Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:15:57 (1269)

1995-11-23 18:15:57# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:15]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra um hvaða túlkun beri að leggja í þetta, hvaða orð beri að velja þessu. Hér er um rangfærslu að ræða, rangfærslu sem skiptir miklu máli í sambandi við hvernig staðið er að mótun tillagna og síðan útgáfu á grundvelli þeirra. Í lögum um Hollustuvernd ríkisins stendur í 14. gr.:

,,2. Stjórnin hefur undir yfirstjórn ráðherra æðsta vald í málefnum stofnunarinnar, mótar stefnu hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri.``

Svo er vísað í starfsmenn þessarar stofnunar, að þeir hafi skilað þessum tillögum til ráðherra. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að farið verði yfir allt það svið hvernig haldið er á málum með tilliti til laga um þessa stofnun og þetta atriði verður auðvitað að skoða nánar. Öll þessi málafylgja er núna fyrir úrskurðarnefnd eins og fram hefur komið og skýrist kannski í meðferð hennar. Ég vara hæstv. ráðherra við vinnubrögðum af þessum toga og ég vænti þess að ráðuneyti hans gæti sín betur í sambandi við mál af þessu tagi og það sé full þörf á að vanda formlega þætti í sambandi við slík mál því að það varðar miklu um stöðuna í heild sinni.

Ég gat þess í ræðu minni að ráðherra hefði kveðið fast að orði að starfsleyfi sé endanlegt eins og það liggur fyrir. Ég mundi ekki vera svo viss, virðulegi forseti. Ég mundi ekki vera svo viss í ljósi þess sem fram hefur komið í umræðunni.