Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:59:01 (1222)

1995-11-22 15:59:01# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:59]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er mikilvægt að menn haldi ró sinni þegar á ríður og það hafa Vestfirðingar kannski kunnað öðrum landsmönnum fremur í gegnum tíðina. Því er ástæðulaust að umræðan hér fari þvers og kruss í málum sem liggja nokkuð klár fyrir. Ég vil taka undir að það er mikilvægt að stuðla að tryggingu samgangna á Vestfjörðum, ekki síst þess þáttar sem kallaður er sjúkraflug. Það er auðvitað mikilvægt að þar sé möguleiki til sjúkraflugs við þær erfiðu aðstæður sem oft koma þar upp. Það er alveg klárt mál að þar er einna brýnast á landinu öllu að til sé þjónusta sem heitir sjúkraflug.

[16:00]

En hlutirnir verða líka að heita réttu nafni. Það verður að geta þess að sjúkraflugið er eina flugið í almennu leiguflugi landsmanna sem er greitt að fullu. Eftir því sem ferðirnar eru fleiri þeim mun betri stoðir setur það undir flugreksturinn. Flest hafa sjúkraflugin verið á Vestfjörðum nú um nokkurt árabil, síðan á Austfjörðum og svo aðrir staðir á landinu. Þegar rætt er um að flugfélag á Vestfjörðum hafi ekki notið styrkja í sjúkraflugi, þá er það rangt. Það hefur bæði notið fullrar greiðslu fyrir sjúkraflugið, auk þess sem tugmilljónir kr. hafa komið beint frá ríkinu í rekstur félagsins á undanförnum árum. Það er rétt að þetta komi fram því það er ekki rétt að ekki hafi verið greitt fyrir þessa þjónustu, hvort sem menn kalla það bakvaktir eða annað. Ég minni á þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þáv. fjmrh., stóð fyrir því að kaupa flugskýli af Erni á 50 millj. kr., skýli sem var metið á 18 millj. kr. og var ekki einu sinni leitað umsagnar Flugmálastjórnar um þá gjörð. Þannig að ef menn opna málið á annað borð þá er rétt að svona atriði komi fram. Engu að síður er full ástæða til þess að hvetja til allrar styrkingar á þessari þjónustu á Vestfjörðum.

Einnig er rétt að minna á að þverbrautin á Patreksfirði, sem er 400 m löng, hefur verið lokuð síðan 1989, eins og fram kom í máli hæstv. samgrh. Hún hefur verið lokuð formlega í öllum flugrekstrarbókum sem í gildi eru á Íslandi. Kvörtun barst fyrir tveimur dögum um að búið væri að setja þessar lokunarmerkingar á, þannig að hún væri eingöngu til notkunar í neyðartilvikum. Það er búið að fjarlægja þær í dag, það var gert í morgun af Flugmálastjórn.

Það verður líka að minna á það að sjálf aðalbrautin, 1200 m löng, hefur verið lögð bundnu slitlagi á sl. árum, 40 millj. kostaði það, 30 millj. í Bíldudal. Þannig að vel er hugað að þessum málum á þessu svæði, þó svo að alltaf megi finna að og þarf að tryggja þegar upp kemur vandi eins og sá ef þessi flugrekstraraðili er að flytja sinn rekstur til Reykjavíkur, ef hann ætlar þá ekki að hafa flugvél staðsetta á Vestfjörðum, sem ugglaust hefur ekki gefið slæmar tekjur um langt árabil.