Samgöngumál á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 16:12:30 (1227)

1995-11-22 16:12:30# 120. lþ. 39.91 fundur 99#B samgöngumál á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[16:12]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessum umræðum, en um leið gera athugasemdir við það að ég er ekki að stofna til þessara umræðna af neinum fjandskap við hæstv. ráðherra. Síður en svo. Ég taldi mig hafa gert nokkra grein fyrir því í mínu máli að ég var ekkert að beina mínum spjótum sérstaklega að hæstv. ráðherra. Ég talaði um stjórnvöld Íslands. Og hvað varðar lokun þverbrautarinnar, að þó að mér hafi verið kunnugt um það að menn ætluðu að setja hlutina í samt lag --- ég hef orð flugmálastjóra fyrir því og ég tók það fram hér --- að þá fer það ekkert á milli mála að röng skilaboð voru send. Hvaða starfsmaður Flugmálastjórnar sem gerði það, það væri kannski athugunarefni fyrir sig að finna þann þorpara og láta hann finna til tevatnsins ef aðrir eru saklausir og sjálfsagt að gera það. Stjórnvöld eiga ekki að fá að vaða uppi með slík skilaboð án þess að æðstu menn þeirra mála fái að vita af því.

Síðan finnst mér að komið hafi fram nokkur ruglingur í máli hv. þm. Árna Johnsens sí sambandi við það sem ég sagði um flugfélagið Erni. Ég sagði að þeir hefðu ekki fengið sérstaklega greitt fyrir bakvaktir þessi 26 ár sem þau hjón, Hörður Guðmundsson og hans ágæta kona, hafa rekið þetta flugfélag. (ÁJ: Þau hafa fengið það.) Það sem skiptir máli í þessu er það að þegar Flugfélagið Ernir flytur suður, vegna þess að viðskiptagrundvöllurinn hefur breyst að verulegu leyti, auðvitað við það að göngin hafa komið í gagnið, þá hefði verið rétt að mínu viti af stjórnvöldum, bæði samgrh. og heilbrrh., að reyna að finna flöt á því að halda eftir einni flugvél þarna í öryggisskyni fyrir íbúana. Mér hefur verið tjáð að þetta mundi kosta um eina millj. á mánuði, en rekstur sjúkrabíls aftur á móti, sem ekki er jafnöruggur að komast allra sinna ferða, mundi vera kannski allt að því helmingi hærri, eða að minnsta kosti þriðjungi.

Hvað varðar Gilsfjarðarbrúna, þá var það ekki heldur af neinum fjandskap við hæstv. ráðherra sem ég vildi leiða hana hér í tal. Ég vildi að það kæmi fram hér á Alþingi Íslendinga með þessum umræðum, að Alþingi og stjórnvöld vilja taka jákvætt á málum og senda jákvæð skilaboð til Vestfirðinga núna þegar skammdegið og veturinn fer í hönd og þeim veitir ekki af því.