Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 14:03:21 (1253)

1995-11-23 14:03:21# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[14:03]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Nýlega var sagt frá nýju rækjuskipi sem væri að bætast í flota Íslendinga. (Gripið fram í: Þau eru tvö.) Tveimur, ekki var það nú verra, en þau mundu skapa a.m.k. um 70 manns vinnu í áhöfn og í landi. Örfáum dögum síðar var einnig sagt frá auknum umsvifum Flugleiða í millilandaflugi sem muni innan tíðar skapa um 90 störf í flugþjónustu. Þessar fréttir komu þægilega á óvart, áttu sér engan sérstakan aðdraganda, engar forsýningar að undirskriftum hér heima eða erlendis og engar stjórnskipaðar nefndir unnu að þessum málum. Margt fleira gerist sem betur fer í atvinnulífi landsmanna þótt hljótt fari án þess að efnt sé til flugeldasýninga og án þess að tilefni þyki til hópundirskrifta í fjölmiðlaljósum við dúkuð borð.

Hér erum við hins vegar að fjalla um staðfestingu á samningi sem er nú loks á borðinu eftir mikla vinnu og mikinn fjáraustur úr ríkissjóði, eftir margar atrennur, ferðalög stjórnskipaðra nefnda og fundahöld heima og erlendis árum saman. Við þekkjum þennan feril sem er varðaður yfirlýsingum og jafnvel undirskriftum af mörgu tagi, ekki endilega í tengslum við þetta álver heldur eitthvert annað álver, að ekki sé verið að rifja upp málmblendi eða annað frá enn lengra liðnum árum.

Það er í rauninni með ólíkindum hversu mikið hefur verið haft fyrir þessum áfanga í atvinnusögu landsins sem nú er til umræðu, áfanga sem skapar þó ekki fleiri störf til lengdar en fyrrgreind rækjuskip eða áðurnefnd aukin umsvif Flugleiða í millilandaflugi. Til skamms tíma var sagt að eftir stækkun álversins hefði varanlegum störfum í álverinu fjölgað um 72, en nú hef ég séð í greinargerð með frv. að þau eru talin verða 90. Auk þess eru svo auðvitað margfeldisáhrif, en svo er vissulega einnig með önnur aukin umsvif á öðrum sviðum atvinnulífsins.

Það er ekkert leyndarmál að kvennalistakonur hafa ekki verið sáttar við áherslur stjórnvalda í atvinnumálum og það ofurkapp sem lagt hefur verið á að auka mengandi stóriðju í landinu. Ástæðan er vitanlega umhyggja fyrir náttúru landsins og umhverfi og ekki síst sú ástæða að við erum sannfærðar um það að möguleikar okkar í atvinnusköpun og eflingu atvinnulífsins eru miklu meiri á öðrum sviðum og að stóriðjustefnan gæti beinlínis spillt fyrir þeim möguleikum. Sérstaða okkar Íslendinga felst fyrst og fremst í tiltölulega óspilltu umhverfi sem við ættum raunar að leggja miklu meira á okkur við að bæta og vernda.

Þessi sérstaða gefur okkur margvísleg tækifæri á sviði matvælaframleiðslu og í ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt, og þarf ekki að tala um nokkra tugi starfa heldur störf í þúsunda tali. Það er ólíku saman að jafna hvað stjórnvöld eru tilbúin að leggja á sig til að efla stóriðju í landinu eða t.d. til að stuðla að eflingu ferðaþjónustu.

Í öðru lagi er svo verulega gagnrýnisvert hversu íhaldssamir ráðamenn eru á úrræði og sjá skammt fram á veginn þegar um er að ræða stóriðju og nýtingu vatnsorkunnar sem er sjálfsagt að virkja og nýta á skynsamlegan hátt eftir því sem hægt er. Við kvennalistakonur höfum t.d. ítrekað reynt að vekja athygli þeirra og áhuga á framleiðslu vetnis, en allt bendir til þess að vetni verði eldsneyti framtíðarinnar og ekki er minna um vert að framleiðsla og notkun vetnis veldur ekki umhverfismengun. Íslendingar gætu náð forskoti á því sviði ef áhugi og vilji væri fyrir hendi og einhvern tíma kemur að því að flestir vildu þá Lilju kveðið hafa. En framtíðarsýn af þessu tagi á líklega ekki upp á pallborðið hjá núverandi valdhöfum frekar en hinum fyrri sem við höfum reynt að ýta við, en vel má vera að við gerum frekari tilraun til þess áður en langt um líður. Það verður hins vegar að bíða betri tíma og mun ég nú snúa mér að málefni dagsins í dag eða eigum við að segja atvinnukosti gærdagsins með tilvísun til þess sem ég sagði hér áðan.

Það er þá fyrst til að taka að ég tel stækkun álversins í Straumsvík skásta kostinn af þeim hugmyndum sem til umræðu hafa verið á undanförnum árum. Þessi kostur hefur að mínum dómi minnst umhverfisspjöll í för með sér, þ.e. vegna byggingarframkvæmda og framkvæmda sem nauðsynlegar eru á vegum Landsvirkjunar til þess að tryggja nægilega orku til álframleiðslunnar. Hitt er svo aftur verulega gagnrýni vert að í því starfsleyfi til álversins sem umhvrh. hefur nú þegar gefið út og er margítrekað tekið fram í greinargerð og fylgiskjölum að sé endanlegt eru ekki gerðar ýtrustu kröfur um varnir gegn mengun sem framleiðslan óhjákvæmilega veldur. Þetta er þeim mun furðulegra þar sem forráðamenn álversins í Straumsvík eru yfirlýstir umhverfisverndarsinnar og ættu því ekki að hafa neitt á móti því að uppfylla slíkar kröfur sem væru a.m.k. á svipuðu róli og það besta í nágrannalöndum okkar. Þessi afstaða var alls ekki fyrir hendi fyrr á árum, enda kunnu Íslendingar lítið fyrir sér í umhverfismálum og gerðu litlar sem engar kröfur þegar álverið hóf rekstur sinn á 7. áratugnum og mengun í Straumsvík var gríðarlega mikil mörg fyrstu árin. Á síðari árum hefur hins vegar markvisst verið unnið að því að draga úr mengun og náðst verulegur árangur. En auðvitað hefur framleiðslan alltaf mengun í för með sér, það er óhjákvæmilegt og því er brýnt að halda vöku sinni og slaka hvergi á kröfum.

Skipulag ríkisins kynnti á sl. sumri fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík og mat á umhverfisáhrifum vegna hennar og Hollustuvernd ríkisins kynnti nokkru síðar tillögu sína að starfsleyfi til álversins vegna stækkunarinnar. Þingflokkur Kvennalistans nýtti rétt sinn í báðum tilvikum til að gera athugasemdir eins og nokkrir aðilar aðrir gerðu. Ég ætla með leyfi hæstv. forseta að vitna í athugasemdir Kvennalistans til Hollustuverndar ríkisins þar sem sagði m.a.:

,,Í tillögu að starfsleyfi sem nú liggur fyrir frá Hollustuvernd ríkisins eru hins vegar ekki gerðar jafnítarlegar kröfur um mengunarvarnir og víða annars staðar þar sem sífellt er verið að herða kröfur um mengunarvarnir í samræmi við nútímaviðhorf í umhverfismálum. Sú niðurstaða vekur undrun og vonbrigði þar sem ástæða var til að ætla að öðruvísi yrði staðið að málum. Vísast þar m.a. til yfirlýsingar ráðherra í tengslum við undirbúning undir rekstur álvers á Keilisnesi, en þá var ítrekað staðhæft að kröfur yrðu jafnstrangar og gilda um ný álver í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum.``

Rétt er að minna sérstaklega á skriflegt svar Guðmundar Bjarnasonar, þáv. heilbrrh. og núv. umhvrh., sem hann gaf árið 1989 við fyrirspurn um mengunarvarnir í nýju álveri. Hann sagði þá m.a.:

,,Að mati ráðuneytisins þarf að gera þær kröfur sem almennt eru gerðar vegna rekstrar nýrra álvera í heiminum í dag.``

Af því tilefni hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hæstv. umhvrh., Guðmundur Bjarnason, hefur ekki kynnt sér þær kröfur sem almennt eru gerðar vegna rekstrar nýrra álvera í heiminum í dag, en hann hefur nú eins og fram er komið gefið út stafsleyfi vegna stækkunar álversins í Straumsvík þar sem ekki eru gerðar jafnstrangar kröfur um mengunarvarnir og víða annars staðar. Og maður spyr sig hvernig hæstv. ráðherra ætlar að verja það á alþjóðavettvangi að hann skuli ekki sýna meiri metnað þegar hann fær gullið tækifæri til þess. Afstaða hans og gerðir í þessun efnum hafa valdið okkur miklum vonbrigðum.

Í þessum athugasemdum okkar til Hollustuverndar töldum við líka ástæðu til þess að minna á afstöðu Hollustuverndar ríkisins sem kom fram í bréfi til iðnn. neðri deildar Alþingis í maí 1990 þar sem Hollustuvernd var að fjalla m.a. um vothreinsibúnað fyrir brennisteinsdíoxíð og bendir þar m.a. á að vothreinsibúnaður yki hreinsun flúoríðsambanda úr afsogslofti frá kerum. Hollustuvernd lagði áherslu á það að brennisteinsdíoxíðmengun gæti haft skaðleg áhrif á umhverfið ef ekki kæmi til vothreinsun og að líkur væru á auknu brennisteinsinnihaldi í forskautum, en samkvæmt upplýsingum áliðnaðarins mundi í framtíðinni reynast erfitt að fá skaut með lágu brennisteinsinnihaldi. Það var einnig tekið fram að á hinum Norðurlöndunum væri krafist vothreinsunar kergasa í álverksmiðjum og ef reist yrði 200 þús. tonna álver án vothreinsunar mundi losun brennisteinsdíoxíðs út í andrúmsloftið á Íslandi aukast verulega eða um 50% þó aðeins væri miðað við 2% brennisteinsinnihald í skautum og þar var þó reyndar undanskilin brennisteinsmengun frá millilandaskipum. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég beint áfram í þessar athugasemdir þar sem segir:

,,Í ljósi þessara ábendinga er tillaga Hollustuverndar um starfsleyfi fyrir stækkað álver lítt skiljanleg. Í lið 2.1.7 er lagt til að magn mengunarefna í útblásturslofti frá kerskálum megi vera allt að 1,2 kg/tonn af heildarflúoríði, 1,5 kg/tonn af ryki og 21 kg/tonn af brennisteinstvíoxíði. Að undanskildu rykmagni eru þessi mörk miklu hærri en krafist er í Noregi og víðar. Í Noregi eru mörkin 0,4 kg á tonn af flúoríði og 2 kg/tonn af brennisteinstvíoxíði að því er fram kemur í umsögn Náttúruverndarráðs um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar álvers í Straumsvík frá 21. ágúst sl. Í tillögu Hollustuverndar að starfsleyfi er ekki gerð krafa um vothreinsibúnað og þessi gríðarlegu háu mörk fyrir brennisteinstvíoxíð eru byggð á því að árlegt meðaltal brennisteinsinnihalds í rafskautum sé 2% en fyrir fimm árum taldi stofnunin að skaut með svo lágu brennisteinsinnihaldi yrðu torfengin.``

[14:15]

Í lokin sögðum við í þessum athugasemdum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þingflokkur Kvennalistans telur nauðsynlegt að herða kröfur um mengunarvarnir frá því sem gert er ráð fyrir í tillögu Hollustuverndar að starfsleyfi fyrir stækkaða álverksmiðju í Straumsvík, lækka leyfileg mörk fyrir heildarflúoríð og brennisteinstvíoxíð og setja skilyrði um vothreinsun. Það er fullkomlega óeðlilegt að gera minni kröfur í þessum efnum en t.d. Norðmenn gera til minni og endurnýjaðra álverksmiðja þar í landi.``

Embættismenn Hollustuverndar létu sér hins vegar því miður ekki segjast þrátt fyrir háværa gagnrýni, og þar voru vitanlega fleiri að verki heldur en þingflokkur Kvennalistans, t.d. Náttúruverndarráð o.fl. Og það undarlega var að þeir fengust ekki til að skýra það á skiljanlegan hátt hvers vegna þeir höfðu skipt um skoðun í þessu efni á þessum tíma. Hæstv. umhvrh. trúir og treystir sínum embættismönnum, sem kannski er ekki að undra, og samþykkir því miður allt saman. Ég hlýt að harma þetta metnaðarleysi íslenskra stjórnvalda, sem mér finnst tæpast verða skýrt með öðru en því að þau hafi látið löngun sína í þessar framkvæmdir bera alla skynsemina og metnaðinn ofurliði, þau hafi sem sagt gefið fyrirtækinu, sem er þó margyfirlýst sem sérstaklega áhugasamt um verndun umhverfisins, afslátt af kröfunum um mengunarvarnir. Þetta atriði vegur þyngst í mínum huga þegar reynt er að vega og meta kosti og galla þessa samnings og tilheyrandi aðgerða.

Það er ýmislegt fleira að athuga í sambandi við þetta mál sem við vitum þó miklu minna um, svo sem um skattamál og önnur gjöld, sem samið hefur verið um. Ég get ekki sagt að ég sé stórum fróðari eftir lestur greinargerðar og fylgiskjala eða af því að hlýða á hæstv. iðnrh., en vonandi fæst einhver botn í það á næstu dögum.

Orkuverðið er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig. Um það er hins vegar dálítið erfitt að tala þar sem það er algert leyndarmál enn þá, nema að því leyti að við vitum að það er verulega lægra en núverandi verð og það á algerlega að fylgja heimsmarkaðsverði á áli. Auðvitað er hverjum manni það skiljanlegt að Landsvirkjun vilji fyrir hvern mun selja orkuna sem hefur beðið beisluð árum saman eins og prinsessa í álögum og haldið fyrirtækinu í skuldafjötrum. En það er út af fyrir sig stórmál að það á að tengja það algerlega heimsmarkaðsverði á áli og að það á að fylgja því. Það getur auðvitað haft í för með sér alvarlegar sveiflur í efnahagslífinu. Við þekkjum mætavel hvernig sveiflur í sjávarútveginum geta leikið okkar efnahagslíf og nú verðum við sem sagt sett í þá stöðu að verða enn háðari sveiflum í álverði en verið hefur. En Landsvirkjun hefur væntanlega gert þennan samning með opin augun, ef hægt er að orða það svo, og skiljanlegt að hún vilji fyrir hvern mun selja orkuna. Hún fagnar því auðvitað að fá tækifæri til frekari framkvæmda, en leyndin sem hvílir yfir raforkuverðinu til Ísals vekur upp tortryggni og spurningar. Það er eðlilegt að draga þá ályktun af þessari leynd að verðið sé svo lágt að aðrir orkukaupendur megi ekki frétta af því. Og það er vitanlega sannleikurinn. Það eru ekki nokkur líkindi til þess að nýir orkukaupendur fengju sömu kjör, því að nýjar virkjanir gefa ekki tilefni til neinna útsölukjara.

Ég dreg það út af fyrir sig ekki í efa að Landsvirkjun meti það rétt að hún hafi hagnað af þessari orkusölu til Ísals miðað við núverandi aðstæður, en það hvarflar naumast að nokkrum manni að aðrir gamlir og góðir viðskiptavinir Landsvirkjunar séu að greiða verð sem er eitthvað í námunda við þau kjör sem Ísal nýtur. Og víst er að Rafmagnsveitur ríkisins telja sig ekki of sælar af þeim viðskiptum og gætu áreiðanlega hugsað sér að sitja við sama borð og Ísal. Reyndar sá ég einhvers staðar haft eftir upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar að það væri ljóst að þessir samningar gerðu Landsvirkjun hæfari til að þjóna almenningi og bjóða hagstæðari kjör á rafmagni í framtíðinni. En slíkar yfirlýsingar minna á hefðbundnar fullyrðingar um að efla þurfi fyrirtækin í landinu svo að þau geti greitt hærri laun, sem er auðvitað rétt út af fyrir sig. En það kemur bara aldrei að síðari liðnum í þessari fullyrðingu því að þá má ekki hreyfa þann lið af einhverjum öðrum orsökum.

Annað í þessu sambandi er sannarlega áhyggjuefni. Ísal kaupir nú um 37% allrar raforku frá Landsvirkjun, en eftir stækkun álversins verður það hlutfall komið yfir 60%. Og það finnst mér ekki hyggilegt. Svo eru menn að gæla við hugmyndir um fleiri álver, enda eru nú í tísku hópferðir hingað frá ýmsum löndum til þess að kynna sér möguleika á framleiðslu áls hér á landi. Þessar áherslur eru satt að segja ekki sérlega gáfulegar, því að það hafa aldrei þótt búhyggingi að bera öll eggin í sömu körfu. Ég hugsa til þess með ugg ef sumum yrði að þeirri ósk sinni að hér spryttu upp ein þrjú álver til viðbótar, eins og virðist vera í umræðunni. Þá yrðu þessi hlutföll raforkukaupenda enn óhagstæðari. Er það í raun og veru það sem við viljum? Ég teldi það afar hættulega þróun. Ég tel að við eigum að stefna að aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, skjóta undir það fleiri stoðum eins og klisjan hljómaði til skamms tíma, sem er reyndar ágætis klisja að mínum dómi.

Herra forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um ókostina við stækkun álversins í Straumsvík, enda finnst mér nauðsynlegt að menn séu meðvitaðir um þá og geri sér fyllilega grein fyrir afleiðingum þess sem hér er lagt til að samþykkja. Vissulega munu framkvæmdir við stækkun álversins, svo og framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar hennar vegna, örva a.m.k. tímabundið efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar og verða umtalsverður búhnykkur, eins og ég las einhvers staðar haft eftir þjóðhagsstjóra. Að framkvæmdum loknum hafa þær leitt til fjölgunar varanlegra starfa. Þau verða í álverinu sjálfu um 90, að því að nú er fullyrt, og margfeldisáhrif gætu að mati Byggðastofnunar leitt til varanlegrar heildaraukningar um allt að 300 ársverka. Sannarlega munar um það, þótt hér sé að vísu aðeins um brot af heildarmannafla að ræða sem er áætlaður um 132 þúsund ársverk. En hvert eitt starf er hins vegar mikilvægt í því ástandi sem við er að búa í atvinnulifinu um þessar mundir. Á það legg ég áherslu og vil skoða þetta allt saman með jákvæðum huga með tilliti til þess. Framkvæmdirnar sjálfar taka að vísu stuttan tíma, en vegna þeirra skapast alls um 750--800 ársverk næstu tvö árin og þar er því um tímabundna aukningu að ræða.

Hins vegar skal ekki vanmeta líkleg jákvæð áhrif þessa samnings á þróun og eflingu atvinnulífsins. Mönnum eykst væntanlega bjartsýni og áræði til aukinna umsvifa á ýmsum sviðum og það er ekki lítils virði. Skuggahliðin í því dæmi er sú að hér er um staðbundna þenslu, ekki bara tímabundna heldur staðbundna þenslu að ræða, og jafnframt þessum framkvæmdum er talin ástæða til að vara við þenslu á öðrum sviðum og væntanlega einnig á öðrum svæðum. Það er lögð mikil áhersla á nauðsyn áframhaldandi aðhalds í framkvæmdum og rekstri á vegum ríkisins til þess að vega upp á móti þensluáhrifum. Menn eiga reyndar eftir að átta sig á heildaráhrifum, sem koma væntanlega mjög misjafnlega fram eftir landshlutum.

Herra forseti. Ég hef áheyrnaraðild að iðnn. og á því kost á að fá þar upplýsta einhverja leyndardóma og fá svör við ýmsum spurningum sem hafa vaknað, en miðað við það sem hér og nú liggur fyrir er mat mitt þetta: Jákvæðu hliðar málsins eru fyrst og fremst þær að þessar framkvæmdir munu verka sem vítamínsprauta fyrir efnahags- og atvinnulíf okkar nú um stundir, en að vísu að stærstum hluta tímabundið. 200--300 varanleg störf munu skapast vegna þessara framkvæmda, sem eru reyndar tiltölulega fá störf miðað við allan tilkostnaðinn.

Neikvæðu hliðar málsins eru m.a. þær að það er óhyggilegt að eitt fyrirtæki verði svo gríðarlega stór kaupandi að orkunni frá Landsvirkjun, þ.e. að rúmlega 60% eins og verður að stækkun lokinni. Það er erfitt að meta hvort fullyrðingar Landsvirkjunar standast um ágæti orkuverðssamningsins ef tillit er tekið til allra þátta, en þar munar væntanlega mest um þá staðreynd að orkan yrði annars áfram óseld. Veigamesta atriðið er þó að mínu mati það, að enda þótt stækkun álversins í Straumsvík sé skásti kosturinn af þeim möguleikum sem hafa verið til skoðunar á sviði stóriðju og líklegastur til að valda minnstum umhverfisspjöllum, þá eru ekki gerðar nægilega strangar kröfur til mengunarvarna. Það veldur miklum vonbrigðum og er að mínu mati grafalvarlegt mál.