Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 16:56:36 (1259)

1995-11-23 16:56:36# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., VK
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[16:56]

Viktor B. Kjartansson:

Virðulegi forseti. Að sitja undir ræðum stjórnarandstöðunnar í dag er svolítið sérstök tilfinning. Það virðist ríkja töluverð tilvistarkreppa í hugum einstakra þingmanna og það er líkt því að klukkunni hafi verið snúið við og hún hafi haldið til baka 30 ár þegar maður situr hér og hlýðir á ræðu eins og hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.

Að sjálfsögðu vitum við það að þjóðin styður nýframkvæmdir, hún styður fjölgun starfa og hún er hlynnt þeirri vítamínsprautu sem við erum nú að fá inn í þjóðfélagið. Þetta veit stjórnarandstaðan. En á sama tíma verður stjórnarandstaðan að vera á móti málinu vegna þess að það er Sjálfstfl. og Framsfl. sem ná loksins að landa stóra laxinum. Það var helst í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem stuðningur kom fram við málið þrátt fyrir að nauðsynlegt hafi verið að hverfa aftur í tímann og rannsaka ummæli einstakra ráðherra og þingmanna sem nú sitja.

Stjórnarandstaðan leitar nú logandi ljósi að einhverjum ásteitingarsteini í þessu máli og þeir reyna að sá mikilli tortryggni og gera lítið úr þeirri gríðarlegu jákvæðu þýðingu fyrir þjóðina sem þetta mál hefur. Það er þýðing sem jafngildir öllum Smuguveiðum Íslendinga á síðasta ári. En það er samt sem áður leitað að einhverjum málum. Það er leitað að einhverju sem hægt er að gera andstöðu um til þess að tortryggja málið. Það er spurt: Hvað um umhverfismálin? Hvað um 38 þús. tonnin sem eftir eru af samningnum? Hvað um skattana? Hvað um verkalýðsfélögin? Og hvað um Hafnarfjarðarbæ? Á hann að verða ríkasta sveitarfélagið í Reykjaneskjördæmi? Og hvað um þetta lága orkuverð?

Þrátt fyrir tilraunir til þess að gera málið tortryggilegt þá neyðist sérstaklega Kvennalisti og Alþb. að gefa samþykki sitt. Eftir að hafa hlustað á ræður Kristínar Halldórsdóttur og Svavar Gestssonar þá finnur maður þá erfiðleika sem þau standa frammi fyrir að dansa hinn fína línudans á milli þess að lýsa yfir ánægju sinni og lýsa yfir andstöðu sinni.

En hvað er að gerast? Hvað er að gerast hjá Alþb. og Kvennalista í þessu máli? Hvernig stendur á þessum miklu mótsögnum sem við verðum vitni að í málinu? Þau segja að það hafi aldrei verið meira atvinnuleysi en í október 1995 eins og var í síðasta mánuði. En á sama tíma er það ekkert sérstakt umræðuefni að verið sé að koma með mestu vítamínsprautu inn í efnahagslífið í 20 ár og skapa þar með varanleg störf. Það er ekkert tiltökumál. Það má ekkert ræða það og helst á að hafa sem allra lægst um það þrátt fyrir að aldrei hafi verið meira atvinnuleysi en í síðasta mánuði. Kvennalisti og Alþb. segja: Það er rétt að Landsvirkjun hefur verið í miklum vandræðum með að losna við umframorku sína á síðustu árum, það er rétt. En samt má alls ekki hoppa hæð sína í loft upp þegar tekst að selja stóran hluta umframorkunnar. Það má ekki.

Einnig kemur fram hjá Alþb. og Kvennalista: Hagvöxtur og erlend fjárfesting er í hættulegu lágmarki. En samt er slæmt að fá inn í þjóðfélagið stærstu erlendu fjárfestingu á Íslandi síðustu áratugi. Eru þessar mótsagnir ekki aumkunarverðar og er það ekki hroðalegt að vera í þeirri aðstöðu að þurfa að halda fram málflutningi eins og þessum.

Það hefur einnig komið fram í umræðum að það hafi verið hroðalegt, það reyndar kom ekki fram nú en við urðum vitni að því á síðasta kjörtímabili, hvernig sú ríkisstjórn dró kjarkinn úr þjóðinni með bölsýni, ragni og niðurdrepandi tali. En í dag er það líka rangt að auka áræði og kjark þjóðarinnar með jákvæðri umræðu umræðu um stækkun álversins. Nú er það orðið slæmt. Það var hroðalegt hvernig síðasta ríkisstjórn kom fram gagnvart þjóðinni, hvernig hún dró kjarkinn úr henni, og það er einnig hroðalegt hvernig er verið að blása málið upp eins og stjórnarandstaðan segir, hvernig er verið að vekja athygli á þessu jákvæða máli, það er líka orðið hroðalegt.

Hæstv. forseti. Það er svolítið undarlegt að sitja í ræðusal hv. Alþingis og hlusta á ræður stjórnarandstöðunnar og finna að það er viðurkennt að málið sé vissulega gott, en samt sem áður verður að leita að neikvæðu punktunum.