Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:57:39 (1278)

1995-11-23 18:57:39# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:57]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Engin áform eru uppi hjá ríkisstjórninni um frestun opinberra framkvæmda. Það er auðvitað svo að það má áætla að tekjur ríkissjóðs af þessum samningi gætu orðið á bilinu 500 millj. til 1 milljarður. Nákvæmar tölur í þeim efnum hef ég ekki en það er verið að reikna út áhrifin af samningnum nú um þessar mundir, með hvaða hætti tekið verður á því, þ.e. þótt tekjur ríkissjóðs muni sem betur fer aukast við samninginn hafa ekki verið uppi nein áform í því að skera niður opinberar framkvæmdir, engin ákvörðun af hálfu ríkisstjórnar verið tekin í þeim efnum.

Með þessu skattafyrirkomulagi sem um hefur verið samið er ljóst að það er verið að festa það í ákveðnum farvegi, a.m.k. til ársins 2014 (JóhS: Þá skatta sem núna eru?) Þá skatta sem núna eru, hv. þm., með leyfi forseta. Auðvitað er það svo að það verður þá að líta á allar þær breytingar sem í samningnum eru vegna þess að skattkerfið tekur sífelldum breytingum allt samningstímabilið 1995, 1997, 2001, 2004. Fyrst árið 2004 verður komið í fastar skorður en þannig verður það í 10 ár þangað til árið 2014. Þá fyrst geta menn hreyft við því með því að ákveða að framlengja ekki samningnum í 10 ár til viðbótar eins og lögin heimila.

Varðandi spurninguna um rofnu taxtana er það svo að þar er ekki við Landsvirkjun eina að sakast í þeim efnum. Það eru samningar sem gerðir hafa verið við Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu ríkisins og það er í engu sambandi við þann samning sem núna hefur verið gerður um sölu á þeirri umframorku sem verið hefur í kerfinu heldur er fyrst og fremst um það að ræða að álagstoppar eru mismunandi eftir árstímum og í þeim samningum sem hafa verið gerðir við þær atvinnugreinar sem um ræðir hafa menn vitað að þetta gæti gerst og verið undir það búnir og eru ekki að berast bara í þessi skipti á þessu ári. (Gripið fram í.) Ég hef ekki trú á því að það muni aukast, hv. þm.