Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:55:32 (1276)

1995-11-23 18:55:32# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:55]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því ef ég hef ekki svarað öllum þeim spurningum sem hv. þm. bar fram. Í þessu stutta andsvari get ég reynt að svara nokkrum þeirra.

Varðandi samningana var ég að reyna að skýra það út áðan milli hverra þessir samningar væru. Þeir eru milli Ísals og Alusuisse-Lonza, hvert innihaldið er og hvernig er fylgst með því hvert fjármagnsstreymi á sér stað þar á milli. Ég treysti mér ekki til, hv. þm., að fullyrða neitt varðandi aðföngin. Það mál verður sérstaklega kannað og ég skal koma því til iðnn. þannig að þær upplýsingar liggi fyrir.

Hv. þm. spurði um verð til almennings eftir samninginn. Það er áætlun Landsvirkjunar að meðalverð til almenningsrafveitna muni haldast óbreytt á föstu verði fram til ársins 2000. Síðan muni það fara lækkandi, raunlækkun muni verða um 3% árlega frá þeim tíma. Þetta er kannski gleggsta dæmið um það hversu mikill ávinningur er að orkusamningnum sem þarna hefur verið gerður. Menn eru að horfa á það að á næstu árum geti raunverð til almenningsrafveitna farið lækkandi.