Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 17:31:29 (1262)

1995-11-23 17:31:29# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[17:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Vonandi fáum við þá eitthvað um það að heyra. Mér duga ekki góð orð frá þessum miðaldra raunsæismanni sem er nú tekinn til við að faðma fætur auðvaldsins og hrósa nývaknaður kl. 9 að morgni hæstv. iðnrh. fyrir það að hafa náð þessu faðmlagi við auðvaldið. Ég vil fá að sjá eitthvað á borði í þeim efnum. Ég vil fá að sjá eitthvað annað en fjárlagafrv. með niðurskornum samgöngumálum til þess að trúa, hv. þm.

Hvort hér er á ferðinni stórlax eða silungur, ég gæti kannski reynt að skjóta á svona sæmilegum sjóbirtingum ef maður tæki líkingamál úr veiðunum. Það er í rauninni ekkert merkilegt að landa laxi kl. 9 að morgni. Það er gjarnan byrjað að veiða kl. 7 eins og hv. þm. á að vita og oft gefur morgunstundin gull í mund, einnig í þessu tilviki.

Ég segi hins vegar að þetta er ekki stórlax með sínum 70--80 langtíma störfum í þessu iðjuveri borið saman við loforð Framsfl. um 12 þúsund fyrir aldamót. Ég held að hv. þm. Framsfl. væru ekki borubrattir í umræðunni hafandi nýfengið þessar atvinnuleysistölur fyrir októbermánuð ef ekki væri þetta eina mál sem þeir setja allt traust sitt á. Einhvern tíma hefðu þótt tíðindi að þingmenn Framsfl. úr landsbyggðakjördæmum ættu erindi í ræðustólinn af því tagi sem hv. þm. Guðni Ágústsson átti áðan.