Mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 12:15:10 (1248)

1995-11-23 12:15:10# 120. lþ. 40.5 fundur 31. mál: #A mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[12:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ríkisstjórn mótar pólitíska stefnu og ráðherrar koma henni á framfæri, hvort heldur er í formi mótmæla eða einhverra aðgerða, gera þau það væntanlega í nafni þess meiri hluta sem styður viðkomandi ríkisstjórn nema annað liggi fyrir. Að því leyti er ástæða til þegar um stefnumótandi mál af þessu tagi er að ræða að fyrir liggi jafnframt ótvírætt að allur þingheimur standi einhuga að baki slíkri stefnu en það sé ekki eingöngu gert í krafti þess meiri hluta sem ríkisstjórn sækir umboð sitt til á hverjum tíma. Að vísu er ekki ástæða til að ætla annað en að þetta sé í góðu lagi hvað þetta mál snertir en það er ekki sjálfgefið að ríkisstjórn tali fyrir hönd þingmanna allra með framgöngu sinni og í tilvikum sem þessum getur verið fullkomin ástæða til að það liggi ótvírætt fyrir að um þetta sé þverpólitísk samstaða. Jafnframt getur verið ástæða til þess að Alþingi sem stofnun hafi sína sjálfstæðu rödd þó hún fari saman við það sem áður hefur komið fram af hálfu stjórnvalda eða ríkisstjórna.