Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 10:53:10 (1231)

1995-11-23 10:53:10# 120. lþ. 40.3 fundur 98#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[10:53]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði varðandi þessa ársskýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég vil gera að umtalsefni. Það fyrra snertir þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni sem hæstv. forseti las upp áðan og kynnti okkur og snerta umhverfisendurskoðun. Það er auðvitað mjög stórt atriði og í raun og veru nauðsynlegt að forsætisnefnd geri sér grein fyrir því sem allra fyrst hvernig þessari umhverfisendurskoðun á að vera háttað og það er stór spurning hvort ekki væri rétt að hv. umhvn. Alþingis fjallaði um það sérstaklega hvernig ætti að koma að máli af þessu tagi.

Í þeim ábendingum sem hæstv. forseti flutti okkur áðan var m.a. minnst á það að þessi umhverfisendurskoðun gæti t.d. beinst að því að Ísland er aðili að fjölmörgum alþjóðlegum umhverfissáttmálum og það ætti að kanna hvernig t.d. stofnanir eða fyrirtæki uppfylla þessa alþjóðlegu umhverfissáttmála. Ég held að það sé nauðsynlegt að hugleiða þetta núna að gefnu tilefni. Nú er í undirbúningi framkvæmdaáætlun vegna Ríó-samningsins um loftlagsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur reyndar verið að fjalla um en hefur ekki verið birt opinberlega svo að mér sé kunnugt um enn þá en væri auðvitað mjög nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar við umræður um 7. dagskrármálið á þessum fundi í dag sem er viðbótarsamningur um stækkun álversins í Straumsvík. Þetta nefni ég í fyrsta lagi, hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé mikilvægt atriði og það eigi í raun og veru að taka um það ákvörðun sem allra fyrst að Ríkisendurskoðun fái einhverja aðstöðu til að þróa þetta verkefni, annaðhvort með heimild til að ráða þar inn fólk sem sinnir þessum umhverfismálum sérstaklega eða með öðrum hætti að móta stefnuna fyrir það hvernig Ríkisendurskoðun kemur að þessari sérstöku umhverfisendurskoðun.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna hefur reyndar áður verið nefnt í þessari stofnun og það snertir það hvað á að gera við skýrslur Ríkisendurskoðunar, þar á meðal starfsskýrslu, í framtíðinni á Alþingi. Staðreyndin er sú að það er engin mynd á því núna hvernig farið er með þessar skýrslur. Þeim er svo að segja hent hér inn. Það er ekki ítarlega fjallað um þær í nefndum. Það er ekki ítarlega fjallað um þær í fjárln., ekki í fagnefndum þingsins og jafnvel þó það væri ítarlega fjallað um þessar skýrslur í þessum nefndum, þá er vandséð hvað yrði gert við þá umfjöllun. Eitt gleggsta dæmið sem ég man eftir í þessu sambandi er t.d. skýrsla Ríkisendurskoðunar um málefni Hrafns Gunnlaugssonar sem komu hér við sögu fyrir tveimur árum eða svo. Hún fékk umfjöllun í fjárln., fékk umfjöllun í menntmn. en svo datt botninn úr málinu. Það var hvergi settur neinn punktur í það mál af hálfu Alþingis. Það er engin mynd á þessu og það má auðvitað segja að þessir skýrslubunkar allir séu til lítils þegar Alþingi fylgir þeim ekki eftir eða afgreiðir þessi mál með einhverjum myndarlegum hætti. Ég held þess vegna að á þessum vetri þurfi að ákveða, með breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun og breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, hvernig verður farið með þessi mál í framtíðinni.

Eins og hæstv. fjmrh. benti á fyrir nokkrum dögum, þá er það auðvitað algerlega út í hött að fjárln. fjalli um skýrslur t.d. um framkvæmd fjárlaga og um ríkisreikninginn. Það er ekki hennar hlutverk. Þar með er hún að fjalla um sjálfa sig í raun og veru. Það ætti að vera sérnefnd í þessu verki eins og er í öllum þingum sem hafa tekið skipulega á þessum málum. Þannig hefur það verið í breska þinginu í áratugi. Þar hefur mótast sú hefð að stjórnarandstaðan hefur forustu í þessari sérstöku endurskoðunarnefnd sem fjallar um ríkisreikningana og þar hafa þróast lýðræðisleg vinnubrögð sem að mínu mati eru til fyrirmyndar að því er þessa hluti varðar.

Í þessu sambandi hafa menn líka verið að ræða um, m.a. úr þessum ræðustól eins og ég heyrði fyrir nokkrum dögum að það væri gott kerfi sem gilti í þessum efnum í Danmörku og það er nokkuð til í því. Þar er um að ræða ákveðna nefnd í danska þinginu sem fer yfir allar skýrslur sem koma frá ríkisendurskoðuninni og í framhaldi af þeirri umfjöllun kemst hún stundum og reyndar oftast að þeirri niðurstöðu að hlutirnir séu í lagi og ekkert þurfi að gera við þá frekar. Stundum kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að eitthvað þurfi að gera frekar og þá snýr hún sér beint til viðkomandi ríkisstofnunar og biður um nánari útskýringar eða þá til þjóðþingsins ef hún telur sérstaka þörf á því.

En ég tók líka eftir því fyrir nokkrum dögum að hæstv. fjmrh. vitnaði til þess fyrirkomulags sem er í Noregi í þessum efnum þar sem um er að ræða sérstaka stjórn sem kosin er af þinginu og taldi að það fyrirkomulag væri að mörgu leyti til fyrirmyndar. Ég er ósammála því. Ég er ósammála þessu norska kerfi vegna þess að formaður endurskoðunarnefndarinnar er pólitískt valinn aðili, þ.e. ríkisendurskoðandi eins og hann er. Pólitíkus sem hefur verið á vettvangi um árabil, bæði sem stórþingmaður fyrir jafnaðarmannaflokkinn norska og sömuleiðis ráðherra í norskum sjávarútvegsmálum eins og menn þekkja hér, Bjarne Mørk Eidem. Þetta kerfi er ekki heppilegt. Það þarf að tryggja að um sé að ræða algerlega óháðan aðila í þessu efni og það þurfum við að gera með þeim ákvörðunum sem hér verða teknar.

Þess vegna nefni ég þetta, hæstv. forseti, að ég er hræddur um að þetta mál lendi í útideyð. Ég sé ekki að við séum neitt að gera í því að reyna að koma þessum hlutum í eðlilegt horf varðandi meðferð ríkisreiknings. Hverju skiptir svo meðferð ríkisreiknings og hverju skiptir það svo að Ríkisendurskoðun er til? Það skiptir miklu máli. Það skiptir miklu pólitísku máli að það sé vel farið með almannafé og það sé greitt aðgöngu fyrir alla, fyrir kjósendur, fyrir þingmenn og alla hvernig með þessa hluti er farið og það sé fylgt viðurkenndum faglegum leikreglum. Þess vegna er hér um að ræða mikilvægt pólitískt mál, ekki aðeins fyrir Alþingi heldur fyrir alla þá sem hér eiga um að véla. Þess vegna finnst mér að um sé að ræða miklu stærra mál en menn yfirleitt virðast gera sér grein fyrir, þegar þessi mál eru til meðferðar því að yfirleitt fá þau enga umræðu þegar þau eru sett á dagskrá í þessari virðulegu stofnun.

[11:00]

Ég er ekki að tala um innihald ríkisreikninga, það er ekki á dagskrá núna, heldur er ég að tala um meðferð þessara mála sem skipta miklu pólitísku máli, að þau séu í lagi. Kjósendur eiga það skilið að þessar reglur séu skýrar. Við erum að fara með peninga kjósenda og engra annarra. Þess vegna hvet ég til þess að á þessum málum verði tekið á þessum vetri þannig að þegar yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hætta að lesa þá yfir, eins og þeir hafa gert, þá takið við annað kerfi vegna ríkisreikningsins fyrir árið 1995. Við erum núna að ganga frá ríkisreikningnum fyrir árið 1994. Honum verður dreift á borð þingmanna á næstunni, eða öllu heldur er það skýrslan sem verður dreift hér á borð þingmanna á næstunni. Þar er um að ræða mjög viðamikla og merkilega úttekt, t.d. á aðalskrifstofum allra ráðuneytanna, þar sem mjög margt fróðlegt og gagnlegt kemur í ljós, sérstaklega um ráðuneytin sjálf. Það skiptir náttúrlega langmestu máli að þar sé vel á hlutunum haldið því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Ég tel að það sé líka nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi að íhuga stöðu sína í þessu sambandi gagnvart fjmrn. Ég tel að fjmrn. hafi haft allt of mikil völd í þessu máli um árabil. Þó tókst okkur að skerða þau völd verulega þegar við breyttum lögunum um Ríkisendurskoðun og tókum hana undan fjmrn. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því, ekki síst nýir þingmenn sem hér eru, að Ríkisendurskoðun var undir fjmrn., hún var undir hæl fjmrn. en átti samt að endurskoða fjmrn. Það var svo vitlaust. Þessu var sem betur fer breytt fyrir nokkrum árum og ég tel alveg fulla ástæðu til að geta þess sem vel er gert. Þar átti forustu og þakkir skildar hæstv. núv. utanrrh., sem beitti sér mjög fyrir því að flutt var þingmál um þetta efni. Ég held satt að segja að hann hafi fyrstur flutt frv. til laga um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun sem á þessu snertir, og hafi fyrst lagt það fyrir efri deild Alþingis þegar hann var þar á sínum fyrstu þingmannsárum. Ég tel að það hafi í raun og veru verið mjög skynsamlegt og mér finnst að þessir hlutir séu allir að þróast í rétta átt. Ég tel að tök Alþingis á þessum málum séu að lagast, þau eru ekki eins tilviljunarkennd og þau voru. Eitt sem breytir miklu í því er auðvitað það að okkur hefur tekist að taka niður verðbólguna. Þetta voru auðvitað alveg ólæsilegir textar meðan verðbólgan var, vegna þess að menn vissu aldrei hvaða tölur þeir voru að lesa frá ári til árs. Það skiptir auðvitað gríðarlegu máli í þessu samband. Og fleira hefur gerst sem er jákvætt og á að auðvelda okkur að tryggja það að þessir hlutir séu gagnsæir og það sé vel um þá gengið.

Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti, um leið og ég þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir þá ræðu sem hann flutti áðan.