, það er minna að gera en áður, og það má rekja til þess að samgöngur eru betri en áður. Hv. þm. talaði um að það væri eðlilegt að póstflug héldi áfram með óbreyttum hætti til vors. Er skynsamlegt nú, eftir að búið verður að opna göngin á milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar, að halda póstflugi áfram til Þingeyrar? Til hvers vorum við þá að fara í göngin ef við ætlum að halda uppi með ríkisstyrkjum flugsamgöngum milli Þingeyrar og Ísafjarðar?

Ég vil jafnframt segja það að eftir að vegur er kominn yfir Hálfdán og búið er að sameina Vesturbyggð, bæði Bíldudal og Patreksfjörð og fleiri hreppa í eitt sveitarfélag og byggja upp veginn á milli þessara þéttbýlisstaða, er þá ástæða til að halda uppi póstflugi bæði til Bíldudals og Patreksfjarðar? Ef við vildum styrkja Hörð Guðmundsson og Erni væri þá ekki skynsamlegra að gera það með beinum fjárstyrkjum úr ríkissjóði heldur en að efna til hluta af því tagi sem engum kemur að notum?

Í þriðja lagi vil ég segja, eins og hv. þm. á að vera kunnugt, að það hefur verið gefin út heimild fyrir því að Gilsfjarðarbrú verði boðin út og hægt er að fá upplýsingar um það með einu símtali. Ég fæ því ekki séð að þau skilaboð sem ég á að hafa sent vestur, og skýrt var frá í þeim tón eins og um einhver köld skilaboð væri að ræða, eigi sér neitt tilefni eða að sá kuldi hafi komið fram í mínum stjórnarathöfnum gagnvart Vestfjörðum að ástæða hafi verið til að taka málið upp hér utan dagskrár.