Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:36:17 (1241)

1995-11-23 11:36:17# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), KHG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:36]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins árétta tvö atriði sem fram koma í skýrslu umboðsmanns og hafa reyndar komið fram áður og mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á í því skyni að vinna því fylgi að þörf er á að fá stjórnvöld til að bregðast við. Þegar ég ég nota orðið stjórnvöld í þeim málum sem umboðsmaður gerir sérstaklega að umtalsefni þá er ég fyrst og fremst að tala við framkvæmdarvaldið eða ráðherrana. Það vakti reyndar athygli mína að þegar umræðan um skýrslu umboðsmanns Alþingis hófst, sem er auðvitað fyrst og fremst skýrsla um mál sem umboðsmaðurinn hefur fengið til meðferðar vegna samskipta þegnanna við framkvæmdarvaldið, hvort heldur er á stigi ráðuneyta eða sveitarstjórna, þá var aðeins einn ráðherra í þinghúsinu, níu ráðherrar voru ekki í húsinu og því engan veginn hægt að segja að þeir séu viðstaddir þessa umræðu. Mér finnst ástæða til að fara fram á það að minnsta kosti næst þegar skýrslan verður rædd að ráðherrar verði hér til svara því þingmenn þurfa auðvitað að krefja ráðherra um svör við því hvers vegna þegnar landsins þurfa svo oft að leita réttar síns í viðskiptum sínum við stjórnvöld og leita þá til umboðsmanns Alþingis. Og eins líka hinu hversu oft það gerist, sem raun ber vitni, að stjórnvöld verða seint og illa við niðurstöðum af áliti umboðsmanns Alþingis.

Það afbrigðilega finnst mér hversu félmrn. hefur í gegnum árin verið tregt til þess að laga starfshætti sína að alvarlegum ábendingum umboðsmannsins. Í skýrslum tekur umboðsmaður enn og aftur á sveitarfélagastiginu og skorti á eftirliti með því og minnir sérstaklega á þetta atriði og upplýsir um fyrirkomulag þess í Noregi og Danmörku þar sem farin hefur verið sú leið að setja á fót alveg sérstök stjórnvöld sem íbúarnir geta leitað til með ágreiningsefni sín í samskiptum við sveitarstjórnir eða embættismenn þeirra og fengið niðurstöðu og aðstoð við úrlausn mála með skjótum hætti ef niðurstaðan er á þann veg.

Í núgildandi lögum um sveitarstjórnir er gert ráð fyrir því að það sé ráðuneytið sem hafi þetta hlutverk með höndum þannig að í íslenskri löggjöf er gert ráð fyrir því að íbúarnir eigi sér leið að vísa máli til ráðuneytis telji þeir sig þurfa að leita réttar síns gagnvart sínum stjórnvöldum. Það er því ekki hægt að segja að á skorti í lagasetningu. Það hefur verið gert ráð fyrir þessu í lögunum um sveitarfélög frá 1986. Vandinn hefur hins vegar verið sá að ráðuneytið hefur ekki viljað sinna þessu hlutverki sínu og í raun og veru vísað því meira og minna frá sér með því að þrengja svo mjög túlkun sína á lögunum um eftirlitsskyldu sína gagnvart sveitarfélögunum. Það hefur ekki aðeins haft þann annmarka í för mér sér að íbúarnir hafa í mun minna mæli en ætlast var til getað leitað til ráðuneytisins heldur hefur þessi túlkun jafnframt gert það að verkum að íbúarnir hafa heldur ekki getað leitað til umboðsmanns Alþingis með þessi sömu mál. Því aðeins geta íbúarnir leitað til hans að um sé að ræða ákvarðanir sem unnt sé að skjóta til æðra stjórnvalds, þ.e. frá sveitarstjórnum eða sveitarfélögum til félmrn.

Ég tek mjög undir athugasemdir sem fram koma í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1994 og reyndar í fyrri skýrslum, hvað varðar þetta efni. Ég hygg að það þurfi verulega að bæta úr og eðlilegast er að ætlast til þess að félmrn. fari að lögum, fari að sinna þessu verkefni sínu af fyllstu alvöru. Þær upplýsingar hafa komið fram í dagsljósið á undanförnum vikum varðandi málefni sveitarfélaga sem gera það að verkum að það er ástæða til þess fyrir félmrn. til að sinna þessari lögboðnu skyldu sinni í ríkari mæli en verið hefur.

Hinu er ekki að neita að ég hef dálítið brotið heilann um það hvers vegna ráðuneytið veigrar sér við því að taka á þessum eftirlitsþætti sínum. Það kunna að vera fyrir því ákveðin rök og skýringar sem gera það að verkum að það er kannski ekki endilega réttast að reyna að halda hlutunum í því formi sem þeir eru í dag, að hafa þennan þátt hjá ráðuneytinu. Ég hef satt að segja verulegar efasemdir um að félmrn. sé hæft til þess að standa undir þessu hlutverki sem er ákaflega þýðingarmikið. Mér finnst samgangurinn á milli ráðuneytisins og sveitarstjórnarmannanna vera að sumu leyti eðlilega það mikill að ráðuneytið eigi í verulegum erfiðleikum við að taka á erfiðum málum sem upp koma hjá þessum sömu aðilum sem þeir eiga svo mikil samskipti við. Ég hef æ meira hallast að þeirri skoðun að taka eigi þessi eftirlitsmál úr höndum ráðuneytisins og setja þau í sérstakan farveg eins og vakin er athygli á í skýrslunni að er gert í tveimur Norðurlandanna. Ég tel því að við eigum að íhuga það í fyllstu alvöru hvort ekki sé rétt að taka upp þennan hátt mála.

Það er nefnilega afar þýðingarmikið að þessi eftirlitsþáttur sé í góðu lagi því ef svo er ekki þá er hætt við því að hlutur íbúanna sem eiga ansi mikið undir verkum sveitarstjórna og samskiptum við sína sveitarstjórnarmenn sé fyrir borð borinn umfram það sem eðlilegt má teljast eins og málum er skipað. Ég vil benda á ýmis atriði sem mér finnst standa miklu verr en á að vera. Félmrn. er í þessum eftirlitsþætti gert skylt að fylgjast með fjárreiðum sveitarfélaga. Þau eiga að senda inn ársreikninga, fjárhagsáætlanir og þriggja ára áætlanir en það er afar slælega fylgst með þessu að mínu viti. Ég hef satt að segja ekki orðið var við það að ráðuneytið hefði uppi einhver samræmd viðbrögð eða athuganir á þeim gögnum sem þeim eiga að berast til þess að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga.

[11:45]

Í öðru lagi þá eiga sveitarstjórnir að uppfylla ákveðin skilyrði laganna um upplýsingaskyldu til íbúanna. Þessu er ákaflega slælega framfylgt svo ekki sé meira sagt. Enn tíðkast það víða um land að hreppsnefndir eru að halda fundi án þess að þeir séu auglýstir eins og áskilið er í lögum. Dagskrá er ekki kynnt og fundir jafnvel haldnir í heimahúsum. Almenningur á þess hvorki kost að vita af fundinum né mæta á hann, þótt menn vissu af honum. Auðvitað á ráðuneytið að hafa forgöngu um að fá sveitarstjórnarmenn til þess að tileinka sér það viðhorf sem er í núgildandi sveitarstjórnarlögum. Sem dæmi um algerlega fráleit viðhorf, sem eru í gangi í fullri alvöru á sveitarstjórnarstiginu, get ég nefnt að sveitarstjórnarmaður í nokkuð stóru sveitarfélagi liggur undir ámæli fyrir að rjúfa trúnað, fyrir það eitt að afhenda fundargerð bæjarráðs íbúa í sínu sveitarfélagi. En eins og menn vita, þá eru fundargerðir ráða og nefnda opinber skjöl sem allir íbúar eiga aðgang að jafnskjótt og fundi er lokið. Enn eru því uppi forneskjuleg viðhorf í þessu efni og ráðuneytið á auðvitað að gera gangskör að því að útrýma þeim sem allra fyrst. Togstreita af þessu tagi, þegar menn þurfa að standa í deilum um sjálfsögð réttindi og upplýsingar til íbúa, greiðir auðvitað ekki fyrir störfum sveitarstjórna. Því betur sem fólk er upplýst um þessi efni, því greiðar ættu störfin að ganga.

Mér virðist líka að íbúarnir í sveitarfélögunum séu afar lítið meðvitaðir um rétt sinn gagnvart stjórnvaldi sínu. Fundarsókn er ákaflega lítil og íbúar virðast yfirleitt vita lítið um það sem fram fer. Þessu þarf að breyta. Það er auðvitað óviðunandi að slíkt áhugaleysi ríki um þessi mál. Ég held satt að segja að þarna sé ekki um áhugaleysi fólksins gagnvart þessum málum að ræða, heldur hitt að það fær ekki að vita hvað er um að vera. Það vantar að koma upplýsingum á framfæri um störf sveitarstjórnanna. Ég hygg að það verði að gera verulegt átak í þessum efnum.

Þá vil ég líka taka undir annað atriði sem fram kemur í skýrslu umboðsmanns og mér finnst satt að segja orðið býsna alvarlegt. Það er sú ríka tilhneiging að fara ekki að lögum um gjaldtöku og skattheimtu. Það er orðið ansi mikið um það að sveitafélög fari ekki fullkomlega að lögum þegar ákveðin eru gjöld á þegna sveitarfélagsins. Ég hef nokkrum sinnum áður vakið atygli á því héðan úr þessum ræðustóli að lögum um vatnsgjald er ekki framfylgt sem skyldi. Sveitarfélög fara ekki að þeim lögum og félmrn., sem á að hafa eftirlit með sveitarfélögunum, aðhefst ekkert í því skyni að fá þau til að fara að þeim lögum.

Ég minni á svar við fyrirspurn sem ég bar fram á þingi á síðasta kjörtímabili þar sem fram kom að um 25 kaupstaðir innheimtu í vatnsgjald á árinu 1993 u.þ.b. 250 millj. kr. meira en þeim var heimilt að innheimta samkvæmt lögunum. Lög um vatnsgjöld voru sett í desember 1991 og leystu af hólmi lög um vatnsskatt og það er verulegur munur að leggja niður skatt og taka upp gjald. Gjald er einungis heimilt að innheimta til að mæta tilteknum kostnaði, sem er skilgreindur í lögunum. Óheimilt er að innheimta árlega meira gjald en nemur þeim kostnaði sem gjaldið á að standa undir.

Sveitarstjórnir hafa í raun haldið áfram að innheimta sinn vatnsskatt óbreyttan, sem áður var almennur skattur, almenningsútsvar. Þrátt fyrir nýju lögin hefur framkvæmdin verið óbreytt. Meira að segja er þetta stundum enn kallað vatnsskattur, þótt hann sé ekki lengur til. Þarna finnst mér að yfirstjórn sveitarstjórnarmála hafi fullkomlega brugðist í að kynna þessi nýju lög og fylgja því eftir að sveitarstjórnir virtu þau. En það leysir sveitarstjórnir þó ekki undan þeirri skyldu sinni að framfylgja lögum. Auðvitað á þeim að vera ljóst hvernig lögin eru og þær eiga að fara eftir þeim.

Ég nefndi þetta síðast fyrr á þessu þingi í umræðunum um nýtt frv. um gatnagerðargjald, sem er auðvitað af sama toga, og svar hæstv. félmrh. var einfaldlega það að sveitarfélögin væru blönk, þau vantaði meiri peninga til þess að standa undir almennum rekstri sínum. Það kann út af fyrir sig að vera rétt. En það breytir því ekki að ef sveitarfélög skortir tekjur til að standa undir almennum útgjöldum, þá eiga þau að sækja þær tekjur eftir lögum í almenna skatta. Það er engin afsökun fyrir því að menn megi þá brjóta lög varðandi vatnsgjald og innheimta meira. Með sömu rökum og félmrh. notaði gætu sveitarfélögin bara hækkað útsvarið úr 9% upp í 12%, sem er auðvitað brot á lögum, og sagt sem svo: ,,Við rökstyðjum það með því að það vantar peninga í sveitarsjóð.`` Það er auðvitað ekki boðlegt að á Alþingi skuli menn þurfa að standa í rökræðum um það við yfirmann málaflokks, félmrh. í þessu tilviki, að það eigi að fara að lögum og ráðherrarnir séu að verja það að það sé ekki farið að lögum. Þetta er algerlega óviðunandi ástand. Telji menn lögin ófullnægjandi, á að leggja fram frv. til að bæta þar úr. En það á ekki að brjóta lögin og verja það að þau séu brotin.

Virðulegi forseti. Ég tek undir málflutning sem fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis hvað þessi atriði varðar og nota tækifærið til þess að minna á þessi tvö atriði sem ég hef áður gert að umfjöllunarefni við sama tækifæri á síðasta þingi.