Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 14:26:16 (1254)

1995-11-23 14:26:16# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[14:26]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé komið á dagskrá Alþingis viðamikið mál sem krefjist allítarlegrar umræðu. Af þeim ástæðum óskuðum við þingmenn Alþb. og óháðra eftir því að umræðutíminn yrði tvöfaldaður vegna þess að hér er um að ræða allflókið mál. Hins vegar verð ég að segja að ég get því miður ekki skrifað upp á það að hér séu á ferðinni þau kaflaskil í íslensku atvinnulífi sem mér finnst að hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstjórn tali gjarnan um í þessu samhengi. Það er þess vegna villandi, að ekki sé meira sagt, að tala t.d. um mikilvægustu samninga frá 1966, þjóðhagslega mjög mikilvæga samninga og annað af því tagi, vegna þess að þar með er verið að gefa í skyn að þetta mál sé stærra efnislega fyrir hina atvinnulausu eða atvinnulitlu á Íslandi en það raunverulega er. Þess vegna er ég alveg sammála hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um innganginn í hennar ræðu. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að tíðindin atvinnulega í þessu dæmi eru ekki eins stór og ríkisstjórnin vill vera láta. Engu að síður hafa ummæli hennar og einstakra ráðherra til þessa vakið upp væntingar út um allt þjóðfélagið. Maður hefur heyrt dæmi um það að menn séu að festa kaup á atvinnutækjum, á bílum eða jafnvel íbúðum eða jafnvel að flytja til Reykjavíkur um langan veg til þess að eiga aðild að hinni miklu veislu sem hæstv. iðnrh. kveðst vera að boða til í landinu með þessum samningi. Ég held að sú uppsetning mála verði að flokkast undir hreina blekkingarstarfsemi vegna þess að þannig liggja hlutirnir í raun og veru ekki.

Staðreyndin er auðvitað sú að núna, mörgum mánuðum eftir að ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. kemur til valda, ríkisstjórn með flokkinn innan borðs, Framsfl., sem lofaði 12 þúsund nýjum atvinnutækifærum. Nú er staðan þessi, hæstv. forseti. Atvinnuleysi hefur aldrei verið meira á Íslandi en í dag. Og það er því miður augljóst mál að þessi samningur slær ekki á þá bylgju atvinnuleysis sem við höfum horft á að undanförnu. Þess vegna er nauðsynlegt að draga þetta fram, hæstv. forseti, og skora á hæstv. ríkisstjórn að taka öðruvísi á uppsetningu þessara mála en hún hefur gert, tala ekki um þetta sem endanlega frelsun og lausn fyrir Íslendinga. Auðvitað má segja, hæstv. forseti, að ríkisstjórninni sé að vissu leyti vorkunn í þessu efni. Í fyrsta lagi vegna þess að hún hefur ekkert verið að gera í atvinnumálum. Hún verður því að reyna að sýnast í þessu máli þó lítið sé. Í öðru lagi vegna þess að heilu iðnaðarráðherrarnir hafa hrökklast frá og jafnvel alla leið til Finnlands, fyrst upp á Arnarhól og svo til Finnlands, vegna þess að þeir gátu ekki einu sinni gert samning eins og þennan. M.a. sprengdi Alþfl. stjórnarsamstarf vinstri flokkanna 1991 vegna þess að hann vildi leggja svo mikla áherslu á álver sem annars væri kannski ekki í boði. Það er búið að byggja upp langtíma pólitískar væntingar í kringum þetta mál og þannig séð er þeim auðvitað nokkur vorkunn, þeim ráðherrum sem tala fyrir málinu en ég segi eins og er, ég held að það sé skynsamlegt að tala á lægri og hófsamari nótum um þetta mál en mér finnst að hæstv. ráðherrar hafi gert í þessu máli.

[14:30]

Ég hafði hugsað mér í þessari ræðu minni að fara yfir nokkur almenn atriði málsins sem ég tel að sé að séu kannski fjögur eða fimm talsins. Því miður er ekki kostur á því að gera grein fyrir málinu með eins ítarlegum hætti og maður hefði viljað, vegna þess eins og ég sagði áðan, að þetta mál á sér langan aðdraganda en líka að því leytinu til að hluti af málinu á rætur í gömlum pólitískum deilumálum sem hafa staðið hér yfir uppstyttulítið, allt frá árinu 1964--5 og 6. Það er ekki lengra síðan en u.þ.b. 12 ár eða svo að heil ríkisstjórn sprakk meira og minna vegna þess að menn höfðu aðrar áherslur í þessum málum heldur en einn stjórnarflokkurinn hafði, þ.e. Alþb. Það er gaman að rifja það upp, hæstv. forseti, hvaða áhrif málafylgja Alþb. hafði á sínum tíma til þess að hækka orkuverðið. En þannig var að heilu stjórnmálaflokkarnir voru í raun og veru á móti því að krafa um hækkun orkuverðsins yrði tekin upp.

Ég hef fengið fjármála- og markaðssvið Landsvirkjunar til að gera á því úttekt fyrir mig hverju hækkunin árin 1983 og 1984 hefur skilað í þjóðarbúið, hverju deilurnar við Alusuisse, á sínum tíma hafa skilað. Og hverju þau verkefni hafa skilað sem þá var efnt til en maður sem er ekki fjarri okkur hér í dag hefur verið gagnrýndur mjög mikið fyrir að hafa efnt til þeirra átaka, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.

Samkvæmt niðurstöðu fjármála- og markaðssviðs Landsvirkjunar er um að ræða ávinning fyrir þjóðarbúið upp á 10--15 milljarða kr. vegna þeirra hækkana sem hafa orðið á raforkuverðinu á þessum tíma frá 1983--1984. Þessi mál er enginn tími til að ræða og því miður er heldur ekki tími til að ræða það hvernig deilur hafa stöðugt verið við þetta fyrirtæki af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og starfsmanna. Fannst mönnum t.d. geðugt sl. sumar þegar var verið að reyna að knýja fram breytingar á vinnulöggjöfinni í kjarasamningum um kaup og kjör þess fólks sem þarna vinnur? Það eru hlutir sem voru ekki smekklegir og full ástæða til að ræða.

Það væri líka ástæða til að ræða, hæstv. forseti, rækilegar en kostur er hér, umhverfisþáttinn sérstaklega. Ég ætla ekki að fara út í það en segi eins og er, ég tel ekki nóg að iðnn. fái þetta mál til meðferðar. Ég tel að það sé nauðsynlegt að umhvn. fái það líka. Ég tel að það sé nauðsynlegt reyndar líka að efh.- og viðskn. fái málið en hún er skattanefnd málsins. Ég vil fara fram á það við hæstv. ráðherra líka, hæstv. iðnrh. sérstaklega, að hann tryggi að iðnn. fái öll gögn þessa máls. Hér hefur verið uppi alveg ótrúleg uppsetning mála varðandi verðið á raforkunni en ég ætla að koma aðeins að því á eftir. Það hefur verið tekin ákvörðun um það að halda því leyndu, eins og sakir standa m.a. vegna viðræðna sem Landsvirkjun á í við önnur fyrirtæki. Það er útilokað að gefa þetta verð upp og verðformúlurnar í einstökum atriðum eins og sakir standa. Það er algerlega útilokað. Það er eingöngu af viðskiptalegum ástæðum. En m.a. vegna þess að þessar raddir hafa heyrst og vegna þess líka að það er eðlilegt þá hljótum við að ætlast til þess að hv. iðnn. fái þessi gögn til meðferðar í einstökum atriðum og ég vil byrja á því að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann sé ekki tilbúinn til þess að tryggja að svo verði.

Ég vil einnig segja það, hæstv. forseti, að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að umhvn. fái þetta mál til meðferðar, bæði málið sjálft, þ.e. mengunarvarnirnar sem slíkar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur m.a. gert að umtalsefni opinberlega og sömuleiðis þingflokkur Kvennalistans og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hér áðan en líka vegna þess að Íslendingar hafa gert tiltekna alþjóðasamninga varðandi koldíoxíð-útblástur sem eru takmarkandi í þessu efni. Það verður að gera grein fyrir því eins nákvæmlega og mögulegt er, hvernig þessi samningur rímar við loftslagsbreytingasáttmálann frá Ríó. Og ég vil spyrja hæstv. umhvrh. sem er hér: Hvað segir hann um það mál? Hefur verið gerð, og það mun hafa verið gerð, framkvæmdaáætlun á grundvelli loftslagsbreytingasáttmálans frá Ríó? Hvernig metur hann stöðu þessa samnings með hliðsjón af þeim samningsdrögum við Alusuisse- Lonza sem við erum hér að ræða? Ég held að það sé líka til nokkurrar umhugsunar, hæstv. forseti, í þessu dæmi, að við höfum á undanförnum vikum orðið vitni að því að ákveðinn einstaklingur hér á landi hefur óskað eftir að fá tiltekna meðferð mála varðandi mengunarmál hjá yfirvöldum hér í þessu landi. En því hefur verið vísað frá á þeim forsendum að hann sé ekki aðili málsins. Þessi þáttur málsins er mjög merkilegur og er núna til meðferðar í sérstakri úrskurðarnefnd samkvæmt lögum. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. líka hvenær hann gerir ráð fyrir því að þessi nefnd felli sinn úrskurð. Það er mjög mikilvægt að fá að vita hvenær þessi úrskurðarnefnd mun að líkindum fella sinn úrskurð þannig að það verði sem fyrst hægt að gera sér grein fyrir því hvort að þessi málsmeðferð er í lagi og eðlileg miðað við allar aðstæður.

Í framhaldi af þessu hlýt ég þess vegna, hæstv. forseti, að fara fram á mjög rækilega umfjöllun þessa máls í hv. umhvn. Ég kem síðan að aðalþætti þessa máls eins og hann snýr að þessum samningsdrögum hér. Það er orkusalan. Það er náttúrlega alveg ljóst að Landsvirkjun á nóg rafmagn. Hún er að framleiða 750 gígavattstundir á ári sem hún hefur ekki getað selt. Og Landsvirkjun er auðvitað, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði hér áðan, fegin að geta selt eitthvað af þessu. Það liggur auk þess fyrir að þessi framkvæmd sem hér er um að ræða þarf meira en 750 gígavattstundir á ári. Hún þarf um 950 gígavattstundir. Og í þriðja lagi er það þannig að almenni markaðurinn þarf að bæta við sig á ári 40--50 gígavattstundum. Þannig að út af þessum samningi þarf að virkja eða bæta við í orkuframleiðslu 900--1000 gígavattstundum fyrir þann tíma þegar stækkunin tekur gildi, þ.e. í nóvember, desember 1997. Auðvitað hefði verið langhagstæðast fyrir Landsvirkjun ef þessi stækkun hefði tekið nákvæmlega jafnmikið og til er af umframorku. En það er dálítið meira sem þarna er um að ræða og þess vegna er leitað ýmissa virkjanakosta og breytinga á þeim virkjunum sem fyrir eru. Það er auðvitað rétt sem sagt er: Þetta eru ódýrir kostir sem þarna eru á ferðinni í orkuframleiðslu. En ég vil líka láta það koma fram þannig að það liggi fyrir sem mín skoðun, að ég tel að í þessum samningi felist það að Landsvirkjun sé tryggt endurstofnverð eða flýtingarkostnaður þeirra virkjana sem eru inni í þessari mynd vegna stækkunarinnar í Straumsvík. Ég held að það væri ekki skynsamlegt að setja hlutina þannig upp að menn séu að gera vondan samning að því er þetta varðar, það er ekki þannig. Ég bendi á hvað Landsvirkjun hefur augljósa hagsmuni af því að selja þetta þrep á eins góðu verði og mögulegt er og staðreyndin er sú að fyrirtækið er líka að ræða við aðra aðila og verður að tryggja það að viðspyrnan sé einhver í þeim samningaviðræðum og hún er það. Þannig að ég tel að miðað við allar aðstæður þá geti þarna talist vera um þokkalega lendingu að ræða.

Út af fyrir sig hafa ekki komið fram neinar tölur um þessi mál, engar tölur aðrar en heildartölur, t.d. hjá hv. ráðherra. Ég hygg að hann hafi nefnt heildarnettóávinning Landsvirkjunar á samningstímanum, þ.e. 8 milljarðar kr. sem er núvirt tala en ekki brúttótala. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn festi þá tölu sér í huga. Það munar um hana dálítið. Og ég held að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þessar tekjur fara til að styrkja hina almennu stöðu Landsvirkjunar gagnvart almenna markaðinum líka, þ.e. þeim sem kaupa rafmagn af Landsvirkjun úti í þjóðfélaginu. Ég held að það sé líka hægt að segja það fullum fetum og ég geri það, að sú orkuverðsformúla sem stuðst er við í þessum samningi er mun hagstæðari en í gildandi samningi og þá er ég að tala um orkuverðsformúluna sem tekur við að afsláttartímabilinu loknu. Sú formúla sem menn eru hér að tala um hefði gefið meira en núgildandi samningur hefur nokkurn tíma gefið eins og hún er sett upp og ég tel að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir þó aðeins sé í orði hér úr þessum ræðustól.

Ég vil hins vegar leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh., hvort hann sé ekki tilbúinn til þess hér úr þessum stól að fara út í fleiri einstök atriði þessa máls en hann gerði áðan. Ég endurtek áskorun mína á hann um það að hann leggi þetta fyrir iðnn. hv. í einstökum atriðum og ég endurtek líka að ég skil að það þarf að halda þannig á vissum hlutum í þessu máli að þeir séu trúnaðarmál. En það eru þó nokkur einstök atriði í þessu efni sem ég tel að hæstv. iðnrh. ætti að geta birt alþjóð hér úr þessum stól þó það sé ekki á annarra manna færi.

Ég tel, hæstv. forseti, að það sé nauðsynlegt að taka tvennt fram. Eftir að hafa rakið kosti þessa orkusölusamnings fyrir Landsvirkjun eru tveir fyrirvarar sem ég vil hafa sjálfur varðandi orkusölusamninginn. Sá fyrri er að auðvitað má það orkuverð sem um að ræða og byggist á tilteknum forsendum og tilteknum aðstæðum, ekki verða endanlegt fordæmi fyrir næstu skref og ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort að hann er sammála mér um það atriði. Og í öðru lagi vil ég leyfa mér að nefna það sem fyrirvara af minni hálfu að í þessum samningi eins og hann liggur hér fyrir Alþingi, er ekki bara verið að tala um 162 þús. tonna framleiðslu, heldur 200 þús. tonna framleiðslu. Orkusölusamningurinn er bara um 162 þús. tonna framleiðslu. Það sem að Landsvirkjun hefur tekið afstöðu til er sala á orku til 162 þús. tonna framleiðslu. En samningurinn eins og hann liggur hér fyrir gerir ráð fyrir 38 þús. tonnum í viðbót eða 200 þús. tonna ársframleiðslu í Straumsvík sem yrði framkvæmd með þeim hætti að einum kerskála yrði bætt við á svæðinu upp að veginum, auk þess sem allir fjórir kerskálarnir yrðu í framhaldi af því lengdir í áttina að Straumi. Engin afstaða liggur fyrir á hvaða verði sú orka er sem á að fara til að framleiða þessi 38 þús. tonn. Ég tel það mikið álitamál hvort það sé rétt að afhenda Alusuisse þannig viðspyrnu inn í orkuframleiðslu framtíðarinnar og það sé þarna með möguleika á því að kalla til þess að það eigi rétt á að hefja 38 þús. tonna framleiðslu í viðbót án þess að það mál sé nokkurn tíma lagt fyrir Alþingi. Það er það sem menn eru í raun og veru að segja: Hér er tillaga um 200 þús. tonna framleiðslu, 100 þús. í viðbót í þessu frv. Og það finnst mér ekki hafa komið nægilega skýrt fram í málflutningi hæstv. ráðherra.

[14:45]

Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að ég tel að orkusölusamningurinn sem slíkur, miðað við aðstæður, gagnvart þessum 62 þús. tonnum, sé brúklegur miðað við allar aðstæður fyrir Landsvirkjun. Það tel ég vera. En ég nefni tvennt, annars vegar má ekki vera fordæmi fyrir næsta skref að því er verðið varðar, í öðru lagi segi ég: Ég vil hafa fyrirvara og a.m.k. ræða þýðingu þess að þarna er um að ræða heimild upp í 200 þús. tonn en ekki 162 þús. tonn. Þetta er um orkuverðið.

Í næsta lagi, hæstv. forseti, eru það skattarnir. Ég hef ekki haft aðstöðu til að reikna þá út sjálfur í einstökum atriðum. En ég verð að gagnrýna að það skuli ekki vera gert í plagginu. Af hverju er ekki í grg. farið betur ofan í þessa hluti? Af hverju er ekki líka í grg. farið eitthvað ofan í umhverfismálin? Það er ekkert minnst á þau í raun og veru, nema í mjög litlum kafla á bls. 46 og 47. Það er ekki ítarleg yfirferð á þeim gagnrýnisaðferðum sem fram hafa komið í þessu máli, bæði af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og hv. þm. Kvennalistans. Eins er það með skattana, ég hefði viljað sjá menn reikna þetta betur út. Ég sé þó eitt sem liggur í augum uppi. Það er það að menn segjast vera að aðlaga þetta íslenskum skattalögum. Og það er skynsamlegt. Ég bendi á að þegar við áttum í viðræðum við Atlantsáls-hópinn hér fyrir mörgum árum, þá lögðum við á það áherslu að hann yrði settur undir íslensk skattalög. Um það varð samstaða. Í rauninni eru menn að segja hér: Færum skattprósentuna niður í það sem tekjuskatturinn er hér. En hann hefur verið stighækkandi hjá álverinu úr 35 upp í 55%, ef ég man rétt. Síðan er um að ræða ákveðið lágmarksgjald sem gefur í dag, miðað við reikningsforsendur og 100 þús. árstonn, um 2 millj. dollara á ári. Það er fast gjald á tonnið. Svo stendur einhvers staðar í skjalinu: Þetta verður alveg eins, þrátt fyrir stækkunina. Það er nokkuð til í því. Það er að segja þannig séð, það er sama talan, 2 millj. dollara, fyrir 200 þús. árstonn líka. Vegna þess að lágmarksgjaldið, fasta lágmarksframleiðslugjaldið, er lækkað um helming frá því sem er í dag. Og út úr því kemur auðvitað sama tala, þegar fyrirtækið er stækkað um helming, þ.e. 50%.

Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvaða rök eru fyrir þessari breytingu sérstaklega. Síðan tek ég eftir því að hlutur Hafnarfjarðarbæjar er aukinn nokkuð frá því sem verið hefur. Ég hef ekkert á móti því. Það hafa heyrst fregnir af því að það veiti nú ekki af að styrkja fjárhag Hafnarfjarðarbæjar. En mér þætti gaman að vita hvaða rök eru fyrir því að þessi breyting á sér stað. Ég verð að segja það sem mína almennu skoðun að þegar um er að ræða stóriðjufyrirtæki, þá á það ekki að vera þannig að viðkomandi sveitarfélag hagnist sérstaklega á því, umfram þann hagnað sem það hefur af því fólki sem býr í sveitarfélaginu og vinnur hjá fyrirtækinu. Þetta hefur hins vegar verið þannig á undanförnum árum, sveitarfélögin þar sem fyrirtækin eru staðsett hafa hagnast sérstaklega. Hafnfirðingar halda því fram að þetta sé greiðsla fyrir kostnað. Ég er sammála því, það á að borga kostnað. Er þetta þannig, hæstv. ráðherra? Ef það er þannig, þá stendur það og allt í góðu með það. En ég bendi t.d. á þá ótrúlegu stöðu sem kom upp þegar járnblendiverksmiðjan var reist og til varð ríkasta sveitarfélag í heimi, Skilmannahreppur á Hvalfjarðarströnd, vegna þess hvernig skattamálum var fyrirkomið á þessu fyrirtæki. Ég hygg reyndar líka að Skútustaðahreppur hafi haft sæmilegt upp úr fyrirtækinu við Mývatn, til að byrja með, þó svo að það hafi í raun og veru verið nokkuð snúið fyrir það sveitarfélag að laga sig að hugsanlegum samdrætti verksmiðjunnar við Mývatn, sem jafnvel gæti blasað við.

Ég held þess vegna að það verði því miður að fara mjög rækilega yfir skattaþáttinn í þessu máli og ber það undir hæstv. iðnrh. hvort hann telji ekki eðlilegt að skattaþáttur málsins fari til meðferðar í hv. efh.- og viðskn.

Hvað almenn áhrif varðar, hæstv. forseti, skiptir vissulega máli að á tveimur árum mun fjárfesting aukast um 7 milljarða á fyrra ári ári og 9 milljarða á seinni ári. Það mun hafa áhrif hér í hagkerfinu. Satt að segja get ég ekki séð að þetta muni þýða einhverja ógnarlega þenslu. Þetta er ekki svo mikið í raun og veru. En einhverjir efnahagshöfðingjar hafa reiknað það út að einhver voðaleg þensla sé yfirvofandi út af þessu. Ég átta mig, satt best að segja, ekki á því, en kannski er það svo. Það er mál sem þarf að skoða. Ég bendi þó á að fjárfesting sem er orðin óhugnanlega lágt hlutfall af landsframleiðslu hér á landi, er komin niður í 16--17%, hefur farið í 15,5%, held ég. Mér sýnist að hún fari svona í 17--18% með þessu, það er nú ekki meira. Auðvitað munar um það, en það er samt ekki nægilega hátt hlutfall. Í eðlilegu efnahagskerfi á Íslandi þarf fjárfestingin að vera í kringum 20%. Ég tel því ekki ástæðu til að stökkva upp til handa og fóta vegna þess að hér sé um að ræða einhvern ógnarlegan þensluvald í hagkerfinu, m.a. með hliðsjón af því að hér er gríðarlegt atvinnuleysi, meira atvinnuleysi en við höfum nokkru sinni haft hér. Það er því í rauninni fráleitt að byrja á þensluóttaræðunum út af þessari framkvæmd sem þarna er um að ræða. Það er í rauninni alveg fráleitt.

Vandinn er ef til vill sá, hæstv. forseti, ef ég má bæta því við, að þetta er einstakt verkefni vegna þess að það er ekki verið að gera neitt annað. Að öðru leyti eru menn að skrifa í skýin þessar venjulegu stóriðjuþulur sínar, eins og hæstv. ráðherra rakti hér áðan. Það er ekki um að ræða neina atvinnustefnu af hálfu núv. ríkisstjórnar. Enga. Það hefði þó verið brýnast af öllu að mynda stjórn hér sl. vor sem hefði aðallega lagt áherslu á að rífa hér upp atvinnu og bjartsýni í þessu landi eftir fjögurra ára stjórn vonleysis og svartsýni, þar sem allt var gert til að berja því inn í hausinn á mönnum að það væri ekkert hægt að gera og engu hægt að bæta við af neinu tagi. Þess vegna hefði þurft hér sl. vor sterka ríkisstjórn sem hefði farið í atvinnumálin númer eitt, tvö og þrjú og haft stefnu í atvinnumálum. Horft yfir sviðið, sett málin í heildarsamhengi, eins og t.d. þessi mál hér. Ég segi alveg eins og er, að það hefði verið allt annað að koma að þessu máli ef það hefði verið tekið sem hluti af heildaratvinnumálastefnu, frekar en að kynna það eitt og sér og blása það í raun og veru upp umfram efni málsins, eins og ég rakti hér fyrr.

Ársverk í framkvæmdunum verða um 750 talsins, það er mjög gott. Það munar mjög mikið um það. Sérstaklega hér á þessu svæði atvinnuleysisins, sem er eitt versta atvinnuleysissvæði landsins. 750 ársverk árið 1996 og 1997, þar af eru að vísu 30 ársverk sem eru reiknuð vegna þess að verksmiðjan eða stækkunin komi í gagnið í nóvember 1997, þannig að þar reiknast 30 ársverk. Að öðru leyti eru menn að tala um rúmlega 700 ársverk sem þetta skilar. Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði hér áðan að ýmislegt sem við höfum verið að frétta af að undanförnu, án mikilla hátíða, undirskrifta eða blaðamannafunda, er líka að skila ánægjulegum árangri hér inn í hagkerfið og fleiri atvinnutækifærum.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að ræða það í þessu samhengi, hæstv. forseti, að í tengslum við það hvernig málið hefur verið sett upp munu m.a. vakna verulegar væntingar í kringum málið, ekki bara hér á Suðvesturlandi, heldur líka annars staðar. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa það í huga að þetta er að gerast hér á sama tíma og það er tiltölulega dapurt yfir framtíðarhorfum víða annars staðar á landinu. Ég er eiginlega sannfærður um að þeir sem fjalla um þau mál munu skoða þau í byggðasamhengi, eins og gjarnan hefur verið gert þegar mál af þessu tagi koma upp, þó svo að það verði auðvitað að viðurkenna að í rauninni er hér ekki um það stórverk að ræða að það sporðreisi einu eða neinu.

Ég held, hæstv. forseti, að það sé líka nauðsynlegt, í síðasta lagi við þessa almennu yfirferð, að spyrja aðeins um samskiptin við verkalýðsfélögin. Það er ekki gott hvernig þessi mál hafa þróast. Þegar álsamningurinn var gerður fyrir 30 árum, þá gerði einn stjórnmálaflokkur það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við álsamninginn að fyrirtækið yrði ekki aðili að Vinnuveitendasambandinu. Það var Alþfl. Til að byrja með var þessum skilyrðum hlýtt en síðan var því breytt nokkru seinna, allmiklu seinna, að ég hygg, a.m.k. nálægt 15 árum. Ég held ég verði að segja það hér úr þessum ræðustóli, eftir það sem á undan er gengið varðandi fjölmiðlafréttir og annað um þessi mál á liðnu sumri, að það er ekki gott hvernig fyrirtæki þetta hefur stundum komið fram við verkalýðsfélögin. Ég held að ég verði að biðja hæstv. iðnrh. að fara um það mál nokkrum orðum, hvernig honum sýnist að þau mál hafi þróast. Sjálfsagt má margt um þetta segja og sjálfsagt geta menn í raun og veru sagt sem svo að sjaldan veldur einn þá tveir deila. En hitt er engu að síður augljóst mál að hér hafa komið til átök sem eru ekki heppileg, hafa leiðinlegan svip. Og mér finnst að fyrirtækið hafi stundum sett sig í óþarflega mikla stórveldisstöðu gagnvart verkalýðsfélögunum og verkalýðsforingjunum á undanförnum árum, það er ekki bara núna á undanförnum mánuðum, það hefur oft gerst á undanförnum árum. Ég held að það sé ástæða til þess að vara við því, vegna þess að hér er um að ræða mál sem hefur sett mikinn svip á þjóðlífið á undanförnum árum.

Ég vil segja það að síðustu, hæstv. forseti, að ég tel að þetta mál megi ræða í fimm meginþáttum. Í fyrsta lagi er það orkuverð, þ.e. það frv. sem liggur hér fyrir. Ég tel að það sé þolanlegt fyrir okkur að því er varðar stækkunina upp í 162 þús. tonn. En ég verð að segja að þetta er ekki fordæmi fyrir næsta skref og ég hef fyrirvara varðandi þessa stækkun upp í 200 þús. tonn. Í öðru lagi snýst þetta mál um umhverfismál. Í þriðja lagi um skattamál, sem við þurfum að fara yfir, í fjórða lagi almenn áhrif málsins í samfélaginu og í fimmta lagi spurninguna um þetta mál sem hluta af heildarstefnu í atvinnu- og efnahagsmálum.

Ég held að það sé í raun og veru nauðsynlegt að fara fram á það, hæstv. forseti, að það verði þannig haldið á þessu máli, að því verði tryggð vönduð yfirferð þingnefnda, auðvitað fyrst og fremst hæstv. iðnn. og síðan einnig umhvn. og efh.- og viðskn. Og ég skora á hæstv. ráðherra að halda þannig á málinu að nefndirnar fái upplýsingar um málið í einstökum atriðum. Annað er ekki hægt gagnvart Alþingi.

[15:00]

Spurningin er svo sú: Er það í raun og veru þannig að Íslendingar hljóti að því er varðar atvinnumál, að takmarka hugmyndir sínar, áherslu og stefnu við mál af þessum toga? Eigum við kannski ekki annarra kosta völ? Eigum við ekki annarra kosta völ en að takmarka framtíðarsýn okkar við stóriðjufyrirtæki af ýmsu tagi sem kaupa raforku hjá okkur? Eða hvað? Það er a.m.k. skoðun mín og okkar alþýðubandalagsmanna að möguleikar þjóðarinnar til uppbyggingar lífskjara á komandi árum og áratugum séu í það heila tekið afar góðir. Ég ætla að benda á þrennt. Í fyrsta lagi á sjávarútveg og möguleika hans ef við höfum vit á því að umgangast fiskstofnana af skynsemi en göngum ekki á þá heldur byggjum upp höfuðstól fiskstofnanna. Í öðru lagi bendi ég á ferðaþjónustu þar sem hefur verið raunaukning upp á 8, 9 og 10% á ári og getur orðið svo án þess að við aðhöfumst mjög mikið vegna hreyfinga í heiminum almennt. Í þriðja lagi bendi ég á orkuna. Þar eru líka gríðarlegir möguleikar. Að vísu held ég að sæstrengshugmyndirnar séu ekki uppi á borðinu eins og er en að því er varðar orkuna eigum við gríðarlega möguleika. Allir þessir þættir eru hins vegar háðir einum og sama grunnþættinum sem eru umhverfismálin. Það á við fiskimiðin, það á við orkumálin og það á við ferðamennsku. Það er liðin tíð að við getum stokkið á hvaða ný tækifæri sem er í þessum málaflokkum með einhverjum gleypugangi heldur verðum við að spyrja okkur í leiðinni hvaða áhrif hefur þetta á umhverfi okkar og aðstæður, ekki bara í augnablikinu heldur líka í langri framtíð. Það höfum við alþýðubandalagsmenn reynt að leggja áherslu á í uppsetningu mála okkar þar sem við höfum þróað stefnu sem er í senn jöfnunarstefna og umhverfisstefna, rauð og græn allt eftir því hvernig menn vilja horfa á þá hluti.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af öllu þessu legg ég á það áherslu að menn meti málið í heild rólega og yfirvegað, geri ekki of mikið úr því og heldur ekki of lítið en vandi sig við meðferð málsins.