Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:56:22 (1221)

1995-11-22 15:56:22# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), StG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:56]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Mikil skerðing á póstflugi milli staða á Vestfjörðum hefur því miður orðið til þess að Flugfélagið Ernir telur sig nú knúið til að flytja starfsemi sína frá Vestfjörðum, eins og hér hefur komið fram. Þetta er mikið og alvarlegt áfall fyrir samgöngumál og íbúa Vestfjarða og vissulega mikill brestur í öryggismálum þar vestra. Því vil ég biðja hæstv. samgrh. af fullri einlægni að taka þetta mál hér upp til vinsamlegrar athugunar og úrlausnar, þannig að Vestfirðingar og þeir sem við þetta búa geti sæmilega sáttir við lifað.

Með opnun jarðganga á Vestfjörðum nú í næsta mánuði verða vissulega tímamót í samgöngumálum vestra. Þó skortir enn á tengingu til suðurfjarða Vestfjarða eins og hér var lauslega drepið á áðan. Því varpa ég hér fram úr þessum ræðustóli, hvort ekki væri vert að gera tilraun til bættra samgangna milli suður- og norðurfjarða Vestfjarða og athuga með reglubundnar siglingar úr Arnarfirði, eða nánar tiltekið frá Bíldudal til Þingeyrar yfir vetrarmánuðina. Slíkt mundi opna margvíslega möguleika fyrir Vestfirðinga, bæði hvað varðar samgöngu- og öryggismál, og opna einnig nýjar leiðir til margvíslegra viðskipta.

Ég vænti þess, hæstv. samgrh., að þetta mál verði einnig tekið upp í umræðum um úrlausn í samgöngumálum Vestfjarða. Ég tel að slík tilraun væri þess virði að hún væri gerð. Það þarf ekki að stofna til mikils kostnaðar við að gera slíkt, við eigum til þessi skip, og ég er sannfærður um það, eftir að hafa rætt við marga fyrir vestan, að þetta mundi bæta samskipti verulega og opna margvíslegar leiðir til viðskipta milli þessara svæða, sem nú eru svo nauðsynleg í dag.