Mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 12:09:01 (1246)

1995-11-23 12:09:01# 120. lþ. 40.5 fundur 31. mál: #A mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[12:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil sem 1. flm. þeirrar þáltill. sem er til afgreiðslu færa hv. utanrmn. þakkir fyrir umfjöllun hennar um málið og þá tillögu sem hún leggur til. Ég get prýðilega sætt mig við þær orðalagsbreytingar sem hér eru á ferðinni enda kom það skýrt fram í bæði framsöguræðu minni og allri umfjöllun um málið að tillöguna ber ekki að skoða á nokkurn hátt sem gagnrýni á frammistöðu íslenskra stjórnvalda hingað til. Þvert á móti er það svo og ánægjulegt að um þetta hefur ríkt ágæt samstaða. Það sem hér er á ferðinni er fyrst og fremst að Alþingi taki fyrir sitt leyti af allan vafa um stuðning sinn við þau mótmæli og vilja sinn til að þeim verði haldið áfram sem sett hafa verið fram. Þetta hefur verið málsmeðferðin á mjög mörgum þjóðþingum í kringum okkur að til viðbótar afstöðu ríkisstjórna hafa þjóðþingin sjálf samþykkt sérstakar ályktanir þar sem framgöngu Frakka og einnig Kínverja eftir atvikum er mótmælt. Það er ánægjulegt að um mál af þessu tagi skuli ríkja alger samstaða á Alþingi.

Herra forseti. Hitt er óhjákvæmilegt að nefna í þessu sambandi að áframhaldandi ögranir Frakka vekja auðvitað vonbrigði og undrun því það virðist vera nær sama eða algerlega sama hvaða fordæmingu þeirra framganga hlýtur um gjörvalla heimsbyggðina þar með talið yfirgnæfandi stuðning á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna við fordæmingu á framgöngu þeirra. Þeir halda sínu striki eftir sem áður og hafa í enn eitt skiptið sprengt tilraunasprengju í Kyrrahafinu.

Einnig er athyglisvert að viðbrögð þeirra við mótmælum til að mynda margra hverra bandalagsþjóða þeirra í Evrópu eru fyrst og fremst þau að beita þá þvingunum af ýmsu tagi, stjórnmálalegs eðlis eða jafnvel af öðrum toga á móti. Af slíkri óbilgirni og hörku hyggjast Frakkar greinilega verja kjarnorkuvígbúnaðarstefnu sína.

Í því sambandi er einnig ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af framhaldi viðræðnanna um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Það er jafnvel orðrómur uppi um að Bandaríkjamenn muni freistast til þess að taka upp tilraunir og Kínverjar hafa sprengt nokkrar sprengjur. Er það auðvitað mikið áhyggjuefni ef stór hluti kjarnorkuveldanna stendur fyrir kjarnorkutilraunum einmitt á þessum viðkvæma tíma sem nú er uppi í þessum viðræðum.

Að síðustu vil ég nefna að það er líka rétt að halda til haga þeim upplýsingum sem hafa verið að koma fram eða leka út öllu heldur á síðustu vikum um að skaðsemi neðanjarðarkjarnorkusprenginga Frakka á Muroroa-rifi og annars staðar í Kyrrahafinu sé til muna meiri heldur en hingað til hefur verið talið. Það hafa lekið út upplýsingar um það að hjá franska hernum liggi fyrir skýrslur um miklu meira tjón á lífríkinu á þessum slóðum heldur látið hefur verið uppi. Þeim sé haldið leyndum af pólitískum ástæðum meðan þessar tilraunir fara fram og bætist þá auðvitað við hneykslanleg framganga þeirra að þessu leyti þar sem á undan er gengið í formi þessara sprenginga og ögrana við þau ríki sem þarna búa.

Auðvitað vonar maður að þar sem sagt er í orði kveðnu af hálfu Frakka og fleiri að þeir muni þegar kemur að undirritun samningsins um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn að sjálfsögðu láta af slíkum tilraunum og jafnframt staðfesta Rarotonga-samninginn um kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafsins. Framganga þeirra um þessar mundir vekur hins vegar ekki mikla bjartsýni um að þetta gangi eftir og takist. Satt best að segja skilur maður ekki tilganginn með því að standa fyrir þessum tilraunum og baka sér þessar óvinsældir um alla heimsbyggðina ef eftir sem áður stendur til að fullgilda eða undirrita samning um endanlegt bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og fallast á kjarnorkufriðlýsingu þessa svæðis sem nú er undirlagt af tilraunum Frakka. Það er ánægjuefni að á Alþingi Íslendinga ríkir eindregin samstaða um að mótmæla þessari framgöngu og fordæma hana og ég fagna því og styð þá tillögu sem hér er flutt um breytingu á þskj. 222 í nál. hv. utanrmn.