Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 16:09:27 (1226)

1995-11-22 16:09:27# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[16:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem hingað upp, herra forseti, til að taka undir með því viðhorfi sem birtist í máli hv. málshefjanda. Hann sagði: Þetta eru röng skilaboð frá ríkisstjórn Íslands sem verið er að senda vestur á firði. Ég er honum algerlega sammála um það. Ég tel að hæstv. samgrh. þurfi ekki að telja það neina sérstaka aðfinnslu í hans garð. Það er ekki verið að halda því fram að hann einn og sér standi fyrir því að senda þessi skilaboð vestur á firði. En það veit öll þjóðin að yfir Vestfirði hafa dunið áföll á þessum vetri og í fyrra. Menn tala jafnvel um að búsetu á Vestfjörðum sé í tvísýnu teflt. Ég tel að það sé nauðsynlegt að við sameinumst um það að reyna að stappa kjarki í það fólk sem býr á Vestfjörðum. Ég nefni t.d. að sú staðreynd að sjúkraflug virðist nú svo að segja lagt niður með því að Flugfélagið Ernir flyst suður hlýtur auðvitað að auka óöryggi Vestfirðinga. Staðreyndin er sú að á síðasta ári flaug þetta flugfélag 200 sjúkraflug. Ég er ekki viss um að menn hafi gert sér grein fyrir því.

Ég er auðvitað sammála hæstv. samgrh. þegar hann segir: Eigum við að fara að veita sérstakan fjárstuðning til flugfélagsins til að halda þessu uppi? Mér þótti það reyndar talsverð kokhreysti af manni sem er búinn að eyða milljörðum í beinar greiðslur til bænda, sem hálf þjóðin er á móti, en það er nú önnur saga. En staðreyndin er sú að ég held að okkur beri skylda til þess með einum eða öðrum hætti að halda úti þessu sjúkraflugi. Mér er alveg sama þó ég heyri hv. þm. Árna Johnsen hrista höfuðið. Ég er þessarar skoðunar. Það kann að koma til þess að við þurfum með einhverjum hætti að láta fjármagn til þess. Það gerist auðvitað ekki fyrr en eftir skoðun en þá getur vel verið að því fjármagni sé best varið með því að halda uppi póstfluginu og skjóta þannig stoðum undir rekstur Flugfélagsins Ernis.

Ég vil síðan aðeins víkja að Gilsfjarðarbrúnni, herra forseti. Mér þótti það næsta djarft hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að koma hér upp og segja: Því miður hefur útboðið tafist, en við efumst ekki um góðan vilja hæstv. samgrh. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson: Hvað er hægt að aka langt yfir Gilsfjörð á góðum vilja hæstv. samgrh.? Aftur og aftur er búið að fresta þessu útboði. Í tíð síðustu ríkisstjórnar tóku menn hreystilega á þessu máli og það var reynt að berja niður jafnvel á tímum ágreining um málið. Það var oft erfitt, en menn tóku á málinu. Síðan gerist það að hæstv. samgrh. dregur lappirnar og ég þori að fullyrða að það mundi ekki hafa gerst ef Gilsfjarðarbrú væri í hans eigin kjördæmi, eins og dæmin sýna.