Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 17:36:48 (1265)

1995-11-23 17:36:48# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[17:36]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Það hafa verið erfiðir tímar í atvinnulífi og efnahagsmálum Íslendinga á undanförnum árum. Því miður er það þannig að okkar ríka þjóð hefur ekki getað nýtt þau margvíslegu tækifæri sem hún á í auðlindum sínum. Auðlindir okkar eru í stórum dráttum ferns konar: Það er hafið sem hefur auðvitað gefið mest af sér í gegnum tíðina þó þar hafi verið samdráttur á undanförnum árum. Það er í öðru lagi fallvötnin, þar hefur því miður verið stöðnun um langt árabil að við höfum getað fengið viðbótartekjur af þessari auðlind. Það er í þriðja lagi landið sjálft sem skapar margvísleg tækifæri, bæði fyrir framleiðslu matvæla og ferðamannaiðnað og það er í fjórða lagi þjóðin, mannfólkið, hugvit okkar, þekking, tækni. Það er athyglisvert að þeir sem fjalla um atvinnuþróun á komandi tímum, sérstaklega nýrri öld, leggja höfuðáherslu á það að þær þjóðir sem rækta auðlindina, sem felst í mannfólkinu sjálfu, munu geta skapað sér bjartasta framtíð á nýrri öld.

Nú hefur það gerst að tekist hefur að skapa grundvöll fyrir því að áfanga er náð í viðbótarnýtingu einnar af þessum auðlindum, þ.e. orkuna sem felst í fallvötnum þjóðarinnar. Það sem meira er, virkjanir sem fjárfest var í á síðasta áratug og hafa að mestu leyti verið vannýttar á undanförnum árum verða nú fullnýttar með þessum samningi. Mér finnst þess vegna einsýnt að það beri að fagna þessari samningsgerð og það beri tvímælalaust að styðja það frv. sem hefur verið lagt fram á Alþingi um að staðfesta samninginn. Það er vissulega mikilvægt að sú ónýta orka sem við höfum verið með í orkukerfi landsins fái verðgildi og skapi íslensku þjóðarbúi viðbótartekjur.

Nokkuð hefur verið rætt um það í þessum umræðum hvort sá orkusamningur sem gerður hafi verið sé hagstæður eða óhagstæður, hvort orkan sé á útsöluprís eða viðunandi verði. Jafnframt hefur komið fram að stjórn Landsvirkjunar, og í henni sitja fulltrúar flokka, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hefur einum rómi lýst yfir stuðningi við samninginn. Ég get alveg látið koma fram við þessar umræður að mér finnst það orkuverð sem náðst hefur í þessari samningsgerð vera hærra og meira en ég átti von á. Ég hef satt að segja óttast það um nokkurt skeið að vegna þess að við vorum í þeirri bóndabeygju að hafa virkjað án þess að eiga viðskiptavin að orkunni á næstu árum fram að næstu öld yrði Landsvirkjun, eitt okkar stærsta fyrirtæki, að sætta sig við mun lakara orkuverð en fæst með þessum samningi.

Auðvitað er ávallt hægt að setja fram kröfur um hærra orkuverð en mín afstaða er sú að að orkuverð sem fæst með þessum samningi sé fyllilega viðunandi og jafnvel meira en það, það er hærra en ég bjóst við. Ég held þess vegna að þeir samningamenn sem hafa staðið að þessu verki eigi nokkurt hrós skilið fyrir það að hafa getað knúið fram þó þetta verð miðað við þær aðstæður sem skapaðar voru af þeim sem ákvarðanir tóku, sérstaklega á síðasta áratug, að fara út á þá hættulegu braut að virkja áður en kaupendur að orkunni væru tryggðir.

Nú er það þannig að talsmenn Framsfl. í umræðunni, sérstaklega hv. þm. Guðni Ágústsson --- og er nú leitt að hann skuli hafa yfirgefið salinn (Gripið fram í.) --- nema hann sé orðinn svona þreyttur eftir að hafa verið að veiðum frá því kl. 7 í morgun og endist ekki lengur en fram til að verða 6 --- hafa reynt að eigna Framsfl. samninginn og telja að þá fyrst með tilkomu Framsfl. í iðnrn. og orkuráðuneytið hafi þessi mikli samningur náðst. Nú er ekki í mínum verkahring að færa þessar söguskýringar á réttan veg en ég held þó að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna hvað sem líður flokkapólitík að það var fyrst og fremst í tíð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem iðnrh. og orkuráðherra sem öll meginvinnan að þessari samningsgerð fór fram. Hluti Framsfl. í þessu verkefni var kannski fyrst og fremst að binda skipið við bryggju.

Auðvitað er það þannig að sigling getur mistekist þegar menn eru að koma að bryggjunni og það er þakkarvert að þeir stímdu ekki á og komu skipinu þannig í höfn að farsællega var staðið að verki. En mér finnst það hvorki vera drengskapur né réttur málflutningur að viðurkenna ekki þá hlutdeild sem fyrrv. iðnrh. og orkuráðherra á í þessum málum. (Gripið fram í.) Ja, hér stóð t.d. upp þingmaður Framsfl., sá eini sem hefur talað hér enn sem komið er fyrir utan ráðherrann, ábyrgur maður, fulltrúi Framsfl. í bankaráðum, fjármálastofnunum og ábyrgðarmiklum nefndum þings, og fór með miklar lýsingar á því hvernig tími deyfðar og athafnaleysis hefði liðið þegar Framsfl. tók þessi mál í sínar hendur og þá fyrst þegar hann hefði haldið á veiðistönginni hefði þessi mikli lax náðst. Ég ætla hins vegar ekki að gera þetta að meginefni í ræðu minni en mér fannst óhjákvæmilegt í ljósi síðustu orðaskipta að láta þetta koma fram.

[17:45]

Afstaða mín er eindregið skýr. Ég tel að þessi samningur sé mikilvægur áfangi í því að nýta þær orkulindir sem hér hafa verið vannýttar, hann sé jákvætt skref í því að renna traustari stoðum undir íslenskt efnahagslíf og það beri tvímælalaust að samþykkja hann hér á Alþingi. Hins vegar held ég að það sé líka mikilvægt að allir sem mæla með því að samningurinn sé afgreiddur jákvætt á Alþingi lesi ekki falskar vonir eða rangar ályktanir um atvinnuþróun Íslendinga á komandi árum inn í þá umræðu. Staðreyndin er sú að framtíðaruppbygging atvinnulífs Íslendinga á 21. öldinni getur ekki byggst á orkufrekum iðnaði þó að að sé mikilvægt að hafa hann með. Framtíðaruppbygging atvinnulífs á Íslandi á 21. öldinni hlýtur að byggjast á störfum sem sótt eru í upplýsingaiðnað, þjónustugreinar, hátækni af því tagi þegar við nýtum hugvit og þekkingu þjóðarinnar sjálfrar og annað af því sem slíkar atvinnugreinar byggjast á. Það er mjög mikilvægt að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á atvinnuþróuninni skilji þetta. Við getum ekki vænst þess að halda góðum lífskjörum á nýrri öld með því að vera fyrst og fremst hráefnisútflytjendur annars vegar í sjávarútvegi og hins vegar í orkufrekum iðnaði. Ef það verður hlutskipti okkar í auknum mæli á nýrri öld er nánast vonlaust að íslensk þjóð geti í aukinni alþjóðlegri samkeppni haldið traustum lífskjörum og styrkt þau. Ég bið þess vegna hæstv. iðnrh. og viðskrh. að huga rækilega að þessari hlið málsins í málflutningi sínum. Annars er hann að mínum dómi að bregðast hlutverki sínu sem iðnrh. og viðskrh. í ríkisstjórn á síðustu árum þessarar aldar þegar við eigum að vera að búa okkur undir vaxtarskeið þeirra atvinnugreina sem munu fyrst og fremst ráða alþjóðlegri samkeppni í hagkerfi 21. aldarinnar. Það er ekki stóriðja, hæstv. iðnrh., það er ekki hráefnisframleiðsla af öðru tagi.

Í umræðunni hefur nokkuð verið vikið að umhverfisþættinum. Vissulega er hann vandmeðfarinn og ég tel mjög mikilvægt að hæstv. umhvrh. geri á Alþingi í meðferð málsins skýra grein fyrir rökum sínum og ákvörðunum varðandi starfsleyfi. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að það er ekki gott, hæstv. umhvrh., að það liggi í loftinu án þess að því sé svarað mjög ítarlega að horfið hafi verið frá eðlilegum umhverfisverndarkröfum í þessu máli. Í þessum efnum geri ég greinarmun á annars vegar ýtrustu kröfum og hins vegar eðlilegum kröfum. Ég held þess vegna að í umræðunni um umhverfisþáttinn verði menn að átta sig á því að það er þó nokkur munur á því sem í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál er hægt að telja ýtrustu kröfur og svo hins vegar það sem eru eðlilegar kröfur. Hér hefur verið notað hugtakið ,,Best Available Technology`` og haldið fram því sjónarmiði að tvímælalaust eigi að gera kröfur um það að í álverinu í Straumsvík og öðrum slíkum verksmiðjum sem hér kunna að verða reistar eigi að nýta mest af ,,Best Available Technology`` eins og það heitir í almennri umræðu og bið ég forláts á því að nota enska heitið en það sýnir kannski hve lítt töm þessi umræða er okkur að allir þeir sem það hafa rætt hér hafa brugðið fyrir sig því enska heiti.

Ég ætla að vera í hópi þeirra manna sem síðastir leggjast gegn því að slík tækni sé notuð. Hins vegar set ég líka fram það sjónarmið að ég tel það ekki vera úrslitaatriði hvort hún er notuð eða ekki heldur hljóti menn þá að skoða ef hún er ekki notuð hvaða önnur tækni er notuð og hvort hún felur þá í sér það sem hægt er að fallast á að sé viðunandi og eðlileg kröfugerð á sviði umhverfismála. Ég held þess vegna, hæstv. umhvrh., að það sé mjög mikilvægt að um þessi mál ...

(Forseti (ÓE): Forseti þarf að minna enn einu sinni á af því að hann hefur gert það þegar í dag að menn beina ekki ræðum sínum beint til einstakra þingmanna eða ráðherra.)

Nei. Ég vil, virðulegi forseti, þá leggja áherslu á það að hæstv. umhvrh. geri skýra grein fyrir því í meðferð þingsins hvernig hann sér þetta mál í víðtæku samhengi. Mér sýnist hins vegar fljótt á litið, en skal taka það fram að ég tel að það mál þurfi nánari skoðun, að sá grundvöllur sem starfsleyfið er byggt á sé með þeim hætti að það geti ekki orðið grundvöllur fyrir því að menn taki afstöðu á móti málinu á Alþingi. Vissulega er hægt að halda því fram að meiri kröfur hefði átt að gera og það geti verið æskilegt en eins og starfsleyfið liggur fyrir er ekki grundvöllur fyrir því að hafna málinu á Alþingi.

Virðulegi forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessari ræðu mun ég styðja það frv. sem er til umræðu. Ég tel það vera mikinn áfanga að því að nýta orkulindir, sem við höfum lagt mikla fjárfestingu í að nýta, en ég vara hins vegar við því að menn leggi of djúpan skilning í það að þessi framkvæmd muni valda einhverjum straumhvörfum í atvinnuuppbyggingu Íslendinga á næstu árum, það mun hún ekki gera. Það er mikill misskilningur af hálfu hæstv. ríkisstjórnar ef hún telur að með samþykkt þessa frv. á Alþingi sé búið að ná þeim áfanga í baráttunni gegn atvinnuleysi að fleira þurfi ekki að gera á næstunni. Það verk er að mestu óunnið.