Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:25:30 (1239)

1995-11-23 11:25:30# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:25]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég læt í ljós ánægju mína með skýrslu umboðsmanns Alþingis og þakka hversu ítarleg og skýr hún er. Ef einhverjir hafa einhvern tíma efast um mikilvægi þessa embættis hljóta þeir að hafa skipt um skoðun í ljósi þeirrar góðu reynslu sem þegar er fengin af embættinu. Ekki síst er mikilvægt að það vinnulag sem haft hefur verið á í tengslum við 11. gr. laganna um umboðsmann Alþingis, nr. 13/1987, að tilkynna Alþingi um meinbugi á gildandi lögum. Hv. allshn. berast reglulega minnisblöð með ábendingum um slíka meinbugi sem gefa löggjafanum tækifæri til að bæta jafnóðum löggjöfina

Efnislega geri ég þrjú atriði að umræðuefni sem vöktu athygli mína við skoðun á nefndri skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1994. Í fyrsta lagi vekur það athygli mína að af 370 aðilum, sem kvarta til umboðsmanns, eru 328 einstaklingar og 42 lögaðilar og af þessum 328 einstaklingum eru 84 konur en 244 karlar. Ég hef haft tækifæri til að spyrja umboðsmann Alþingis um skýringar á þessum mun í hv. allshn. þar sem hann kom sem gestur og hann taldi skýringuna ekki liggja í því að karlar teldu frekar á sér brotið, t.d. í einkarétti, heldur væri þetta frekar merki um meiri umsvif þeirra í atvinnulífinu. Það finnst mér mikið áhyggjuefni þó að það komi kannski ekki mikið á óvart.

Í öðru lagi fannst mér mjög athyglisverð sú staðreynd sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir nefndi hér áðan að það koma mun fleiri mál hlutfallslega til umboðsmanns Alþingis hér á landi en t.d. á Norðurlöndum þar sem sambærileg embætti eru til staðar. Helstu skýringar umboðsmanns eru þær að stjórnsýslan sé mun þróaðri á Norðurlöndum og sterkari og því sé minna um svona óskýr ákvæði og umkvartanir. Þá var nefnd sú skýring að stjórnsýslulögin, sem tóku gildi 1. jan. 1994, hafi verið ein orsök þess að svo mörg mál koma fram. Það var einnig nefnt að á Norðurlöndum tíðkast umboðsmenn í afmarkaðri málum, t.d. umboðsmaður jafnréttismála er til í Noregi og víðar á Norðurlöndum. Mér finnst virkilega umhugsunarvert hvort það sé betri leið en sú sem við höfum í okkar jafnréttislöggjöf með kærunefnd og allt annars konar kerfi.

Í þriðja lagi vil ég gera að umtalsefni ábendingu umboðsmanns Alþingis, sem kemur fram á bls. 12 í skýrslunni, um það hvort við Íslendingar ættum að gera svipaða breytingu á lögum okkar og Danir hafa lagt til, þ.e. að málefni þar sem sveitarstjórnir eru hið endanlega úrskurðarvald heyri meira undir umboðsmann Alþingis en þau gera nú. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði skoðað vandlega á Alþingi, ekki síst í ljósi þess að æ fleiri málefni eru að flytjast frá ríki til sveitarfélaganna.

[11:30]

Það er vissulega rétt eins og fram kom hjá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur að embætti umboðsmanns Alþingis er eðlisólíkt embætti t.d. umboðsmanns barna en ég tel verulega umhugsunarvert fyrir okkur hvernig embætti umboðsmanns Alþingis þróast, hvort það er æskileg þróun að búa til fleiri embætti umboðsmanns svipað og umboðsmanns barna eða umboðsmanns sjúklinga, sem hefur komið til umræðu. Ég nefni umboðsmann jafnréttismála sem hugsanlegt dæmi. Eða hvort æskilegra væri að slíkir sérhæfðir starfskraftar ynnu og væru á vegum embættis umboðsmanns Alþingis. Það eru mörg umhugsunarefni sem þessi skýrsla kallar á. Ég þakka hana og vil láta í ljósi ánægju mína með þessa vinnu.