Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:59:41 (1243)

1995-11-23 11:59:41# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:59]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. þingmönnum fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og jafnframt þær ábendingar sem hafa komið fram. Í sjálfu sér sé ég ekki ástæðu til þess að ræða skýrsluna frekar efnislega, en vildi þó fá að benda á atriði sem fram komu áðan í umræðum, annars vegar frá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur um fjölgun mála og hins vegar frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Það var haft á orði að stjórnsýslulögin hafi kallað á fjölgun mála. Ég man ekki eftir að það hafi komið fram í nefndinni enda var gildistaka laganna 1. jan. 1994. Ég sagði einmitt í framsögu minni: Málafjöldi jókst verulega milli áranna 1993 og 1994 en umboðsmaður upplýst nefndina um að málafjöldi í ár væri svipaður og á sama tíma í fyrra. Það gefur von um að ákveðið jafnvægi sé að myndast í þessum efnum.

Umboðsmaður lýsti því einmitt yfir að hann væri mjög ánægður með setningu stjórnsýslulaganna og að þau hefðu komið að mjög miklu gagni, hafi sett stjórnsýsluna í fastari skorður. Mér þykir rétt að rifja upp nokkrar af þeim reglum sem voru lögfestar í þessum lögum. Með leyfi virðulegs forseta vil ég benda á leiðbeiningarskyldu, málshraða, rannsóknarreglu, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, andmælarétt o.s.frv. þannig að ég held að ekki sé spurning að setning stjórnsýslulaganna hafi einmitt komið að mjög miklu gagni. Ég held reyndar að hv. þm. hafi alls ekki verið að draga úr því atriði.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hafði orð á því að verksvið umboðsmanns væri alveg skýrt og honum bæri alls ekki að gefa þinginu umsagnir um frumvörp. Auðvitað er það alveg skýrt. En þessi fyrirspurn kom m.a. fram í kjölfarið á því að verið var að ræða um umboðsmann barna og það embætti hefði sent umsögn vegna frv. Ég sé hins vegar ekki annað en það sé sjálfsagt mál að greina frá umræðum í nefndinni á eins nákvæman hátt og hægt er. Ég vil þó nota tækifærið að gefnu tilefni til þess að fullvissa hv. þm. um að nefndarmönnum í allshn. er auðvitað fullkunnugt um þrígreiningu ríkisvaldsins og að umboðsmanni ber fyrst og fremst að gæta réttar einstaklinganna gagnvart stjórnvöldum. Til þess að forða frekari misskilningi tel ég rétt að benda á 2. gr. laganna um umboðsmann Alþingis og með leyfi virðulegs forseta les ég hana upp:

,,Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.``

Virðulegi forseti. Að lokum ítreka ég þakklæti mitt til hv. þm. fyrir umræðurnar.