Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 17:52:40 (1266)

1995-11-23 17:52:40# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[17:52]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er það eðlilegt, eins og fram kom í ræðu hv. síðasta þm., að umhvrh. geri nokkra grein fyrir málunum sem hann varðar eða snúa að umhverfisþáttum þess veigamikla máls sem hér er rætt. Ég valdi þann kost þó að bíða eftir umræðunni og sjá hvað kæmi fram í henni sem þyrfti að svara sérstaklega og auðvitað hefur nokkrum atriðum verið beint til mín. Svo hefur verið almenn umræða um skoðanir manna á því hvernig staðið hefur verið að umhverfisþættinum en ég mun fyrst og fremst fjalla um hann í orðum mínum.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði í upphafi umræðunnar að það væru sér mikil vonbrigði að ekki skyldi fastar kveðið að í sambandi við umhverfismálin og að ekki skyldu vera gerðar strangari kröfur um að nota bestu tækni sem fáanleg er talin nú í dag við útgáfu starfsleyfisins. Auðvitað getur mönnum sýnst sitthvað um það, en afstaða umhverfisyfirvalda, Hollustuverndar ríkisins, umhvrn. og að lokum umhvrh., þegar hann gefur út starfsleyfið, er að taka tillit til ákveðinna þátta eða ákveðinna staðreynda.

Nú er í fyrsta skipti gefið út starfsleyfi fyrir rekstur álverksmiðju Ísals, þ.e. bæði fyrir gamla og nýja hlutann, því að það hefur verið svo að við höfum orðið að sæta því að undanförnu að ákvæði í aðalsamningi hafa gilt. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt mál. Ég tel að það sé stórt skref sem er stigið með því að nú er þessari glímu lokið og fyrirtækið undirgengist að starfsleyfi fyrir alla verksmiðjuna er gefið út af hálfu umhverfisyfirvalda.

Í framhaldi af þessu legg ég áherslu á að ekki er verið að ræða um nýtt álver heldur stækkun á álveri sem fyrir er. Þar er forsenda þess að ákveðið er að heimila að nota sömu kertækni í nýja hlutanum og í eldri hluta verksmiðjunnar. Þetta atriði hefur mikið verið gagnrýnt, þ.e. að það skuli vera niðurstaðan að við sættum okkur við að nota sömu tækni og er í verksmiðjunni.

Ég tel að besta fáanlega tækni sé notuð til hreinsunar án vothreinsibúnaðarins miðað við að sætta sig við þurrhreinsunarbúnaðinn. Ég tel að fullyrða megi að það þjóni ekki neinum tilgangi að krefjast vothreinsibúnaðar í nýja hlutanum en ekki í þeim eldri sem er reyndar stærri hluti verksmiðjunnar og rekinn samkvæmt lögum hingað til og menn hafa orðið að sætta sig við það. Einnig má fullyrða að kröfur um hreinsun miðað við tækni verksmiðjunnar séu þær bestu sem hægt er að uppfylla miðað við að sætta sig við þá kertækni sem þar ríkir.

Þó skiptir mestu máli hver eru líkleg áhrif óumflýjanlegrar mengunar frá stækkuninni. Allar kröfur mengunarvarnareglugerðar um umhverfisgæði eru uppfylltar í starfsleyfinu. Ég vil svara því sem hv. seinasti ræðumaður, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, beindi til mín um hvort horfið væri frá eðlilegum umhverfisverndarkröfum. Með því að við teljum að með starfsleyfinu séu uppfylltar þær kröfur sem mengunarvarnareglugerðin gerir ráð fyrir, erum við í raun að gefa út starfsleyfi sem við getum verið ásátt með. Með því ríkir líka meiri vissa um áhrif verksmiðjunnar allrar, eftir stækkun, á umhverfið en miðað við núverandi starfsemi. Á undanförnum árum hafa verið stundaðar mengunarmælingar í lofti í nágrenni verksmiðjunnar þannig að safnast hefur upp mikilvæg viteskja sem nýtt hefur verið og hægt verður að nota í framtíðinni til þess að meta áhrif verksmiðjunnar á umhverfið.

Þess má geta að mælingar á flúor í jarðvegi og gróðri í nágrenni verksmiðjunnar, sem staðið hafa yfir frá því að verksmiðjan tók til starfa, sýna í dag svipað magn og var áður en hún tók til starfa. Af því má draga þá ályktun að um sé að ræða óveruleg áhrif af völdum flúors á umhverfið.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að þetta komi fram og ég hygg að það hafi verið hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem spurði um hvort við gerðum ekki ýtrustu kröfur. Spurning hennar er náttúrlega að hluta til svarað með því að það er til betri kertækni sem er þannig að ekki þarf að opna kerfin við áltöku. Það hefur áhrif á það magn mengunarefna sem losuð eru út um kerskálarjáfur eða þak en ástæða þess að ekki er gerð krafa um þessa tækni er eins og áður segir sæst er á sömu kertækni og í núverandi hluta álversins og þurrhreinsibúnaðurinn verður samkvæmt bestu tækni eins og ég hef áður nefnt.

[18:00]

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði m.a. um áhrifin af samningsdrögunum við Ríó-sáttmálann um loftslagsbreytingar og hvernig þetta starfsleyfi samrýmdist þeim samningsdrögum sem þar liggja fyrir og þeirri stefnu sem þar er verið að móta. Og ég vil í því sambandi segja við hv. þm. að við vitum að koltvísýringurinn er efni sem losað er út í andrúmsloftið í miklu magni og kemur auðvitað fyrst og fremst af brennslu á kolum og olíu. Okkar vandi í þessu efni er kannski ekki síst okkar stóri fiskiskipafloti, sem við eigum auðvitað erfitt með að finna aðra tækni fyrir til að draga úr þessari mengun.

En varðandi álverið og þær framkvæmdir, þ.e. framleiðslu á rafmagni til álversins, er auðvitað ljóst að þær aðferðir sem þar er beitt, þ.e. að framleiða rafmagn eins og við gerum, hefur minni áhrif til mengunar en ef það væri gert með öðrum hætti, eins og reyndar kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Ég tel að það sé veigamikill þáttur í þessu máli. Menn hafa ekki eingöngu áhyggjur af koltvísýringi vegna svæðis- eða staðbundinnar mengunar, það er náttúrlega vegna heimsáhrifa, eða það sem menn kalla nú stundum á slæmu máli glóbal-áhrifa. En raforkan sem hér er framleidd er þá þess eðlis að við erum að leggja til betri aðferð við framleiðslu áls, heldur en ef það væri gert með rafmagni sem framleitt væri við kol eða olíu.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um störf úrskurðarnefndar, sem reyndar kom einnig fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ég verð að segja að hvorki tel ég mig geta né heldur vil ég svara neinu um það hvernig sú nefnd vinnur sín störf. Ég hygg, án þess að ég hafi getað aflað mér nákvæmra upplýsinga á meðan umræður hafa staðið yfir hér, að hún hafi í raun ekki ákveðin frest til þess að vinna sín störf, það sé ekki í reglugerðinni kveðið á um það að hún skuli hafa lokið störfum fyrir einhvern ákveðinn tíma. En það má sjálfsagt reikna með því að það taki einhverja vikur, kannski allt að þremur mánuðuðum. Um það þori ég ekki að fullyrða. Ég blanda mér ekki að öðru leyti í þau mál.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var síðan með ýmsar athugasemdir og hefur einnig fjallað um málið á öðrum vettvangi, eins og fram kom í hans máli. Hann spurði m.a.: ,,Er mönnum sama um loftgæði hér í þéttbýlinu? Er mönnum sama um það hvernig kröfur við gerum og hvernig við stöndum að því að fylgjast með því sem er að gerast?`` Þess vegna vil ég að það komi fram að gerðar hafa verð nokkuð miklar mælingar á ástandinu varðandi brennisteinsdíoxíðið. Það hafa verið mæld gildi sem eru langt undir viðmiðunarmörkum. Það er rétt að taka fram að samkvæmt leiðbeiningum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er talið að viðkvæmt fólk, fólk með öndunarfærasjúkdóma, fari að finna fyrir mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs þegar styrkleiki þess er orðinn um 250 míkrógrömm á rúmmetra að meðaltali yfir sólarhringinn, eða 100 míkrógrömm að meðaltali á heilu ári. Mörk eru sett fram í mengunarvarnareglugerðinni sem taka mið af viðkvæmum lággróðri í þessu sambandi og er talið að hann þoli um 30 míkrógrömm á rúmmetra. Einnig var mældur styrkur loftkennds flúors og heildarflúors yfir sex mánaða tímabil á Hvaleyrarholti. Meðalstyrkur loftkennds flúors yfir þetta tímabil mældist 0,08 mígrógrömm á rúmmetra og hæsta sólarhringsgildi mældist 1,19 míkrógrömm. Það má auðvitað telja upp fleiri tölur í þessu sambandi en þetta sýnir að mæld mengun er langt innan þeirra marka sem talin er hættuleg heilsu manna og jafnframt innan marka fyrir gróður. Við teljum því að með þeim kröfum sem gerðar eru og starfsleyfum sem gefin eru út, séum við langt innan við þau mörk sem mengunarvarnareglugerð okkar gerir ráð fyrir.

Hv. þm. ræddi nokkuð um mörkin 0,65 kg/tonn áls sem gæti hækkað, eins og hér kemur fram og vitað er ef um hreinál er að ræða um 0,2 samkvæmt okkar leyfi í 0,85 kg/tonn samtals, en sagði að viðmiðun sem kemur fram í Parísarsáttmálanum væri 0,6 kg á tonn áls. Það er auðvitað rétt að það komi einu sinni enn fram að þar er verið að miða við ný álver, það er sú krafa sem gerð er til nýrra álvera. Við erum hins vegar að tala um nýjan hluta álversins sem er viðbygging eða stækkun á eldra fyrirtæki. Og þá varð það niðurstaðan að sætta sig við mörk sem eru þó örlítið hærri, 0,65 á móti 0,6.

Hvað spurningu hv. þm. um fordæmi fyrir aðra álframleiðendur varðar, vil ég að það sé skýrt af minni hálfu í þessari umræðu að það er ekki verið að gefa fordæmi fyrir ný álver þegar við erum að tala um stækkun á álveri sem hér er fyrir og hefur starfað lengi.

Í því sambandi má kannski vitna til þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar þegar hann ræddi um orkuverð að hann taldi að þó hann sætti sig við það orkuverð sem nú er samið um varðandi þetta fyrirtæki, þá teldi hann það ekki fordæmisgefandi fyrir raforkuverð til annarra fyrirtækja. Ég vil líka að það komi fram, hæstv. forseti.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði m.a. í ræðu sinni að viðmiðunarmörk hér hjá okkur væru eftir stækkunina í álverinu 1,4 kg fyrir tonn áls. Það er til skemmri tíma, markið er 1 kg fyrir allt álverið. Hann bar þetta saman við 0,4 í Noregi, sem eru þau mörk sem Norðmenn hafa hugsað sér að setja, en það er ekki enn komið á í neinu álveri sem þar starfar. Þar er markið hærra, þótt þeir kunni að ætla sér þetta mark þegar frá líður.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á það í greinargerð með frv., þar sem fjallað er um að stjórn Hollustuverndar hafi sent umhvrh. endanlegar tillögur sínar. Það verður að koma hér fram af minni hálfu að það er stofnunin sem slík. Það er auðvitað Hollustuvernd ríkisins sem sendir umhvrh. sínar tillögur. Hér er um ónákvæmt orðalag að ræða. Umhvrh. gefur auðvitað út hið endanlega starfsleyfi, en þetta eru tillögur stofnunarinnar sem það starfsleyfi byggir að sjálfsögðu á.

Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort það eru mörg atriði í viðbót sem ég á að taka til varðandi það sem fram hefur komið hjá mönnum. Hv. þm. hafa margir sett fram hér skoðanir sínar á ýmsum hlutum. Ég held að ég hafi reynt að svara því sem hefur verið beint til mín beinlínis í spurningarformi, þótt ýmislegt fleira mætti auðvitað fjalla um í umræðunni sem gæti verið álitamál. En ég vil undirstrika og ítreka að ég tel útgáfu þessa starfsleyfis fyllilega ásættanlega. Hún uppfyllir þær kröfur sem við gerum í löggjöf okkar og mengunarvarnareglugerð, og það skiptir okkur höfuðmáli. Þar er tekið tillit til þess að hér er um að ræða stækkun á eldra fyrirtæki og í mínum huga hefur það ekki fordæmisgildi fyrir ný álver sem kynnu að fylgja í kjölfarið. Þá verða umsóknir þeirra skoðaðar sjálfstætt.

Það var kannski aðeins eitt, hæstv. forseti, sem ég vildi segja vegna spurningar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem hann beindi til síns ágæta vinar, eins og ég held að hann hafi orðað það, landbúnaðar- og umhvrh., varðandi atvinnumál, atvinnustig og byggðaþróun og ræddi hann þar sérstaklega um samgöngumálin. Ég vil líka að það komi skýrt fram að ef fleiri sýna því áhuga að reisa hér álver, þótt ég ætli ekki að reikna með því fyrir fram að úr því verði, þá tel ég að stjórnvöld verði auðvitað að taka tillit til þess í sínum verkefnum, hafa það fyllilega í huga og framkvæmdir eiga að taka mið af því. Ég lít svo á að það sé fyllilega réttlætanlegt, ef mikið er um að vera á vissu svæði í einum landshluta, að stjórnvöld grípi inn í hvað varðar fjárfestingu og þá ráðstöfun fjármuna sem ríkisvaldið eða jafnvel sveitarfélög hafa með að gera í því samhengi. Hvað stækkun álversins í Straumsvík varðar er það trúlega ekki stórt áhyggjuefni. Hún er auðvitað mikilvægur áfangi í því að auka hér atvinnu og styrkja efnahagslífið, en ekki svo að það valdi umtalsverðri þenslu í þjóðfélaginu. En það gæti auðvitað orðið ef framhald verður á og þá verða stjórnvöld vissulega að taka tillit til þess.