Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:08:17 (1235)

1995-11-23 11:08:17# 120. lþ. 40.3 fundur 98#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994# (munnl. skýrsla), ÓE
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:08]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka athugasemdir og ábendingar sem komið hafa fram í máli hv. þingmanna. Við erum áreiðanlega sammála um öll þessi atriði, ekki síst um það sem ég ræddi í ræðu minni um svonefnda umhverfisendurskoðun og hversu mikilvægur þáttur hún hlýtur að verða í framtíðinni. Það er enginn vafi á því að Ríkisendurskoðun þarf að fá ákveðnar heimildir til þess að sinna þessu sérstaka viðfangsefni. Það mál mun áreiðanlega verða rætt í forsætisnefnd Alþingis og í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir árið 1996.

Spurningin um hvað á að gera við skýrslur Ríkisendurskoðunar er auðvitað nokkuð áleitin. Það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að það er ekki nægilega góð mynd á þessu eins og þetta er nú. Ég minnti í ræðu minni áðan á þörfina á að ákveða nánar hvernig fara ætti með skýrslur Ríkisendurskoðunar. Og raunar á það kannski við um fleiri skýrslur sem lagðar eru fyrir Alþingi, hvaða meðferð þær eigi að fá á hv. Alþingi.

Ég er sammála hv. 8. þm. Reykv. að það þarf að ákveða þetta núna á þessum vetri, ekki síst vegna þeirra breytinga sem við gerðum á stjórnarskrá að fella niður starf yfirskoðunarmanna ríkisreinings. Þetta er nokkuð sem hlýtur að koma inn í endurskoðun á þingskapalögum sem rædd hefur verið á undanförnum missirum, bæði í hópi þingflokksformanna á síðasta ári og forsætisnefndar, bæði núverandi og hinnar fyrri. Það verður tekið til við það mál af auknum krafti nú á næstunni. Mér þykir eðlilegt að í ný þingskapalög, eða breytt þingskapalög, komi ákvæði einmitt um hvernig fara skuli með skýrslur Ríkisendurskoðunar.

Að lokum vil ég segja að það er heldur enginn ágreiningur á milli okkar um stöðu fagnefnda gagnvart forsætisnefnd eða öfugt. Það er alveg ljóst að forsætisnefnd er engin yfirnefnd fagnefndanna. Hún veitir hins vegar leiðbeiningar ef óskað er eftir. Hvað áheyrnaraðildina varðar, þá er það alfarið í verkahring hinna einstöku nefnda að ákvarða hvort áheyrnaraðild verður veitt. En þar sem þetta bar á góma vil ég geta þess, sem þingmönnum er kannski kunnugt, að forsætisnefnd hefur nýlega sett reglur um stöðu áheyrnarfulltrúa í nefndum, réttindi þeirra og skyldur. Þótt sett yrði upp sérnefnd til þess að fara yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar og aðrar skýrslur sem kunna að berast þinginu má vel hugsa sér, þrátt fyrir slíkt ákvæði sem kynni að koma inn í þingskapalög, að einstakar skýrslur Ríkisendurskoðunar færu til fagnefnda þingsins. Sérnefnd mundi alls ekki útiloka það.

Ég ítreka þakkir fyrir athugasemdir og ábendingar sem hér hafa komið fram.