Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 13:37:57 (1252)

1995-11-23 13:37:57# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[13:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd., um álbræðslu við Straumsvík, sem er á þskj. 213 og er 171. mál þingsins. Nánar tiltekið er lagt til að lögfestur verði fimmti viðauki við aðalsamning aðila. Samninginn undirritaði ég 16. nóv. 1995 fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með fyrirvara um staðfestingu Alþingis sem hluta af heildarsamningnum um stækkunina.

Meginatriði þeirra heildarsamninga eru:

Í fyrsta lagi hefur náðst samkomulag um að stækka álbræðslu Ísals. Nauðsynleg aðstaða vegna stækkunar er umsamin. Í samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ er samið um byggingu og rekstur nýrrar hafnaraðstöðu vegna stækkunarinnar, tækniaðstoð vegna stækkunarinnar og áframhaldandi rekstur er tryggður með sérstökum samningi milli Ísals og Alusuisse. Starfsleyfi fyrir rekstri stækkaðs álvers þ.e. allt að 200.000 tonna framleiðslugetu hafði verið útgefið 7. þessa mánaðar í samræmi við mengunarvarnareglugerð og lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Í öðru lagi er samið um að laga nokkur ákvæði aðalsamnings um álbræðslu að breytingum á íslenskum lögum og viðskiptaumhverfi, m.a. vegna aðildar Íslands að EES. Um er að ræða breytingar á starfsheimildum, forgangsréttarákvæðum, fjárhæð hlutafjár, reglum um sölu hlutabréfa í Ísal auk ákvæða um samningstíma og starfsréttindi við lok aðalsamnings.

Í þriðja lagi er samið um breytingar á ákvæðum rafmagnssamnings Landsvirkjunar og Ísals, um viðbótarorkusölu, um verðlag á raforku til stækkunar álbræðslunnar og aðrar tengdar breytingar. Viðaukinn við raforkusamninginn hefur hlotið fullnaðarafgreiðslu í stjórn Landsvirkjunar.

Í fjórða lagi er samið um tiltekna aðlögun skattareglna Ísals að gildandi skattareglum hér á landi, m.a. varðandi skattþrep, álagningu lágmarksgjalds, varasjóðstillag og rétt til að færa tap milli ára. Í tengslum við breytingar á skattlagningu er samið um framtíðarhlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldi og tengd atriði.

Herra forseti. Áður en vikið er að hverjum þessara meginþátta vil ég stuttlega rifja upp aðdraganda málsins.

Á liðnum árum hafa allmargir kostir varðandi aukna álframleiðslu við Straumsvík verið til athugunar án þess að þær athuganir hafi leitt til niðurstöðu. Þessar athuganir komust á nýtt stig í byrjun árs 1995 þegar Alusuisse-Lonza lýsti yfir vilja til að kanna með íslenskum stjórnvöldum hagkvæmni þess að auka álframleiðslu í Straumsvík. Niðurstaða sameiginlegra athugana varð sú að stækkun Ísals með þeim meginkostum um tækni sem kannaðir voru væru mjög hagstæðir. Stækkunin bætti nýtingu, aðstöðu og mannvirki sem fyrir væru. Alusuisse ákvað að halda áfram undirbúningi á þeim grundvelli að Ísal yrði stækkað og félagið stæði eitt að stækkuninni.

Í maí sl. hófust síðan formlegar viðræður milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarbæjar annars vegar og Alusuisse og Ísals hins vegar um stækkun álversins í Straumsvík. Niðurstaða viðræðna aðila lá fyrir í aðalatriðum um miðjan október sl. og fjallaði ríkisstjórnin um þá meginniðurstöðu á fundi 20. okt. 1995. Í kjölfar umfjöllunar í ríkisstjórn og stjórn Alusuisse-Lonza átti ég fund með aðalforstjóra og framkvæmdastjóra áldeildar Alusuisse-Lonza Holding Ltd. í Reykjavík 7. nóv. 1995. Á fundinum var undirritað sameiginleg yfirlýsing til að staðfesta annars vegar ákvörðun stjórnar Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um að heimila Ísal að fjárfesta í nýjum 62.000 árstonna kerskála við Straumsvík og hins vegar ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að staðfesta fimmta viðauka við aðalsamning um álbræðslu í Straumsvík.

Í yfirlýsingunni var staðfest að umhvrh. hefði gefið út starfsleyfi fyrir stækkun Ísals 7. þessa mánaðar. Fyrirtækinu var því heimilt að hefja þegar nauðsynlegar undirbúningsframkvæmdir við stækkunina. Samkvæmt samkomulagi í samningum þeim um stækkun Ísals, sem undirritaðir voru á undirskriftafundi í Reykjavík 16. nóv. 1995, er stefnt að því að nýi kerskálinn og önnur tengd aðstaða verði fullbyggð innan 24 mánaða og að rekstur kerskálans hefjist á síðasta ársfjórðungi ársins 1997.

Uppbygging samninga um álbræðslu við Straumsvík frá 1966 hefur verið eftirfarandi:

Í fyrsta lagi var í aðalsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse, sem hefur lagagildi hér á landi, kveðið á um starfsréttindi Ísals, byggingu og rekstur álbræðslunnar, fyrirheit og ábyrgðir af hálfu ríkisstjórnarinnar og Alusuisse, skipulag Ísals, skattamál, meðferð fjárfestingar, lausn deilumála, lagalega stöðu samninga og samningstímabil.

Í öðru lagi voru síðan á grundvelli aðalsamnings gerðir samningar milli Landsvirkjunar og Ísals um orkusölu og milli Hafnarfjarðarbæjar og Ísals um lóðar- og hafnarmál.

Loks voru á grundvelli aðalsamnings gerðir samningar milli Alusuisse og Ísals um sölu á afurðum, öflun hráefna, tæknilega og rekstrarlega aðstoð, auk samnings um hönnun og byggingu álbræðslunnar. Aðalsamningnum hefur áður verið breytt með fjórum viðaukum og hefur þeim verið veitt lagagildi hér á landi í samræmi við ákvæði staðfestingar laganna frá 1966. Hér er lögð til sambærileg málsmeðferð og að ákvæðum fimmta viðauka verði veitt lagagildi hér á landi.

Við umfjöllun um frv. tel ég nauðsynlegt að greina á milli efnisatriði sem eru til staðfestingar Alþingis annars vegar og annarra ákvarðana vegna stækkunarinnar hins vegar sem þegar eru teknar samkvæmt lögum og krefjast ekki frekar lagalegrar staðfestingar. Staðfestingar er leitað á eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi er leitað staðfestingar á umsömdum breytingum á aðalsamningi en meginatriði þeirra verða breytingar á skattareglum, víðtækari starfsheimildir Ísals og framlenging samningstímabils.

Í öðru lagi að staðfesta að skuldbindingar Hafnarfjarðarbæjar í samkomulagi um hafnaraðstöðu verði efndar. Efndir bæjarins á að nýr viðlegukantur verði tilbúinn til notkunar eigi síðar en í árslok 1997 séu jafngildar og þær væru skuldbindingar samkvæmt hafnarsamningi frá 1966.

Í þriðja lagi að veita heimild til að semja við Hafnarfjarðarbæ um skiptingu framleiðslugjaldstekna af Ísal. Fyrir liggja ákvarðanir um eftirgreint: Í fyrsta lagi hefur fjórði viðauki rafmagnssamnings verið afgreiddur af stjórn Landsvirkjunar og er sá þáttur málsins ekki lengur til efnislegrar samþykktar eða synjunar af hálfu Alþingis. Í öðru lagi hefur starfsleyfi verið gefið út samkvæmt mengunarvarnareglugerð. Ég mun því víkja að þessum atriðum síðar í máli mínu. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að afmarka þau efnisatriði sem Alþingi fjallar beint um.

Herra forseti. Samningar um stækkun Ísals eru mikilvægustu samningar sem gerðir hafa verið um erlenda fjárfestingu hér á landi frá því að aðalsamningur um álbræðslu í Straumsvík var undirritaður 1966. Framleiðslugeta álbræðslunnar er með samningnum nú aukin um 62.000 tonn af áli á ári og það er sama og framleiðslugeta álversins var í upphafi. Með samningnum er náð mikilvægum áfanga í frekari uppbyggingu iðnaðar hér á landi og í nýtingu orkuauðlindarinnar til atvinnusköpunar. Á liðnum tveimur áratugum hefur erlend fjárfesting verið lítil hér á landi samanborið við nágrannaríkin. Á þessu tímabili hefur erlend fjárfesting hér á landi verið um 0,1% af landsframleiðslu. Til samanburðar má nefna að erlend fjárfesting á Norðurlöndunum var á sama tímabili 0,7--0,9% af landsframleiðslu en nokkru hærri í ýmsum Evrópuríkjum eða á bilinu 2--3%. Fjárfesting í um 60.000 árstonna stækkun Ísals þýðir að erlend fjárfesting hér á landi verði um 0,7% af landsframleiðslu næstu árin og yrði sambærileg því sem gerist í nágrannaríkjunum. Með samningnum er því stigið mjög mikilvægt skref í aukningu erlendrar fjárfestingar hér á landi. Ýmislegt bendir til þess að áhugi erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi sé að aukast. Bæði er þar um að nýja aðila að ræða svo sem Colombia Aluminium og Atlantsálaðilana en einnig er verið að vinna að lokaathugun á hagkvæmni þess að stækka Járnblendiverksmiðjuna.

Mikilvægt er að vel takist til í þessum efnum og að kynning möguleika á að fjárfesta í orkufrekum iðnaði hér á landi sé rétt. Hún byggist á því mati að þar sé samkeppnisstaða Íslands best. Fyrirtæki í þessari grein eru yfirleitt stór á íslenskan mælikvarða, skapa mörg störf og þjóðhagsleg áhrif einstakra fjárfestinga eru mjög mikil.

Víðtæk samstaða er um gildi erlendra fjárfestingar hér á landi. Meginmarkmið með aukinni erlendri fjárfestingu er augljós en rétt er að rifja stuttlega upp þau helstu. Í fyrsta lagi er markmiðið að styrkja eiginfjárstöðu íslensks atvinnulífs en eiginfjárstaða íslenskra fyrirtækja er að meðaltali lægri en í nágrannaríkjunum. Í öðru lagi að skapa ný störf. Í þriðja lagi að afla hlutafjár, þ.e. áhættufjár í atvinnuuppbyggingu í stað erlendra lána. Í fjórða lagi er mikilvægt markmið að flytja með fjármagni til landsins erlenda sérþekkingu, bæði stjórnunarlega og tæknilega. Í fimmta lagi má nefna að erlend þátttaka tryggir oft beinan aðgang að mörkuðum sem erlendur hluthafi ræður þegar yfir en slíkur aðgangur tryggir best fjárhagslegan grundvöll nýrra fjárfestinga.

Þegar fjallað er um erlenda fjárfestingu er rétt að hafa í huga að átak varðandi erlenda fjárfestingu er aðeins einn þáttur í aðgerðum til að styðja við nýsköpun í atvinnulífinu. Mikilvægust þeirra aðgerða er að örva nýsköpun innan starfandi fyrirtækja og styðja við innlenda frumkvöðla og smærri atvinnurekstur. Unnið er ötullega að þeim málum á vegum ríkisstjórnarinnar, m.a. með sérstöku átaki til atvinnusköpunar á vegum iðnaðarráðuneytisins sem kynnt verður fjótlega. Ný erlend fjárfesting kemur því til viðbótar og styrkir í raun aðrar aðgerðir til nýsköpunar.

Stækkun Ísals er þjóðhagslega mjög mikilvæg. Stækkun álversins skapar 90 varanleg störf. Margfeldnisáhrifin leiða til þess að um 300 ný störf skapast. Velta stækkaðs álvers eykst um rúmlega 6 milljarða kr. og miðað við spár til lengri tíma um verð á áli gæti útflutningur áls orðið yfir 16 milljarðar á ári. Fjárfesting eykst um 7,5 milljarða kr. árið 1996 og 9 milljarða kr. árið 1997 miðað við núverandi áætlanir eða um 10--11% frá því sem orðið hefði að óbreyttum horfum. Þar af eru alls tæplega 14 milljarðar kr. vegna stækkunar álversins og hafnaraðstöðu en um 3 milljarðar vegna fjárfestingar í raforkumannvirkjum. Rúmlega þriðjungur þessarar eftirspurnar eða sem svarar til 0,6--0,7% af landsframleiðslu hvort ár fer til innlendra aðila. Ársverk vegna framkvæmdanna verða alls um 750 sem bætir 2--3% við ársverk í byggingarstarfsemi árið 1996--1997 þar sem framleiðsluþættir hafa verið vannýttir að undanförnu. Tímasetning framkvæmdanna er því hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Skal nú vikið að efni frv. og meginatriðum fimmta viðaukans. Þær breytingar sem samið er um eru þessar helstar:

Samkomulag er um að laga skattareglur Ísals að þeim breytingum á íslenskum skattalögum sem tekið hafa gildi frá því aðalsamningur var endurskoðaður árið 1985. Jafnframt er samkomulag um að hluti af þeirri aðlögun komi til framkvæmda vegna yfirstandandi tekjuárs. Aðrir þættir koma til framkvæmda í áföngum á árunum 1997, 1998 og 2004. Þannig er samið um að gildandi skattprósenta Ísals sem er stighækkandi á bilinu 35--55% verði aðlöguð gildandi skatthlutfalli og að tekjuskattsprósenta Ísals verði frá og með tekjuárinu 1995 jafnhá og nú er hjá íslenskum hlutafélögum eða 33%. Fyrirtækið mun þó ekki hafa heimild til þess að greiða út skattfrjálst arð allt að 10% af nafnverði hlutafjár svo sem er um íslensk hlutafélög. Jafnframt þessu er samið um að réttur Ísals til að leggja 20% í varasjóð falli niður í árslok 1996 en félagið fái frá 1. jan. 1997 rétt til að færa tap milli ára í allt að fimm ár svo sem er hjá íslenskum hlutafélögum. Félagið fær aðeins rétt til að yfirfæra tap sem kynni að myndast frá og með árinu 1997 en ekki tap vegna fyrri ára.

Þá er samkomulag um að fastagjald Ísals verði eftir stækkun lækkað úr 20 dollurum á framleitt tonn í 10 dollara á tonn. Komi sú breyting til framkvæmda í upphafi fyrsta heila rekstrarárs stækkaðs álvers eða frá 1. jan. 1998. Samkomulag er um að tilhögun á greiðslu gjaldsins verði óbreytt til ársloka 2004, frá 1. jan. 2005 er samið um að gjaldið verði aðeins frádráttarbært frá tekjum svo sem er um fasteignagjöld og gjöld sem nú leggjast á veltu hlutafélaga en ekki frádráttarbær frá tekjuskattsgreiðslum eins og nú er. Skatttekjur á Íslenska álfélaginu hf. eru aðallega þríþættar.

Í fyrsta lagi gjöld sem leggjast á launagreiðslur og Ísal greiðir samkvæmt ákvæðum aðalsamningsins. Þær greiðslur eru sambærilegar því sem íslensk fyrirtæki greiða almennt og munu skatttekjur þessar aukast í réttu hlutfalli við fjölgun starfa.

Í öðru lagi lágmarksframleiðslugjald sem lagt er á sem fast gjald í Bandaríkjadollurum á hvert framleitt og útskipað tonn af áli frá Ísal. Þetta gjald er mjög hliðstætt því sem innlend fyrirtæki greiða í fasteignagjöld og þau smærri gjöld sem leggjast á veltu fyrirtækja nú.

Í þriðja lagi tekjutengt framleiðslugjald sem lagt er á sem ákveðinn hundraðshluta af nettóhagnaði hvers árs. Samkvæmt áætlunum, sem gerðar hafa verið um rekstur Ísals eftir stækkun, mun beinn framleiðslukostnaður í stækkun álversins verða allnokkru lægri en í núverandi álveri. Afkoman mun því batna og skattgreiðslur líklega aukast verulega. Með hliðsjón af því að mestur hluti fjárfestingarinnar, um ¾ hlutar, eru tæki og vélar sem afskrifast á fyrstu sjö rekstrarárum stækkunarinnar koma jákvæð áhrif stækkunarinnar á reiknaða afkomu, þó fyrst og fremst til eftir sjöunda heila starfsár nýja kerskálans. Eftir það verður afkoma stækkaðs álvers betri og líkur á mun hærri tekjuskattsgreiðslum en af rekstri Ísals í óbreyttri mynd.

Miðað við álverð á bilinu 1.600--1.700 Bandaríkjadali á tonn gætu tekjuskattsgreiðslur eftir árið 2004 orðið á bilinu 1,3--2 milljarðar kr. Til þess tíma yrðu tekjuskattsgreiðslur nokkuð lægri miðað við sama álverð. Áætlanir sýna að skattbyrði Ísals verður sambærileg og skattbyrðin hefði orðið ef félagið hefði verið skattlagt samkvæmt íslenskum skattareglum. Samhliða breytingum á skattlagningu Ísals hefur tekist samkomulag við Hafnarfjarðarbæ um hlutdeild bæjarins í framleiðslugjaldi Ísals. Samkomulagið er fylgiskjal með frv. Með samkomulaginu hefur náðst sátt milli ríkisins og bæjarins um hlutdeild hans í tekjum af þessu stærsta iðnfyrirtæki í Hafnarfirði. En hlutdeild bæjarnins hefur verið tilefni deilna milli aðila á liðnum árum. Framtíðarhlutdeild bæjarins í lágmarksframleiðslugjaldi tryggir bænum sambærilegar tekjur og ef Ísal hefði greitt fasteignagjald álagt sem 0,75% gjald af gildandi fasteignamati.

Auk skattamála eru aðrar breytingar á aðalsamningi milli aðila þessar helstar:

Ákvæði aðalsamnings um framleiðsluafköst álbræðslunnar eru einfölduð þannig að fjárhagslegar og tæknilegar rekstrarforsendur ráði framleiðsluafköstum á hverjum tíma. Ákvæðum aðalsamnings, sem takmarkar starfsréttindi Ísals, er breytt þannig að starfsréttindi Ísals verða hér eftir háð ákvæðum laga um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi eins og þau eru á hverjum tíma.

Í ljósi breyttra rekstrarforsendna og ákvæða laga hér á landi eru ákvæði aðalsamnings um lágmarksrekstrarfé á Íslandi felld niður. Ákvæði aðalsamnings um lágmarkshlutfall hlutafjár af bókfærðu verði fastafjármuna er fellt niður. Þess í stað er vísað til ákvæða hlutafélagalaga um lágmarkshlutafé og skilyrði til hlutafjárlækkunar. Ákvæði aðalsamnings um rétt til að selja hlutabréf í Ísal eru rýmkuð þannig að heimildin takmarkist ekki við 50% af heildarhlutafé eins og nú er. Formlegt samþykki ríkisstjórnarinnar er áskilið en það skal að jafnaði veita ef um er að ræða traust fyrirtæki innan OECD-ríkjanna. Ákvæðum aðalsamnings um forgangsrétt starfsliðs og verktaka til vinnu og íslenskra verktaka til verktöku er breytt og skýrð í ljósi aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Í tengslum við stækkun álversins er jafnframt samið um framlengingu aðalsamnings og fylgisamninga um 10 ár, þ.e. til 1. okt. árið 2014. Þá er samið um viðbótarrétt til framlengingar aðalsamnings um önnur 10 ár frá 1. okt. árið 2014 en þá ætti aðalsamningurinn í síðasta lagi að renna út samkvæmt gildandi ákvæðum. Samið er um starfsréttindi Ísals að loknum umsömdum samningstíma aðalsamnings en félagið verður eftir það alfarið háð íslenskum lögum.

Kveðið er skýrt á um hvað verði um eignir Ísals í lok starfsemi félagsins. Eðlilegt þykir að leggja þá kvöð á Ísal að eignir verði fjarlægðar ef starfsemi álbræðslunnar verður hætt og svæðið rýmt þannig að aðstöðuna megi nýta til nýrrar framleiðslu eða annarrar starfsemi.

[13:45]

[14:00]

Herra forseti. Ég hef nú rakið efni frv. og fjallað í stuttu máli um fyrirhugaða stækkun. Ég mun ekki fjölyrða frekar um einstök efnisatriði. Að lokum vil ég fara nokkrum orðum um tvo mikilvæga þætti málsins.

Í fyrsta lagi varðandi umhverfisstarfsleyfi. Í tengslum við stækkunina er ekki gerð tillaga um breytingu á meginákvæðum aðalsamnings um mengunarmál. Ákvæðin sem eru í 12. gr. aðalsamnings leggja á Ísal þá skuldbindingu að gera ráðstafanir til að draga úr mengun í samræmi við góðar venjur í iðnaði og í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Þrátt fyrir þessi ótvíræðu ákvæði þótti eðlilegt að fyrirtækið mundi sækja um umhverfisstarfsleyfi samkvæmt lögum. Félagið lagði inn umsókn sem fékk venjubundna meðferð að lögum. Starfsleyfi var síðan gefið út 7. þessa mánaðar í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, með áorðnum breytingum, sem sett er samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með áorðnum breytingum. Starfsleyfið uppfyllir þau skilyrði sem þar eru sett. Starfsleyfið verður birt í B-deild Stjórnartíðinda. Starfsleyfið og málið í heild hefur nú fengið lögmæta og eðlilega fullnaðarafgreiðslu þar til bærra stjórnvalda að lögum.

Við umfjöllun um starfsleyfi vegna stækkunar er rétt að minna á að ál hefur verið framleitt í rúman aldarfjórðung á Íslandi. Mengun frá framleiðslunni var nokkuð lengi framan af, en engin minnstu óþægindi hafa orðið af því frá upphafi. Mikilvægt er að hafa þetta í huga með tilliti til þess að magn af flúoríðum og ryki sem fer væntanlega út í umhverfið eftir stækkun verður minna en fór út í andrúmsloftið öll árin fyrir 1992. Útblástur brennisteinstvíoxíðs mun allt að því tvöfaldast. Brennisteinstvíoxíðsmengun hefur hins vegar ekki verið vandamál á Íslandi og ekkert bendir til þess að hún verði það þrátt fyrir þá aukningu sem hér er gert ráð fyrir.

Nýi kerskálinn verður byggður í samræmi við þá tækni sem nú er notuð í eldri kerskálum. Þetta þýðir að mengun upp um kerskálaþakið verður sambærileg við það sem er í eldri skálum. Ný þurrhreinsistöð verður byggð eftir bestu tækni og mun skila mun betri heinsun á flúoríðum en eldri hreinsunarstöðvar. Losun flóríða í andrúmsloftið frá viðbótarframleiðslunni verður því mun minni en frá núverandi framleiðslu.

Í öðru lagi varðandi orkusölusamning. Útreikningar Landsvirkjunar staðfesta að núvirtur hagnaður af fjórða viðaukanum við rafmagnssamninginn verður um 8 milljarðar kr. miðað við grundvallarforsendur og um 80% líkur eru á því að arðsemi af nauðsynlegum fjárfestingum Landsvirkjunar vegna viðaukans verði 15% eða meira og nánast engar líkur á því að fjárfestingin skili minni arði en 5,5%. Samkvæmt þessu telur Landsvirkjun að samningurinn uppfylli skilyrði 13. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, um að þeir megi ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Að fenginni jákvæðri umsögn Þjóðhagsstofnunar staðfesti ég niðurstöðu Landsvirkjunar og staðfesti samninginn samkvæmt 13. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með sérstöku bréfi til Landsvirkjunar, dags. 15. nóv. 1995. Fjórði viðauki við orkusölusamninginn hefur því hlotið fullnaðarafgreiðslu lögum samkvæmt.

Herra forseti. Ég ítreka þjóðhagslegt mikilvægi þessa máls og vonast eftir að góð samstaða verði um málið. Legg ég til að frv. þessu verði eftir 1. umr. vísað til hv. iðnn. sem mun verða veitt öll nauðsynleg aðstoð og viðbótarupplýsingar til að leggja lokamat á málið.