Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:18:15 (1270)

1995-11-23 18:18:15# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:18]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta umræðu og málefnalega. Ég finn að þetta mál hefur nokkuð víðtækan stuðning þó svo ég geri mér grein fyrir því að það séu að nokkru leyti skiptar skoðanir um einstaka þætti málsins. Það örlar örlítið á því hjá einstökum hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hafa talað um að hæstv. ríkisstjórn væri ríkisstjórn kyrrstöðunnar og stöðnunar en með samningnum sem íslenska ríkisstjórnin hefur gert við Alusuisse-Lonza hefur sú kyrrstaða verið rofin sem hefur ríkt í áratugi og því er kannski sárt fyrir stjórnarandstöðuna að þurfa að viðurkenna að svo sé.

Hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur kom fram að menn væru fullmikið að gera úr þessum áhrifum og þessum samningi. Ekki væri jafnmikið viðhaft þegar einstök rækjuskip bættust í flotann eða þegar menn hefðu í huga þau miklu umsvif sem Flugleiðir væru að ráðast í. Þetta er allt saman hárrétt. Sem betur fer er það svo að mjög mikil batamerki eru í íslensku atvinnulífi einmitt um þessar mundir. Fyrirtækin eru að fara út í fjárfestingar, auka umsvif sín af miklum krafti og því ber auðvitað sérstaklega að fagna. Dæmi um þetta er að á níu fyrstu mánuðum ársins 1995 hefur útflutningur iðnaðarvöru hefur aukist um 48%. Í hvaða greinum er þetta að gerast? Það er í nýjum iðngreinum eins og hugbúnaðinum eins og hv. þm. Ólafur Rangar Grímsson kom inn á áðan að menn mættu ekki gleyma í þeirri miklu umræðu sem fer nú fram um stóriðjuna. Það er í lyfjaframleiðslunni, það er í ýmiss konar tækjabúnaði og tæknibúnaði á sviði matvælaframleiðslu. Þetta eru þessir nýju vaxtabroddar sem núna eru að koma upp í iðnaðinum og þessu ber auðvitað að fagna. Ef mönnum tekst að hlúa að þessum vaxtarsprotum sem þarna eru til staðar trúi ég því að við verðum betur staddir að fjórum árum liðnum. Við skulum ekki verða með hrakspár í upphafi kjörtímabils en ég skynja það hjá einstökum hv. þm. stjórnarandstöðunnar að þeir vonast til þess að Framsfl. takist ekki í þessari ríkisstjórn í samstarfi við Sjálfstfl. að skapa þau 12 þúsund nýju störf sem menn tala um að þyrfti að stefna að fram til aldamóta. Ég trúi því ekki að það sé von stjórnarandstöðunnar að þetta ætlunarverk muni ekki takast.

Það eru grafalvarlegar tölur sem hv. þm. Svavar Gestsson veifaði um atvinnuleysið og það er full ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af slíku. En ríkisstjórnin hefur ekki starfað nema í um það bil hálft ár. Hún er að leggja grunninn að nýrri atvinnustefnu til framtíðar, hún er að leggja grunninn í fjárlagagerðinni fyrir árið 1996. Eins og hv. þm. Guðni Ágústsson kom inn á áðan, og ég ætla ekki að endurtaka, að gangi það eftir að lækka vextina, auka hagvöxtinn, auka framleiðsluverðmætin í þjóðfélaginu mun það ganga eftir að menn munu geta þegar upp er staðið í lok kjörtímabilsins losnað við atvinnuleysið að langstærstum hluta.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að menn verða auðvitað að horfa á fleiri þætti í þessu en bara stóriðjuna. Því miður hafa menn gert allt of mikið af því á undanförnum árum að blína einvörðungu á stóriðjukostina og kannski álið alveg sérstaklega. Þess vegna er á vegum viðskrn. og iðnrn. farið af stað öflugt starf í sérstöku átaki til atvinnusköpunar þar sem við leitum samstarfs við iðnaðinn í landinu, þar sem við leitum samstarfs við verkalýðshreyfinguna, sjóðina, Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð. Við erum vonandi núna um næstu mánaðamót að setja af stað öflugt átak um næstu mánaðamót í útflutningi á sælgæti sem hefur ekki verið reynt áður. Viðskrn. er núna að skipa nefnd um þessar mundir til að móta framtíðarstefnu fyrir íslenska upplýsingasamfélagið sem hefur ekki verið gert fram undir þetta. Við verðum með öfluga herferð í gangi gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum, til að koma upplýsingum á framfæri út í þessi fyrirtæki, hvernig þessi fyrirtæki geta nýtt sér þau tækifæri sem búa að baki samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, þá kosti sem þar eru, á sviði markaðsmála, á sviði rannsókna, tækni og vísinda. Þetta starf er allt saman í gangi og fleira gæti ég tínt til aðeins til þess að róa hv. þm. Það er verið að vinna að fleiri kostum, hv. þm., en bara álmálum og stóriðjukostum en þar þurfa menn auðvitað að hafa opin augun líka.

Ég held að ekki sé skynsamlegt að deila um hver eigi upphafið að þessu öllu saman, þessum stóra samningi sem markar tímamót í iðnsögu þjóðarinnar því að þetta er stærsti einstaki fjárfestingarsamningur við erlenda aðila sem gerður hefur verið síðan 1966 þegar samningurinn um byggingu álversins var gerður. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. og hæstv. fyrrv. um ráðherra um það hver hafi verið upphafsmaðurinn að þessu öllu saman. En eitt held ég að sá sem hér stendur og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson getum verið sammála um. Það er það að hefðu þeir stjórnarandstæðingar, sem hafa talað í dag og látið í það skína að þeir væru á móti samningnum, setið í stól iðnrh. þennan tíma sem ég hef gegnt því embætti þá hefði samningurinn ekki verið gerður vegna þess að það hefur komið fram hjá þessum hv. þm. að þeir eru á móti samningnum en þora því miður ekki almennilega að láta það koma fram við umræðuna.

Um það var spurt hverju það sætti að það væri ýmist talað um 90 framtíðarstörf í álverinu eða 72. Ástæðan er sú að beinum störfum í álverinu mun fjölga um 72 en 18 störf eru staðbundin störf verktaka á svæðinu. Það er skýringin á því að menn tala ýmist um 72 eða 90 varanleg störf.

Það er ljóst að ekki er hægt að skattleggja Ísal öðruvísi en gera það í heild sinni. Það er ekki hægt að skattleggja viðbygginguna eða stækkunina annars vegar og svo eldra fyrirtækið hins vegar. Það er rétt að heildargreiðsla lágmarksgjaldsins mun ekki hækka eftir stækkunina á fyrstu árum. Það er hárrétt eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan. Hitt er jafnmikilvægt að líkur eru á því að tekjuskattsgreiðslurnar tvöfaldist miðað við það sem ella hefði orðið. En við verðum að horfa á það að fastagjaldið er ekki heldur að lækka. Það stendur í stað vegna þess að það er greitt af fleiri tonnum en áður var. Hefðu menn ekki farið út í stækkun hefði ekki orðið um neina viðbót að ræða.

Hins vegar er gert ráð fyrir því að árið 2014 verði fastagjaldið hækkað samkvæmt verðbreytingum sem orðið hafa á tímabilinu. En árið 2004 breytist eðli fastagjaldsins úr því að dragast beint frá tekjuskattinum áður en hann er greiddur út yfir í það að verða kostnaðartengt og fer inn í reksturskostnaðinn og dregst frá tekjunum áður en hagnaður er reiknaður. Á því er talsvert mikill eðlismunur þannig að tekjurnar af fastagjaldinu munu í raun hækka árið 2004.

Á fyrstu sjö árunum er gert ráð fyrir því að skatttekjurnar hækki ekki þrátt fyrir stækkunina. Aftur á móti eftir sjö árin er gert ráð fyrir því að skatttekjurnar af álverinu geti allt að því tvöfaldast þrátt fyrir að ekki sé um helmingsstækkun að ræða heldur er aðeins um 60% stækkun en það leiðir af því að hagnaður fyrirtækisins mun verða mun meiri vegna þeirrar hagkvæmni sem kemur út úr þessu. Hins vegar ræðst þetta auðvitað allt af því hver þróunin verður á álmörkuðunum vegna þess að afkoma fyrirtækisins ræðst algerlega af því hvernig verð á áli mun þróast. Heildarskatttekjur fyrirtækisins á næstu 20 árum aðrar en launaskattur eru á föstu verðlagi áætlaðar þessar: Lágmarksskattar gætu verið 2--2,4 milljarðar. Tekjuskattsgreiðslurnar gætu orðið á þessu tímabili 15--25 milljarðar. (SighB: Á hvaða tímabili?) Á næstu 20 árum. Þá gætu lágmarksskattarnir orðið 2--2,4 milljarðar en tekjuskattsgreiðslurnar gætu orðið 15--25 milljarðar og þá er auðvitað verið að reyna að áætla hvert álverðið gæti verið. Ég þori að fullyrða að menn fara mjög varlega í þeim efnum, kringum 1.700--1.750 dollarar fyrir tonnið. Hins vegar verður tekjuskattsaukinn fyrir ríkissjóð vegna stækkunarinnar 7,5--12,5 milljarður vegna þessara samninga. Ef ekki hefði verið ákveðið að ráðast í þessa stækkun hefði ríkissjóður orðið af þessum væntanlegu tekjum sem þarna verða til.

[18:30]

Varðandi orkusamninginn er það ósk fyrirtækisins, ósk stjórnar Landsvirkjunar, að vegna viðskiptalegra hagsmuna fyrirtækisins hvíli leynd yfir því hvert orkuverðið er sem samið hefur verið um, þ.e. hver sú orkuformúla er sem samið hefur verið um. Og það er algerlega út í loftið að fullyrða eitthvað varðandi orkuverð, hvort sem menn tala þar um 12, 15, 16 eða 10 mill. Orkuverðið mun ráðast af því hvert álverðið verður á þeim tíma þegar álverksmiðjan fer af stað, þannig að á þessari stundu er ekki hægt að segja nákvæmlega hvert það orkuverð muni verða.

Stjórn fyrirtækisins hefur óskað eftir að yfir þessu hvíli þessu leynd og ég vil halda trúnað við það. Ég hef hins vegar sagt, bæði við forstjóra fyrirtækisins og einstaka stjórnarmenn þess, að mér þyki eðlilegt að iðnn. Alþingis verði upplýst nákvæmlega um það hver orkuformúlan er, vegna þess að enn er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það, hvert orkuverðið verður. Ég hef rætt við forstjóra fyrirtækisins um að iðnn. verði gerð nákvæm grein fyrir þessu og fái ítarlega kynningu á orkusamningnum, þannig að það verði með eins glöggum og góðum hætti af hálfu þingsins hægt að leggja mat á þetta og nokkur kostur er.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort ég teldi að það orkuverð sem nú væri verið að semja um væri fordæmisgefandi um aðra samninga sem hugsanlega yrðu gerðir. Ég tel að svo sé alls ekki, þetta hlýtur alltaf að verða ákvörðun stjórnarfyrirtækisins. Við verðum að hafa greinilega í huga að það er stjórn fyrirtækisins sem semur um orkuverð og tekur ákvarðanir um það sem hún telur eðlilegt verðlag á orkueininginu. Það er stjórn fyrirtækisins sem tekur endanlega ákvörðun um það orkuverð sem samið er um. En það orkuverð hlýtur auðvitað að taka mið af þeim kostnaði sem þá hefur fallið til, þeim flýtingarkostnaði sem nauðsynlegt er að fara út í, ef til aukinnar stóriðju kemur.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvort ég treysti mér til að gefa upp framleiðslukostnaðarverð fyrirtækisins, eins og Landsvirkjun teldi það vera í dag. Það hlýtur að ráðast af því hvernig menn raða upp virkjunarkostunum, hvaða orkuöflunarkosti menn ráðast í. Því er ekki á þessari stundu hægt að segja til um hvert kostnaðarverðið muni vera.

Það kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni áðan að kaupendur og viðsemjendur Landsvirkjunar hefðu haft orkukostnað Landsvirkjunar á reiðum höndum í samningum áður fyrr. Landsvirkjun gaf út á sínum tíma upplýsingar sem hún vildi að lægju fyrir til þess að auðvelda erlendum fjárfestum að meta stöðuna og hver þau orkukostnaðartilboð væru sem stofnunin byði upp á. Ég hef þá trú að eftir að stjórn fyrirtækisins hefur óskað eftir því að leynd hvíli yfir gerð þessa orkusamnings, þá muni slíkar upplýsingar a.m.k. ekki verða á reiðum höndum fyrir þá sem ætla sér í samninga við fyrirtækið.

Hv. þm. Svavar Gestsson hóf mál sitt á því að rifja upp þann árangur sem Alþb. hefði náð á árum áður í því að hækka orkuverðið. Ég geri ekkert lítið úr því að orkuverð hækkaði á þeim tíma og var full ástæða til. Séu menn hins vegar ánægðir með það orkuverð sem menn hafa getað pínt út og náð í samningum við álverið eins og það er núna, þá hljóta menn að vera enn ánægðari með það orkuverð sem nú hefur verið samið um, vegna þess að það er talsvert miklu hærra. Ef sá samningur sem við höfum nú náð um orkuverð flyttist yfir á Ísal eins og það er rekið í dag, skilaði hann mun meiri tekjum til Ísals en nú er. Þessir samningar verða sameinaðir 2004, og þar af leiðandi mun arður fyrirtækisins enn aukast. Það er auðvitað full ástæða til að þakka þeim samninganefndarmönnum sem að þessu verki hafa komið, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kom inn á áðan. Ég tek undir það með hv. þm. að ég gat alveg eins átt von á því að við þyrftum að semja um lægra orkuverð en raunin varð, vegna þess að auðvitað vissu allir sem leituðu eftir samningum við okkur um þá miklu umframorku sem hér er að hafa.

Hins vegar er gleðilegt að flestallir stjórnmálaflokkar hafa lagt áherslu á það í kosningastefnuskrám sínum og almennt í samþykktum sínum, hvort sem það eru kallaðir landsfundir, miðstjórnarfundir eða annað, að það sé réttlætanleg skammtímalausn að selja orkuna á lægra verði. Þá er ég ekki að tala um undir kostnaðarverði, heldur að selja hana tímabundið á lágu verði til þess að draga að erlenda fjárfesta og nýta auðlind sem fram að þessu hefur verið ónýtt. M.a. kemur þetta skýrt fram í gagnmerkri bók Alþb., Útflutningsleiðinni, að þetta sé sé sú leið sem Alþb. vill fara í þessum efnum.

Það hefur líka komið fram hjá mörgum stjórnmálaflokkum að það geti verið skynsamlegt að veita fyrirtækjum tímabundinn skattafslátt til þess að draga að erlenda fjárfestingu, auka hagvöxtinn, auka framleiðsluverðmætin og skapa ný atvinnutækifæri. Þetta kemur líka fram á bls. 80 í þessari ágætu bók Alþb. Sem betur fer eru því allir stjórnmálaflokkar sammála um að þetta sé leið til að draga að erlenda fjárfesta. Og ég held líka að við séum flestöll sammála um þörfina á þeim.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um orkuverðið til Ísal. Ég treysti mér ekki til þess að greina frá því hér hvert það er. (JóhS: Ég spurði hvort það væri einhver lönd sem byðu sambærilegt verð á orku.) Já, það má fullyrða að það orkuverð sem samið er um er mjög sambærilegt og t.d. í Kanada. Hafi ég hins vegar skilið hv. þm. rétt, var spurt um orkuverðið til Áburðarverksmiðjunnar og járnblendiverksmiðjunnar í samanburði við Ísal. Ég tel að stjórn fyrirtækisins ætti sjálf að gera grein fyrir slíku, ef hún telur það eðlilegt, þar sem ég tel að stjórn Landsvirkjunar hafi nú breytt um stefnu í þessum efnum með ályktun sinni. Það verður ekki lengur svo að orkusamningar, sem fyrirtækið gerir, liggi sem þingskjöl eða séu í umræðum á þingskjölum. Hins vegar get ég sagt það að Áburðarverksmiðjan greiðir lægra verð en Ísal í dag og járnblendiverksmiðjan greiðir lægra verð en Áburðarverksmiðjan, þótt munurinn sé lítill. En við verðum að hafa það í huga að það eru sennilega ekki nema tæp þrjú ár síðan Íslenska járnblendifélagið rambaði á barmi gjaldþots og með sérstökum afsláttarsamningum sem þá voru gerðir af hálfu Landsvirkjunar við það fyrirtæki tókst að bjarga því. Nú græðir það verulega fjármuni og þess vegna verðugt að velta því fyrir sér hvort ekki getið verið skynsamlegt að fara út í aukna fjárfestingu, stækka fyrirtækið. Engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum efnum, en þetta er eitt af því sem stjórn fyrirtækisins er núna að skoða. Og fari ég rétt með, það veit reyndar hv. þm. Svavar Gestsson mun betur vegna þess að hann situr í stjórn Landsvirkjunar, þá er Íslenska járnblendifélagið farið að endurgreiða þann afslátt sem Landsvirkjun veitti fyrirtækinu á sínum tíma til að bjarga því út úr þeim erfiðleikum sem það lenti í.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Svavar Gestsson spurðu um hlut Hafnarfjarðarbæjar í framleiðslugjaldinu. Þegar til framtíðar er litið, eða frá 1. janúar 1998, verður sambærileg hlutdeild af framleiddu áli um sex Bandaríkjadollarar á tonn. Hafnarfjarðarbær fær því hækkun á lágmarksgreiðslunni í beinu hlutfalli við stækkunina, en fær ekki eftir þetta hlutdeild í tekjuengda framleiðslugjaldinu. Það er meginbreytingin.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um samskipti verkalýðshreyfingarinnar og Ísals. Það hefur ekki nein umræða í þessum samningum átt sér stað á milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza varðandi þau mál. Þar er fyrst og fremst um að ræða bein samskipti fyrirtækisins við verkalýðshreyfinguna og í þeim farvegi held ég að hljóti að teljast eðlilegt að málin séu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir dró fram fjóra meginþætti í því sem gerði Ísland að vænlegum kosti til þess að fjárfesta. Eitt af því voru lág laun. Það kemur skýrt fram í öllum þeim kynningarritum sem gefin hafa verið út á vegum iðnrn., viðskrn., markaðsskrifstofunnar og nú síðast á vegum samstarfsverkefnis markaðsskrifstofunnar, iðnrn., viðskrn., Útflutningsráðs, Hitaveitu Suðurnesja og sveitarfélaganna á Suðurnesjum um sérstakt kynningarátak á Reykjanesi sem vænlegum fjárfestingarstað fyrir erlenda fjárfestingu að lág laun eru ekki notuð sem sérstök beita til að draga að erlenda fjárfestingu. Hins vegar er lögð áhersla á að miðað við það dýrmæta og velmenntaða vinnuafl sem hér er í boði, þá eru launin tiltölulega lág.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um samkomulag sem gert var um framkvæmd tiltekinna greina í skattakaflanum og lýst er í þætti 4.4 í greinargerðinni. Þar er um tæknileg útfærsluatriði að ræða og þau mál verða nákvæmlega kynnt í iðnn. Þetta fjallar fyrst og fremst um reglur til að tryggja að um eðlileg viðskipti sé ávallt að ræða milli þeirra sem í hlut eiga, þ.e. ef við lítum bara á aðstoðarsamningana sem þarna eru gerðir og hv. þm. vitnaði til, þá eru það samningar á milli Ísals og Alusuisse-Lonza. En þeir samningar verða að vera staðfestir af iðnrh. vegna þess að það er gert ráð fyrir því að sérfræðingar á vegum ráðuneytisins meti á hverjum tíma hvort þarna sé um eðlileg viðskiptatengsl að ræða og hvort þarna sé um það að ræða að tekjur Alusuisse af samningunum séu með þeim hætti að fyrirtækið sé ekki að skjóta sér undan sköttum eða öðru slíku svo menn tali alveg hreint út um það. Þessu er nákvæmlega fylgst með og byggir á framlögðum reikningum og eru í samræmi við kostnaðaráætlun þar að lútandi. Gert er ráð fyrir því að tækni- og hönnunarkostnaður í kringum þetta geti verið í kringum 2% af fjárfestingunni sem þarna um ræðir og telst það að ég hygg frekar lágt.

Herra forseti. Ég vonast til að ég hafi náð að svara flestum þeim spurningum sem hv. þm. hafa til mín beint. Sé svo ekki er ég tilbúinn til þess að taka það til athugunar og reyna að gera betur. Ég legg á það áherslu að ég tel að allar þær upplýsingar sem hv. iðnn. þarf á að halda verði lagðar fyrir nefndina þannig að hún geti lagt eins traust mat á málið og nokkur kostur er.