Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 16:02:23 (1223)

1995-11-22 16:02:23# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[16:02]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Samgöngumál Vestfjarða og þeir örðugleikar sem við er að etja þar hvað varðar að komast um kjördæmið eða í kjördæmið, er vandi allra landsmanna. Hörmungar þær sem dunið hafa yfir byggðirnar eru einnig okkar vandi allra saman. Ég vil taka undir orð málshefjanda og áhyggjur hans varðandi flugmálin, þá sérstaklega hvað varðar Flugfélagið Erni. Ég vil þakka hv. málshefjanda umræðuna og ætla að nota þetta tækifæri til að nefna að vonandi eru tillögur hæstv. samgrh. varðandi framkvæmdir í vegamálum á Íslandi, að minnsta kosti fyrir næsta ár, á næsta leiti. Ég vona að bið eftir ákvörðun um hvenær á að hefja framkvæmdir við brú yfir Gilsfjörð fari nú brátt að ljúka. Fólkið í aðlægum byggðum Gilsfjarðar bíður ákvörðunar um Gilsfjarðarbrú milli vonar og ótta og það er ekki sannfært um að framkvæmdir hefjist.